12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Ef mig ekki misminnir hrapallega ræðum við hér um skýrslu hæstv. forsrh. um ástand og horfur í ríkinu. Hæstv. iðnrh. minnti okkur á það. Honum þótti umræðan hafa drepist á dreif. En sem betur fer setti hann hana aftur á réttan kúrs með því að rifja upp afrekaskrá forvera sinna á valdastóli, eins og t.d. hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar, með því að minna okkur á stjórnarsamstarf Sjálfstfl. og hv. 3. þm. Reykv. og minna okkur á arfinn sem hann tók við eftir ríkisstj. undir forsæti þeirra sjálfstæðismanna. Hann ræddi afrekaskrá og hann áréttaði eins og þeir stjórnarsinnar gera: Mikill er nú sá munur hvað við, sem nú höfum tekið við, höfum betrumbætt þennan árangur — náð betri árangri.

Ekki skal ég fullyrða neitt um það hvort sú sögufræga hofróða María Antoinette hefur notið slíkra ráðsnillinga, hvort nokkur hefur flutt henni skýrslu um ástand og horfur í ríkinu u.þ.b. sem hróp Parísarlýðsins buldu á gluggum hofróðunnar og lýðurinn hrópaði um brauð og frelsi, brauð og frelsi. En sögufræg og eftirminnileg eru svör hennar og reyndar harla viðeigandi að rifja þau upp hér. Hofróðan spurði með forundran: Hvers vegna borðar fólkið ekki kökur?

Satt að segja hvarflaði stundum að mér þegar ég hlýddi á skýrslu hæstv. forsrh. og ræðu hæstv. aðstoðarforsrh., 1. þm. Suðurl., að þeim veitti ekki af sjálfum að fá skýrslu um ástand og horfur í ríkinu og þeim veitti ekki af að skynja ögn betur hvers vegna komið er í óefni í þessu landi, hvernig á því stendur að nú eru uppi tvær þjóðir í þessu ríki, önnur sem lifir í vellystingum pragtuglega og hin sem lepur dauðann úr skel, hvernig á því stendur að atvinnuvegir ríkisins eru að drabbast niður og hvernig á því stendur að þessar tvær þjóðir hafa nú sagt sig úr lögum hvor við aðra og berast á banaspjótum, hvers vegna þjóðfélagið er raunverulega að lamast, höktandi hér á einum strokki, ef svo mætti að orði komast. Og ráðþrota ríkisstj. vísar á afrekaskrá sína og skilur hvorki upp né niður í hvers vegna er komið sem komið er.

Ef menn vildu reyna að halda eitthvað utan um þessa umræðu, sem hér hefur farið fram, kemur mér helst í hug að varpa fram tveimur spurningum. Sú fyrri er: Hvers vegna er komið sem komið er? Og hin síðari er að sjálfsögðu: Hvað er til ráða? Hvað er hægt að gera til þess að ráða bót á því ástandi sem ríkir?

Ef við víkjum aðeins að kenningum manna og hugmyndum um fyrri spurninguna, hvers vegna er svona komið, þá virðist mér að ein ástæðan fyrir því sé sú að við horfum hér og hlustum á sjálfumglaða ráðamenn. Má ég minna ykkur á að í skýrslu hæstv. forsrh. komst hann að orði eitthvað á þá leið að að sönnu hefðu þau markmið, sem núv. hæstv. ríkisstj. setti sér í upphafi, að mestu náðst, jafnvel náðst með slíkum glæsibrag að menn undruðust hvort myndin væri sönn. Hann sagði: Það eru algjör umskipti. Við höfum náð verðbólgunni niður, óðaverðbólgunni sem fór eldi um þetta þjóðfélag, úr 130% niður í viðráðanlegar stærðir, 10–20%. Þótt ég minni á að jafnvel þær tölur þykja ekki samkvæmishæfar í öðrum ríkjum. Við höfum náð þessum árangri, sagði hæstv. forsrh.

Er það satt? Er það rétt? Hafið þið náð þessum árangri? Ég held ekki. Ég held að það viti hvert einasta mannsbarn hér inni að það eruð ekki þið sem hafið náð þessum árangri. Þeir sem hafa náð þessum árangri eru hin þjóðin í landinu, sem trúði ykkur til dyggðugra verka, sem treysti á að þið meintuð það sem við sögðuð, að þið vilduð fara fram á það að hún fórnaði af lágum launum sínum, þriðjungi þessara launa, í trausti þess að þið fylgduð því eftir og stæðuð við ykkar hluta af samningnum. Hver var hann? Að framkvæma hér gagngerar þjóðfélagsbreytingar í kjölfarið á því griðaári sem ykkur var gefið til þess að ná eðlilegu jafnvægi, til þess að treysta rekstrargrundvöll atvinnuvega, til þess að geta boðið því fólki, sem fórnirnar færði, upp á bjartari tíð, upp á von um bætt lífskjör. Þið segið „Við höfum náð þessum árangri“ og hreykist um. Og hæstv. iðnrh., meðan ég man, sagði að nú væri ekki tíminn fyrir spraðibassa og pólitíska gasprara að leggja til mála. Nei, nú ættu ábyrgir stjórnmálamenn að eiga hlut að málum, eins og hæstv. iðnrh. væntanlega.

Hann talar um afrekaskrá. Hver er afrekaskráin? Þegar hæstv. forsrh. var að dást að árangri þeirra sagði hann: Við höfum haldið stöðugu gengi. Við höfum ekki hreyft það miklu meira en um 5% , eins og við sögðum í upphafi. Hann fór flott yfir það að reyndar var dulbúin gengislækkun, en það hét ekki gengislækkun. Það hét breyting á gengismælingarvog eða eitthvað þess háttar. En hvert er þetta afrek að halda stöðugu gengi? Halda menn virkilega að stjórnmálamenn ákveði gengi íslensku krónunnar með einhverjum viljayfirlýsingum? Það veit hver einasti maður á Íslandi, sem eitthvað fæst við viðskipti og rekstur, ég tala nú ekki um þá sem stunda sjávarútveg, að gengið á Íslandi er kolvitlaust skráð, að það er fallið um 20%. Og hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir að sjávarútvegurinn og útflutningsframleiðslugreinarnar á Íslandi, sem fá greitt fyrir sínar útflutningsafurðir í erlendum gjaldeyri, eru sviptar tekjum sínum sem svarar 20%. Og hvað þýðir það? Afleiðingin er sú að þessar sjávarútvegsgreinar, — sem hafði verið riðið á slig í tíð forveranna, í sjávarútvegsráðherratíð núv. hæstv. forsrh. — þessi sjávarútvegur, sem skuldar kannske 10 milljarða í erlendum gengistryggðum lánum, er skattlagður í þágu milliliða. Auðvitað getur þessi stjórn ekki breytt genginu vegna þess að þá mundu þeir endanlega ríða merinni á slig. En vitlaus gengisskráning þýðir að þau fyrirtæki í sjávarútvegi, sem eiga að halda uppi atvinnunni í landinu, fá ekki „réttar“ tekjur til sinnar útflutningsgreinar. Þess vegna hafa þau enga getu til að greiða vinnandi fólki í undirstöðuatvinnuvegum eðlileg laun. Og til hvers leiðir það ella? Það þýðir að innflutningurinn til landsins er á vitlausu verði. Hann er á gjafaprís. Það innflutningsæði er fjármagnað hvernig? Með hóflausum, botnlausum erlendum lántökum. Hverjar eru þær? 3.5–4 milljarðar kr. sem er búið að spreða í erlendum viðbótarlánum í gegnum bankakerfið. Hverjir nota þessi lán? Til hverra eru þau notuð? Skyldi fólkið hjá BSRB, sem stóð á hljóðlátum og virðulegum útifundi, vera fólkið sem hefur eytt þessum peningum? Er það fólkið sem er að byggja villurnar í Stigahlíðinni? Er það Stigahlíðarþjóðin?

Við höfum náð árangri. Við höldum genginu föstu. — Þeir eru sokknir í sömu súpuna og fyrrv. hæstv. ríkisstj. sem gerði tilraun til að binda gengið fast á tímum þegar dollarinn var sterkur og hækkandi, þegar afli var í hámarki á næstmesta eða þriðja mesta aflaári Íslandssögunnar. Og hvað stóð sú tilraun lengi? Hún stóð í eitt ár. Með hvaða afleiðingum? Með þeim afleiðingum að sjávarútveginum var sökkt í þvílíkar skuldir að hann hefur ekki náð sér upp úr þeim enn. Hvers konar imbahagfræði er þetta, að það sé á valdi einhverra ráðherra að binda fast gengi án tillits til allra staðreynda efnahagslífsins um framboð og eftirspurn, um rekstrargrundvöll atvinnuvega, um kostnaðarhækkanir innanlands, um ríkisfjármál, um bankamál, um vexti? Hér er verið að endurtaka nákvæmlega sömu vitleysuna. En svo er hæstv. iðnrh. að ráðast á forvera sína og núverandi samstarfsmenn fyrir það hvernig þeir sukkuðu og keyrðu öllu á slig. Það dapurlega við örlög þessarar ríkisstj. er nákvæmlega það að nú er þessi ríkisstj. orðin alveg eins og hin og allar hinar. (Gripið fram í: Það var þó til landavog í ágúst. Það hét landavog.) Já, það er rétt.

Við höfum náð svo góðum árangri í ríkisfjármálum. Hver er árangurinn í ríkisfjármálum? Þetta þing sat yfir því allan s.l. vetur að það var ekki hægt að koma saman hallalausum fjárlögum. Þar var gat upp á 2 milljarða. Hvernig var því bjargað? Því var bjargað upp á gamla góða mátann, með því að slá erlend lán. Meira að segja voru slegin erlend lán fyrir barnsmeðlögunum.

Og hvert er svo ástand atvinnuveganna eftir þennan mikla árangur? Ástandi atvinnuveganna verður best lýst í hnotskurn í Vestmannaeyjum. Stærstu frystihúsin þrjú eru lokuð, taka ekki á móti fiski. Það er ekki tekið á móti fiski í öflugustu verstöð landsins og búið að standa svo vikum saman. Hvað gerist svo? Ef einhver kvóti er óveiddur, á þá að veiða hann? Jú, þá er skellt á verkfalli til þess að knýja bátana til þess að sigla ekki, heldur skulu þeir landa heima þrátt fyrir þá staðreynd að það er ekki tekið á móti fiski í Vestmannaeyjum. síðan hvað? Verkfall opinberra starfsmanna, m.a.s. áfengisútsalan er lokuð. Síðan hvað? Flug, útvarp, sjónvarp. Vestmannaeyjar eru nánast lamaðar og lokaðar og einangraðar. Þetta er forsmekkur af því sem er að gerast hérna úti um alla strandlengjuna. Hvað er að gerast á Akranesi? Og hvað halda menn að gerist? Við tölum hér um verkfall opinberra starfsmanna. En hvað er að gerast í íslensku þjóðfélagi þegar svona er komið fyrir þeim atvinnuvegi sem allir menn hér inni vita að við lifum á? Hann er að hrynja. Svo koma hæstv. ráðh. hér, hver á fætur öðrum, og hreykja sér af árangrinum og eiga ekki nógu stór orð í hneykslan sinni til þess að tala um forvera sína, fyrrv. samstarfsmenn. Ég spyr: Skilja menn, sem svo tala, yfirleitt nokkuð hvað er að í íslensku þjóðfélagi? Er nokkuð að? Er yfirleitt nokkuð að? Er ekki allt í fína lagi? Höfum við ekki náð góðum árangri? Árangurinn er sá að það er vitlaust gengi, hruninn sjávarútvegur, erlendar skuldir hafa stórvaxið, það er innflutningsæði, það er vaxandi viðskiptahalli. Þó voru gerðar „tímamótamarkandi ráðstafanir“, eins og hv. 1. þm. Suðurl. kemst gjarnan að orði. Það voru tímamótamarkandi aðgerðir að taka upp jákvæða raunvexti á bilinu 10–17%. Það eru hæstu okurvextir sem þekkjast í heiminum. Sem hverjir eiga að bera með leyfi? Sjávarútvegur sem er að hruni kominn? Húsbyggjendur? Húsnæðislánakerfið var nú ekki burðugt í tíð hv. 3. þm. Reykv., en er endanlega lagt í níst undir stjórn hæstv. félmrh. Alexanders Stefánssonar eins og síðar verða færðar sönnur á, ekki í þessari ræðu heldur undir öðrum dagskrárlið.

Ég var að spyrja einnar spurningar: Hvers vegna er komið sem komið er? Auðvitað vita allir ráðh. hér inni, auðvitað veit allur stjórnarþingmannaskarinn að ríkisstj., sem fékk stórkostlegt tækifæri upp í hendurnar, sem hlaut mikinn trúnað þjóðarinnar, fékk óskabyr vegna þess að allir vissu að það var komið út í þvílíkar ógöngur í tíð fyrrv. ríkisstj. að nú varð að brjóta í blað, nú urðu að verða umskipti. Og það sorglega er að nú stendur þessi ríkisstj., rúmu ári síðar, rúin trausti vegna þess að hver einasti maður, ráðherrar, þm., BSRB-fólkið, fólkið í verstöðvunum úti um allt Ísland, veit að því miður níddust þeir á þeim trúnaði sem þeim var sýndur. Þeir hafa brugðist. Það er alveg laukrétt sem hver þm. á fætur öðrum segir-þeir vita það líka í Vinnuveitendasambandinu manna best að þessi ríkisstj. er búin að vera. Menn hafa stundum orðað það svo um einn merkasta stjórnmálamann Íslands, einn hugmyndaríkasta og frjóasta stjórnmálamann í sögu þjóðarinnar á þessari öld, að hann hafi gengið áratugum saman á eftir sinni eigin pólitísku jarðarför. Hlutskipti þessarar ríkisstj. verður það sama vegna þess að þegar þessari deilu lýkur, þegar sættir hafa náðst, hvernig verður þá komið? Þá verða stjórnarherrarnir að sætta sig við það að þeir verða að skila aftur hluta af þeim launum sem af fólkinu voru tekin. Og hvað þýðir það? Munið þið talnaraðirnar sem hæstv. forsrh. þuldi í gær? Það þýðir að verðbólgan verður innan tíðar komin upp á sama stig og þegar þeir tóku við af því að þeir hafa ekki náð neinum árangri gegn verðbólgu. Fólkið hefur náð árangri gegn verðbólgu með því að afhenda launin sín. En þegar að því er komið að ráðh hafa ekki staðið við sinn hluta, og þeir verða núna, úr því sem komið er, að skila aftur ránsfengnum, þá er árangurinn búinn vegna þess að þeir hafa ekkert gert. Þeir hafa ekkert gert í ríkisfjármálum. Þeir hafa klúðrað öllu sem heitir stjórn peningamála og vaxtamála. Þeir hafa gjörsamlega látið undir höfuð leggjast að skapa útflutningsatvinnuvegunum rekstrargrundvöll. Þeir hafa engum árangri náð. Svo einfalt er það.

Ég held ég þurfi ekki að staldra lengur við skýringar hæstv. forsrh. né heldur við skýringar hæstv. iðnrh. Þær standast ekki. Hvað um skýringar hæstv. fjmrh.? Hæstv. fjmrh. er að mörgu leyti ákaflega væntumþykjanlegur maður með stórt hjarta. Venjulega hefur hann einfaldar skýringar á öllum hlutum. Hans stóri blóraböggull og sá eini er venjulega: Kommúnistarnir, kommúnistarnir. Það eru kommúnistar í þessu. En nú er það ekki lengur. Nú er kominn upp nýr sökudólgur í þessu þjóðfélagi. Það eru kommúnistakennararnir. Það eru kennarakommúnistarnir sem valda öllum þessum ósköpum. Kennararnir eru hin nýja forréttindastétt á Íslandi. Það eru þeir sem hafa makað krókinn. Það eru þeir sem eru að efna til byltingar í þjóðfélaginu. — Jú og einhverjir kommúnistar vestur á fjörðum heimta grundvallarbreytingar á þjóðfélaginu, sjálfri þjóðfélagsgerðinni. Þeir eru byltingarsinnar. Ég verð að segja fyrir mig af því að ég var einu sinni ungur maður og kommúnisti, að mér rennur það yfirleitt til rifja þegar ég sé svokallaða kommúnista á Íslandi í dag. Það eru einhver íhaldssömustu dauðyfli og kerfiskallar sem uppi eru í þjóðfélaginu. Þeir hafa engu hlutverki að gegna í íslenskri pólitík öðru en að standa vörð um úrelt kerfi. Þeir hafa stjórnað Íslandi í átta ár og með hvaða árangri? Að hanga eins og hundar á roði við að verja spillt og rotið kerfi. Það eru þeirra ær og kýr. Það eru kommúnistarnir. En ég hélt að Albert Guðmundsson, hæstv. fjmrh., væri af allt öðru sauðahúsi. Ég hélt að hann væri uppreisnannaður gegn bákninu. Ég hélt að hann væri á móti kerfinu. Menn tóku t.d. eftir því þegar hann var að ræða lögbrotin. Lögbrot? Ja, lögbrjótar. Það eru menn sem eru í uppreisn gegn kerfinu. Og ég hélt að hæstv. fjmrh. væri það, að hann væri róttækur maður sem vildi breytingar á kerfinu. Ég hélt að hann vildi skera niður ríkisbáknið. Ég hélt að hann vildi jafnvel leggja niður Seðlabankann eins og kommarnir á Vestfjörðum. Ég hélt að það væri fyrsta krafa hæstv. fjmrh. að leggja niður Seðlabankann, að minnka kerfið, auka hlut hins almenna einstaka borgara. En nú hefur þetta allt snúist við. Nú eru það væntanlega kommúnistakennararnir sem eru með róttækar kröfur um breytingar. En þarna situr hæstv. fjmrh., einkavinur hins litla manns og formanns Dagsbrúnar, hins stóra manns, og segir: Við verjum kerfið gegnum þykkt og þunnt. Verjum kerfið. Verjum Seðlabankann m.a.s.

Skýringar leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem stundum er kallaður, á ástandinu, hv. 3. þm. Reykv. Svavars Gestssonar, eru mér ekki að öllu leyti skiljanlegar. Ég skal taka það fram að ég met Svavar ákaflega mikils. Hann er einn málsnjallasti maður á þingi, ákaflega karlmannlegur og vaskur í allri framgöngu, og fylgir mikill sannfæringarkraftur orðum hans ef maður nær að skynja hver boðskapurinn er. Mér skildist helst á honum, ég fékk það helst út úr ræðu hans, að hann teldi að nú hefðu orðið umskipti til hins verra á Íslandi vegna þess að mennirnir sem tóku við af honum í fyrra séu verri menn en Svavar sjálfur og félagar. Allir vitum við að hv. þm. Svavar Gestsson er heiðursmaður. En séu þessir verri menn, hafa þeir þá eitthvað skemmt þann árangur sem hv. þm. Svavar Gestsson náði? Ég bara spyr. Er ekki erlend skuldasöfnun á líku róli og hún var? Er ekki fjármálaóstjórnin ósköp svipuð og hún var? Er ekki bankamálastjórnin ósköp svipuð og hún var? Er ekki viðskiptahallinn heldur minni en hann var, en þó á uppleið? Er ekki ástand atvinnugreina ósköp svipað og það var? 1982 var eitt besta ár í sjávarútveginum. Samt tókst félaga Gestssyni að koma sjávarúrveginum á slig og þeim félögum. Undan hverju er hann að kvarta? Er þetta ekki ósköp svipað? Ætli þetta séu ekki bara bærilegir menn? Ætli þeir séu nokkuð verri menn?

Það var minn barnaskólalærdómur að mér finnst þetta vera vondur marxismi. Menn ræða ekki pólitík út frá því hvort menn eru góðir eða vondir, jafnvel ekki heldur greindir eða vitlausir. Menn ræða pólitík út frá spurningunni um það hvernig á að gera hlutina. Og það er ágreiningur um leiðirnar. En mér sýnist hv. þm. Svavar Gestsson ekki hafa undan neinu að kvarta. Þetta er ósköp svipað og þegar hann skildi við. Ríkisstj. er ósköp svipuð og þær sem á undan hafa gengið.

Ég hafði gaman af því þegar skoðanabræður mínir í Bandalagi jafnaðarmanna settu fram sínar skýringar. Eins og allir menn vita, sem eitthvað hafa kynnt sér jafnaðarstefnu, er hún sá partur sannleikans í hugmyndafræðinni að jafnaðarmenn segja: Við erum lýðræðissinnar í öllum okkar athöfnum. Við tökum lýðræði sem okkar pólitísku aðferð. En síðan er það kjarni alls sósíaldemókratismus að segja: Frjálsar hreyfingar almennings, hið pólitíska lýðræði virkjað í fjöldahreyfingum, stjórnmálaflokkum, verkalýðshreyfingum, reynir umfram allt að ná tökum á ríkisvaldinu. Til hvers? Til þess að breyta tekjuskiptingunni almenningi í hag gegn ofurvaldi fjármagnsins. Um það snýst jafnaðarstefna.

Það hefur oft vafist fyrir mér að skilja hvernig á því stóð að það þurfti að stofna nýjan flokk jafnaðarmanna og jafnvel bandalag þeirra. En það er að renna upp fyrir mér að sennilega hefur verið á því bráð nauðsyn vegna þess að helsta kenning þessa flokks er sú að ríkisvaldið eigi alls ekkert að skipta sér af þessu þjóðfélagi, skilst mér. Ríkisvaldið á alls ekki að skipta sér af vinnumarkaðnum. Það eiga að vera frjálsir menn við frjálsa samninga við frjálst samningaborð.

Nú vill að vísu svo til að ríkisvaldið er í þessum sósíaldemókratísku þjóðfélögum vinnuveitandi eitthvað um 20 þúsunda manna og í beinum samningatengslum við þá. Ég skil því ekki almennilega hvernig hjá því verður komist að reyna að gera einhverja samninga við þessa starfsmenn. Kjarasamningarnir eru milli hæstv. fjmrh. og þessara 20 þúsunda. Ég sé heldur ekki annað en að það sé hlutverk ríkisvaldsins, þegar allt er komið í óefni eða samningar nást ekki eða þjóðfélagið er að lamast, að grípa inn í — helst með fyrirbyggjandi aðgerðum. Það er a.m.k. minn sósíaldemókratíski barnalærdómur.

Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Guðmundar Einarssonar að hann sagði að frjálshyggjupeyjarnir ungu, sem eru að taka völdin í Sjálfstfl., hefðu lesið það í útlendum bókum eftir köllum eins og Friedman og Hayek, að hið sósíaldemókratíska velferðarríki væri af hinu vonda vegna þess að það æli upp eymingja, losaði fólk undan ábyrgð á sjálfu sér og kæmi því á framfæri ríkisins, gerði það að ómögum, ónytjungum. Þá datt mér í hug að telja saman þáltill. sem liggja fyrir frá BJ núna á fyrsta degi þingsins. Mig minnir að þau hafi verið tólf ríkisfyrirtækin sem bandalagið leggur til í þáltill., í einni setningu, að verði lögð niður. Það eru Síldarverksmiðjur ríkisins, Skipaútgerð ríkisins, Ferðaskrifstofa ríkisins, Jarðboranir ríkisins, Framkvæmdastofnun ríkisins, Ríkismat sjávarafurða, Fiskifélag Íslands, skipulagsstjóraskrifstofa, aðild að Búnaðarfélagi Íslands, Húsnæðisstofnun, tæknideild, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar, húsameistari ríkisins,Fasteignamat ríkisins. Hver er rökstuðningurinn fyrir því að leggja niður þessa ríkisforsjá? Hann kemur fram í grg. —Til hvers að vera að ala aumingja sér við brjóst sem ekkert gagn gera? Af hverju ekki að beina þessum peningum frekar að hagnýtari verkefnum og hugsanlega í höndum aðila sem hefðu hagsmuna að gæta sjálfir í því að reka þessa þjónustu betur? Hvað er frjálshyggja af útlendum bókum? Ég bara spyr.

Ég tek það fram að ég er ekki endilega ósammála þessu. Það getur vel verið að ég gæti orðið sammála þessum tillöguflutningi að ýmsu leyti. Hins vegar kann ég illa við að bera slíkt traust til dauðvona eða reyndar steindauðrar ríkisstj. að leggja fram þáltill. um það að hún, þ.e. hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson, framkvæmi þetta. Nær væri að setja þetta í lög og taka fram hvernig maður vildi leysa málin í staðinn.

En punkturinn í málinu var þessi: Hver er boðskapur frjálshyggjudrengjanna sem lesa Friedman og Hayek? Hann er að ríkisvaldið á ekkert að skipta sér af kjarasamningum. Þeim mun minna ríkisvald þeim mun betra ríkisvald. Þetta er ekki ný hugmynd. Adam Smith var ekki sá fyrsti með hana og Hayek er ekki sá seinasti með hana. Stefán Benediktsson er heldur engan veginn sá seinasti sem hampar henni. En hvort þetta er jafnaðarstefna, það er ég ekkert viss um. Hún þarf ekki að vera verri fyrir það.

Sérkennilegasta kenningin sem fram hefur komið í þessum umr. er að sjálfsögðu sú sem aðstoðarforsrh., 1. þm. Suðurl., setti fram. Hún kom ekki nægilega skýrt fram við þessar umr. En hann setti hana fram í viðtali við Morgunblaðið með þeim hætti að það má til að komast í þingtíðindin. Hv. þm. var í þessu viðtali að ræða hið gagnmerka samkomulag stjórnarflokkanna, þ.e. um hinn nýja málefnasamning stjórnarflokkanna þegar þeir voru búnir að framkvæma hinn gamla. Þar segir hv. þm.:

„Ég er sannfærður um það, að auðnist okkur að viðhalda því verðbólgujafnvægi, sem náðst hefur, og þjóðin eyðileggur ekki þann árangur er hægt á grundvelli þess samkomulags að hefja þá sókn til bættra lífskjara sem við höfum lengi stefnt að.“ — Ég endurtek: viðhalda því verðbólgujafnvægi, sem náðst hefur, og þjóðin eyðileggur ekki þann árangur sem við höfum náð.

Það er greinilega mikill aðdáandi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem hér talar, enda stundum af mikilli ósanngirni kallaður blaðafulltrúi hennar. En það er tímamótamarkandi kenning þegar því er haldið fram að nái ríkisstj. árangri, en þjóðin vill eyðileggja þann árangur, eigi þjóðin að víkja. Ríkisstj. sem hefur náð árangri má að sjálfsögðu ekki víkja. Það er þjóðin sem á að segja af sér. Það ber að álykta út frá þessu að skipta eigi um þjóð. Þjóðin verðskuldar ekki þessa ágætu ríkisstj.

Reyndar vil ég taka það fram að stjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, sem greinilega er ekki í frjálshyggjuarminum, hefur í frægu Reykjavíkurbréfi látið það fram koma að hann er ekki alveg eins heitur aðdáandi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og formaður Sjálfstfl. Hann segir í þessu Reykjavíkurbréfi að haldi þessi ríkisstj. fram sem horfi muni ríkisstj. takast nákvæmlega þetta: Nefnilega að flæma úr landi hina ungu, hina snauðu og hina vonsviknu. M.ö.o.: ríkisstj. sé á góðri leið með að ná þeim tímamótamarkandi árangri að skipta um þjóð.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þessar kenningar, þessar skýringar á því að komið er sem komið er. Ég held að það þurfi út af fyrir sig ekkert að vefjast fyrir mönnum. Það má kannske kvarta eitthvað undan því að þessi umræða hafi drepist á dreif. Engu að síður er hún fróðleg. Hún fer fram við þau skilyrði að ríkisstj., sem miklar vonir voru bundnar við, fékk gott brautargengi í upphafi, hefur brugðist, því miður.

Þá spyr ég annarrar spurningar: Hvað á að gera? Hvað á að gera úr því sem komið er? Þar er ein grundvallarstaðreynd sem menn verða að skilja. Hún er sú að það eru tvær þjóðir í þessu landi, úr því sem komið er. Önnur þjóðin vinnur einhvern lengsta vinnudag sem unninn er í Evrópu við einhverju lægsta kaupi sem greitt er í Evrópu, en býr við eitthvert hæsta verðlag sem þekkist í Evrópu. Þessi þjóð hefur fært miklar fórnir. Hún hefur afsalað sér þriðjungi af laununum sínum í trausti þess að hún sjái fram á betri tíð. Þessi þjóð hefur verið svikin. Þessi þjóð náði árangri, ekki ríkisstj.

En ég segi: Það er til önnur þjóð í þessu landi. Sú þjóð hefur engar fórnir fært. Hún skammtar sér sín eigin lífskjör. Hún greiðir ekki sinn hlut í sameiginlegum kostnaði landsmanna við að halda uppi íslensku þjóðfélagi. Það er þessi þjóð, hin þjóðin, sem nú er búin að tæma bankana með innflutningsæði sem hún fjármagnaði að stórum hluta með erlendum lánum. Það er þessi þjóð sem ætlar að fara að byggja í Stigahlíðinni. Hin þjóðin er mestan part á götunni. Það eru þessar tvær þjóðir sem nú hafa sagt sig úr lögum hvor við aðra. Og ég spyr: Hvor þjóðin hefur náð meiri árangri? Hvor þjóðin hefur náð árangri gegn verðbólgunni? Og hvað hefur sú þjóðin, sem fórnirnar hefur fært, til saka unnið við þessa ríkisstj. annað en það að hafa e.t.v. kosið hana yfir sig?

Í raun og veru á að snúa þessari spurningu við og spyrja: Hvernig stendur á því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur eyðilagt árangur þjóðarinnar? Og mitt svar við því er ákaflega einfalt. Mín skýring á því hvers vegna þetta hefur mistekist er ákaflega einföld. Hún er þessi: Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur nú tapað allri stjórn á atburðarásinni vegna þess að hún hefur misboðið réttlætiskennd þessarar þjóðar.

Og hvað á þá að gera? Hv. 6. þm. Reykv. Ellert Schram sagði, um leið og hann lýsti því að fátt hefði breyst á Alþingi frá því hann sat hér fyrr, að hann hefði ekki orðið þess var að stjórnarandstaðan hefði neitt jákvætt fram að færa í þessum málum. Ég man ekki betur en þau orð kæmu líka fram af munni hæstv. iðnrh. Sorgleg staðreynd ef satt væri. Sennilega má kvarta undan því að í þessum umr. hafi jákvæður tónn, þ.e. viðleitni til þess að skýra sín eigin úrræði, ekki komist nægilega vel til skila.

Fyrsta atriðið, sem ég vil reyna að leggja áherslu á, er það að hin þjóðin hefur verið hlunnfarin í samskiptum við ríkisstj. Hún er ekki fyrst og fremst að heimta prósentur. Hún er að krefjast réttlætis. Ef það á að fullnægja réttlætinu þýðir það á einföldu mannamáli að færa verður til fjármuni í þessu þjóðfélagi. Það verður að færa til fjármuni frá þeim sem hafa makað krókinn í tíð þessarar ríkisstj. og reyndar lengi áður til þeirra sem búa við óviðunandi lífskjör og hafa þegar lagt á sig byrðar sem eru þyngri en þeir einir fá borið. Það er laukrétt, þegar menn tala um þjóðarsátt, að við höfum því aðeins frið að við höfum ein lög — „frið með frelsi“, segja sjálfstæðismenn stundum þegar þeir eru að ræða utanríkispólitík, „frið með réttlæti“, skulum við segja, þegar við ræðum okkar eigin málefni.

Af hverju setja opinberir starfsmenn fram kröfu um 30% kauphækkun? Aðspurðir svara þeir: Það er það sem af okkur var tekið, 30%. Nú vita allir menn, líka allir opinberir starfsmenn, að þótt þeir fengju 30% kauphækkun í krónutölu á morgun, þótt hæstv. forsrh. vildi nú af gæsku sinni — hann er ákaflega bóngóður maður eins og allir menn vita — knýja það fram í gegnum ríkisstj. að gengið verði að óskum þeirra og uppfylltar kröfur þeirra, skilað aftur 30 prósentunum, þá vita það allir menn af sárri reynslu margra áratuga að þessi 30% yrðu horfin viku seinna. M.ö.o.: Þó að krafan sé sett fram, vegna þess að hún er réttur reikningur, þá fæst sá reikningur ekki greiddur í ósvikinni mynt. M.a. var hæstv. iðnrh. að tala um að hann ætlaði að framvísa þeim Alþb.-mönnum reikningi upp á 2.5 milljarða fyrir aðgerðaleysi í raforkumálum. Reikningurinn sem BSRB er nú að framvísa er akkúrat 30%. Það var það sem af þeim var tekið. En þeir vita að þeir munu ekki fá það. Ef þeir fengju það fengju þeir það í svikinni mynt. Þeir fengju það í verðþynntum gjaldmiðli vegna þess að í kjölfarið kæmi að sjálfsögðu gengislækkun.

Þá er spurning númer tvö: Hvernig stendur á því, fyrst ríkisstj. segir: Ja, þið megið ekki hafa þetta svona mikið í krónutölu, það er svikin mynt, að hún leggur ekki fram aðrar tillögur? Verkalýðshreyfing getur ekki gert annað en sagt: Hér eru okkar kröfur. Ef ekkert er við okkur talað förum við í verkfall. — En það er stjórnvalda að gera eitthvað í tæka tíð, vegna þess að það eru engin ráð til nema til þeirra sé gripið í tæka tíð, að fyrirbyggja að til slíks ástands komi, með því að leggja á borðið sín svör við því hvað þau eru reiðubúin að gera í staðinn. Auðvitað er það grundvallarstaðreynd í þessum umræðum, sem fram kom held ég skýrast í máli hv. þm. Guðmundar Einarssonar, að ríkisstj. er að setjast að samningaborði viku eftir að verkfali er hafið, og segir hvað? Hún er með almennt skattalækkunarsnakk. Ég veit ekki betur en að það hafi verið samþykkt á seinasta þingi, að frumkvæði Alþfl.manna og sjálfstæðismanna, tillaga um skattalækkun, tekjuskattslækkun í þremur áföngum. Ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. hljóti að vera búinn að láta vinna þá vinnu í smáatriðum vegna þess að hann lagði í gær fram fjárlagafrv. þar sem er ráð fyrir því gert að tekjuskattar séu lækkaðir um 600 millj. Ef menn ætla að bjóða meira, stærri áfanga, við skulum segja 1100 millj. eins og nefnt var í gær af hæstv. forsrh., að tekjur manna verði tekjuskattsfrjálsar kannske yfir 30 þús. kr. á mánuði, hvernig stendur þá á því að sú vinna er ekki unnin? Hvernig stendur þá á því að ríkisvaldið mætir til samninga og er með almennt snakk og minnisblöð? Ef það er einbeittur vilji ríkisstj. að leysa deiluna með þessum hætti, með því að draga úr peningalaunahækkunum, þá er auðvitað fyrsta skylda hennar að leggja á borðið tillögur: Hvernig viljum við leysa ykkar mál ella? Ætlum við að gera það í skattalækkunum? Þá nákvæmlega hvernig, til hvaða hópa? Hvað verður skattbyrðin miklu minni fyrir vikið? Á það að vera að hluta til í útsvörum? Ætlar ríkisstj. að afnema vísitölubindingar í sambandi við lánskjör? Og hvað með vextina?

Þetta er nú orðinn slíkur brandari, öll þessi vaxtaumræða, að það tekur engu tali. Munið þið, sem hér eruð staddir, eftir fyrirlitningu talsmanna Framsfl., talsmanna Alþb. á því sem þeir kölluðu hávaxtastefnu kratanna, þegar við vorum að berjast fyrir þeirri einu efnahagslegu umbót, sem kom fram á vitlausa áratugnum, sem var að verðtryggja sparifé, þegar ástandið var þannig að vextir voru neikvæðir, raunvextir voru neikvæðir um þetta 17–20% og bankastofnanir íslensku þjóðarinnar stunduðu aðallega bankarán? Það fór fram bankarán á degi hverjum. Það er alveg laukrétt sem iðnrh. sagði. Það var milljörðum króna stolið af fátæku fólki á Íslandi, öldruðu fólki, og það fært yfir til eignaaukningar í sjóði atvinnurekenda. Við höfðum kjark til þess að berjast fyrir breytingum á þessu. Og eins og venjulega þegar Alþfl. leggur fram í tæka tíð skynsamlegar tillögur, hvort sem það er í landbúnaðarmálum eða í sjávarútvegsmálum eða í vaxtamálum eða í efnahagsmálum almennt, þá getum við gert okkur vonir um það að hinir taki við eftir 20 ár. (EKJ: Eitt frammíkall?) Jú: (EKJ: Var það í tæka tíð þegar það var lögbundið á þriðja ár að vextir skyldu ekki ná verðbólgunni og þar með kýlt áfram með hækkandi vöxtum, sem voru komnir áður en ...?)

Þessi aths. er að því leyti gild að það var ekki í tæka tíð. Þó að við höfum hafið þessa baráttu árið 1976 komst hún ekki í framkvæmd fyrr en árið 1979 og þá ekki nema að hluta til í framkvæmd. Og það skal fúslega játað að vaxtaaðgerðir einar sér, það að hafa raunvexti, hóflega raunvexti, eru ekki nóg til þess að ráða niðurlögum verðbólgu. Enda, þegar við fengum ekki framgengt öðrum ráðum, lögðum við það mikið undir að við sögðum okkur úr ríkisstj. frekar en bera ábyrgð á þeim ósóma. Og mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar.

Núna eru þessir hinu sömu menn, andstæðingar hávaxtanna, að bjóða þjóðinni og atvinnuvegum upp á þvílíka okurvexti að jafnvel Reagan mundi blygðast sín fyrir. Ég spyr: Er það rétt eða er það rangt að innan ríkisstj. sé algjör ágreiningur í þessu máli? Ég vildi gjarnan fá það t.d. upplýst hvort 1. þm. Suðurl. og formaður Sjálfstfl. hafi sett hnefann í borðið og sagt: Lækkun vaxta er ekki til samninga? Ég spyr að gefnu tilefni. Ég spyr af því tilefni að hæstv. forsrh. og aðrir framsóknarmenn hafa — má ég vitna í hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson — talað um vaxtaslys. Aðrir hafa talað um okurvexti og að vexti þurfi að lækka. Þetta er ekkert smámál. Það kom fram í umr. hér í gær, mig minnir í máli hv. þm. Guðmundar Einarssonar, hvað vaxtahækkunin í húsnæðismálunum þýddi fyrir lífeyrissjóðslántaka í sambandi við húsnæðismálin. Tugi þúsunda króna á ári. Þetta er ekkert smámál.

Ég segi: Það er áreiðanlegt að ef ríkisstj. leggur spilin á borðið og skilgreinir hvað það er sem hún raunverulega er að bjóða í formi lækkunar tekjuskatts, hversu stóran áfanga og hvernig framkvæmdan, það er alveg áreiðanlegt að ef hún leggur það á borðið að hún ætli að beita sér fyrir lækkun útsvars neðan frá, klippa neðan af útsvarinu og lækka útsvarsbyrðina, ef hún ætlar að leggja á borðið svör sín við því sem heitir lækkun vaxta, að þá verður það metið til lækkunar á prósentuhækkun launa. Og það er eina leiðin sem fær er í því efni. Það þýðir ekkert að álasa verkalýðshreyfingu eða launþegasamtökum fyrir að setja fram háar kröfur. Það er þeirra mál. Það er okkar hérna að taka ákvarðanir um vexti, skatta o.s.frv. Ég veit ekki hvaðan Magnús Gunnarsson hefur umboð til þess, hver hefur kosið hann til þess að bjóða slíkt fram. Þess vegna er svarið mjög einfalt: Ríkisstj. á að leggja fram núna strax sínar tillögur í þessum málum. Og ég geri ráð fyrir að það þurfi ekki að setja á mjög langar tölur í því efni. Það var samstaða um þá leið í þinginu í fyrra að lækka verulega tekjuskattinn. Ekki vegna þess að tekjuskatturinn sé fræðilega séð ónýtt tæki, heldur vegna þess að það er búið að gera hann að ónýtu tæki vegna þess að þetta er að stórum hluta að verða skattsvikaraþjóðfélag. — Talandi um lögbrot: Hér eru ráðh. í hverjum stól sem eru auðvitað yfirhylmendur lögbrota. Það er milljörðum króna stolið undan skatti á íslandi. Hver er ábyrgur fyrir því að réttum lögum? Hæstv. fjmrh. Mér þótti það ansi hörð kenning hjá flokksbróður mínum og félaga Eiði Guðnasyni þegar hann sagði: Ég tala ekki við lögbrjóta. Ég gæti varla gengið Austurstræti ef ég ætti að lifa eftir þeirri kenningu.

Á ég ekki að tala við hæstv. ráðh. félagsmála, Alexander Stefánsson? Hann fékk hér samþykkt lánsfjárlög sem hafa lagagildi um fjármuni í húsnæðismálakerfið. Það áttu að vera 525 millj. kr. frá lífeyrissjóðum í húsnæðislánakerfið. Vitið þið hvað það er mikið nettó? Húsnæðislánakerfið hefur borgað út til lífeyrissjóðanna 247 millj. Það eru 4 millj. nettó. Það er lögbrot upp á hálfan milljarð. Á ég ekki að tala við Alexander Stefánsson, hæstv. ráðh.? Þetta er hörð kenning. (Gripið fram í: Þú gætir litið í spegil, er það ekki?) Já, talandi um hundamál eða var það ekki? Sei, sei já.

Það hefur verið um það rætt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í þessum umræðum hafi látið undir höfuð leggjast að leggja fram sín úrræði. Ég vil ekki una þeirri fullyrðingu. Ég vil fara nokkrum orðum um hvað ég tel að eigi að gera. Ég er búinn að segja, í fyrsta lagi, hvað þarf að gera til að leysa þessa deilu að því er varðar svör ríkisstj. gagnvart kjarasamningum. En það er engan veginn nóg. Ég sagði: Þetta mál snýst um þjóðfélagslegt réttlæti. Og það þarf miklu meira til. Það er ekki hægt að reka íslenskt þjóðfélag með sjávarútveginn hruninn. Það vita allir menn.

Í tilefni af orðum hæstv. sjútvrh. í gær vil ég fara um það örfáum orðum. Þegar hæstv. ráðh. tekur til máls segir hann: Við höfum orðið fyrir geysilegum ytri áföllum í sjávarútveginum. Það er aflabrestur, það er verðfall, það er háskaástand fiskistofna. Þess vegna höfum við orðið að skerða okkar hlut í aflamagninu. Og þegar saman fer minnkandi afli og versnandi viðskiptakjör er fátt til ráða. Ég vefengi að þetta sé alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Má ég nefna hér tölur um heildarafla á Íslandi það sem af er ári árið 1984, frá janúar til ágúst. Það eru 883 905 tonn. Viðmiðunartala fyrir sama tímabil árið 1983 var 494 þúsund tonn. M.ö.o.: heildaraflamagn það sem af er þessu ári er miklum mun meira en það var á sama tíma s.l. ár. (Sjútvrh.: En snarbreytt aflasamsetning.) Já, já, aflasamsetning. En ég vil taka það fram að að því er varðar aðrar botnfiskveiðar hafa þær skilað góðum árangri miðað við fyrra ár. Að því er varðar loðnuveiðar (Iðnrh.: Miðað við fyrri ár, sagði ræðumaður. 1981 líka?) Nei, ég er að tala um samanburðinn frá árinu 1983. Það sem hefur gerst á þessu ári þrátt fyrir allt er það að rækjuveiðar hafa stóraukist. Mér er kunnugt um erfiðleika á rækjumörkuðum. Það breytir ekki því að hér hefur orðið um gífurlega aukna verðmætasköpun að ræða. Góðar horfur eru á því, vonandi, að loðnuveiði verði í ár.

Ég vil aðeins ítreka það, að því er varðar þorsk, að kvótinn er upp á 255 þús. tonn af þorski. Á tímabilinu frá janúar til ágúst var búið að veiða 209 þús. tonn af þorski. Það vantar 40 þús. tonn upp á það að ná kvóta. Ég bendi á það að í fyrra á sama tíma, það sem eftir lifði árs, náðust 48 þús. tonn. M.ö.o. ég tel það alveg liggja ljóst fyrir að heildaraflamagnið er miklum mun meira en það var í fyrra. Það væri með ólíkindum að þorskveiðar verði minni en þær voru á síðasta ári.

Vandamálið í sjávarútvegi, jafnvel þótt aflabrögðin væru enn þá betri en þessi, sem ég er nú að lýsa, væru engu að síður hrikaleg. Ég nefni eitt dæmi:

1982 var gósentíð. Það var uppgripaár. Engu að síður var sjávarútvegurinn það ár í lamasessi. Það var hallarekstur sem síðan hefur haldið áfram að hlaða utan á sig. Ég spyr: Hver eru grundvallarvandamálin í sjávarútveginum sem við er að fást? Mitt svar við því er að það er tvennt: Þessi ríkisstj., og það var kannske hennar banabiti, hefur ekki brugðist við grunnvandamálinu í sjávarútveginum, sem er frá tíð hæstv. fyrrv. sjútvrh., sem er allt of stór fiskiskipafloti og þær drápsklyfjar erlendra gengistryggðra skulda sem á þessum skipum hvíla. Þessar skuldir eru fallnar á þjóðina. Það verða menn að gera sér ljóst. Ég geri ekki ráð fyrir því að nokkur hér inni haldi því fram að þau fyrirtæki, sem skulda þessar fjárhæðir fái undir þeim risið.

Hitt vandamálið er að það er vitlaust gengi á Íslandi. Sjávarútvegurinn getur ekki unað því að vera skattlagður á um 20% vitlausu gengi. Ef hann er það til frambúðar þýðir það að verið er að dæma grundvallaratvinnuveg okkar til þess að vera láglaunaatvinnuvegur sem getur ekki borgað vinnandi fólki mannsæmandi laun. Og það gengur ekki til lengdar.

Það eru þessi tvö vandamál sem verður að ráðast til atlögu við. Ég segi þess vegna númer eitt: Gjörgæslufyrirtækin í sjávarútveginum, sem þegar er búið að kollsigla, sem þegar er svo komið fyrir að þau eiga ekki fyrir skuldum, verður að gera upp. Það verður að framkvæma eigendaskipti þar. Það verður að nota tækifærið um leið til þess að minnka flotann og fá hluta af þessum skipum önnur verkefni.

Þá spyrja menn: Ertu að mæla með atvinnuleysi? Svar mitt við því er: Horfið þið á staðina allt í kringum landið. Ætlið þið að halda því fram að það sé ekki atvinnuleysi á vissum stöðum? Og ætlið þið að treysta því að það atvinnuleysi verði ekki ef sjávarútvegurinn í heild er látinn drabbast niður við þessi skilyrði? Ég segi: Það getur vel verið að meðan þessi eigendaskipti fara fram verði tímabundið og staðbundið atvinnuleysi sem þjóðfélagið verður þá að taka á sig að reyna að leysa. En það verður tímabundið. Það verður þá bundið þeirri von að fótunum verði komið undir þessi fyrirtæki aftur í höndum annarra aðila. En þetta gengur ekki.

Síðan segi ég: Í framhaldi af slíkum grunnaðgerðum þarf að gera ráðstafanir, að frumkvæði ríkisins, til að létta skattbyrði launþega. Við erum búin að ræða það. Það þarf að uppræta skattsvik forréttindahópa. Það eru til ráð til þess sem ekki hafa verið notuð. Það þarf að stuðla að lækkun verðlags. Það eru til ráð til þess sem ekki hafa verið notuð. Og það þarf að lækka skuldabyrði bæði atvinnulífs og húsbyggjenda.

Ég ætla ekki að lengja þessa ræðu með því að telja það upp í smáatriðum hvernig vinna skal að þessum úrræðum. Það er óþarfi. Ég get sparað mér það vegna þess að ég get afhent hæstv. ríkisstj. það hérna skriflega. En ég vil ekki sitja undir því að stjórnarandstaðan hafi ekkert til málanna að leggja, svari ekki þeim spurningum sem til hennar er beint um það hvað eigi að gera. Það er vægast sagt ekki nema sjálfsögð kurteisi við ráðh. í ríkisstj., sem er búin að sitja í tæpt hálft annað ár og hefur látið undir höfuð leggjast að gera nokkurn skapaðan hlut af því sem gera þurfti, sem allir vissu að gera þurfti, stjórnarandstaðan vissi að gera þurfti, þjóðin vissi að gera þurfti, að gefa þeim góð ráð — ekki síst þegar allt er komið í óefni og ríkisstj. hefur misst álit traust, allt vald á stöðunni og er búin að tapa aftur þeim takmarkaða árangri sem þjóðin færði henni á silfurfati með því að afhenda henni launin sín fyrir rúmu ári.