29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

106. mál, tannlækningar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Varðandi fsp. hv. 4. þm. Austurl., þá skal ég gera ráðstafanir til þess að ráðuneytið útbúi nokkrar upplýsingar fyrir hv. heilbr.- og trn. Ég get þó sagt að tannlæknaþjónusta hefur stóraukist á undanförnum árum úti um land með tilkomu heilsugæslustöðva og mikil fjölgun hefur orðið í tannlæknastétt því að nú eru tannlæknar komnir mjög víða úti á landi og þjónusta við almenning hefur stórbatnað. Tannréttingar eru annað mál því að þeir tannlæknar sem fást við tannréttingar eru mjög fáir og sú þjónusta verður ekki á næstunni í heilsugæslustöðvum víða. Ég veit það ekki, en kannske er gamaldags að segja að það sé að verða allt of mikið móðins að vera með þetta allt saman uppi í sér í sambandi við tannréttingarnar. Það má kannske of mikið af öllu gera. Þó að þær séu nauðsynlegar í mörgum tilfellum eru þær ekki alveg bráðnauðsynlegar í einu og öllu. Kannske er ég bara orðinn þetta gamall, en ætli það sé ekki móðins að hver krakki með smáskekkju í einni tönn sé með allt þetta víravirki uppi í sér.

Ég er að mörgu leyti sammála hv. 8. þm. Reykv. að öðru leyti en því að ég tel að við þróun mála í sífellt flóknara þjóðfélagi og með tilkomu nýrrar stéttar sé nauðsynlegt að lögvernda starf fólks sem hefur menntað sig til slíkra verkefna. Ég hef sjálfur staðið frammi fyrir hinu, einmitt í sambandi við heilbrigðismál, að veita starfsleyfi í andstöðu við stéttarfélagið. Það var lögð niður vinna, en það var ekki nema einn dagur, það var ekkert á við BSRB-verkfallið, yfir því að einum manni, sem hafði unnið áður áratugum saman í fagi, var veitt starfsleyfi. Og ég segi fyrir mitt leyti: Þegar iðnfræðslulöggjöfin var sett var það talið af flestum sanngjarnt að þeir sem höfðu unnið árum eða áratugum saman væru ekki sviptir réttindum þó að réttindi þeirra væru að sumu leyti takmörkuð, eldri menn væru ekki þvingaðir inn á skólabekk sem væru búnir að vinna áratugum saman í hinum ýmsu iðngreinum. Þetta er allt að deyja út. Þetta er að heyra til liðnum tíma. Alveg eins verður það með afmörkuð verk í heilbrigðisstarfseminni, að þeir sem hafa unnið án þess að vera krafðir um ákveðna menntun eða skólagöngu renna sitt starfsskeið á enda og þá verður eina skilyrðið menntunin og prófið. Það eina sem kemur til með að geta valdið ágreiningi er að í örfáum tilfellum koma erlendir menn þaðan sem ekki eru viðurkennd slík próf. En þetta verður auðvitað allt að hafa sinn aðlögunartíma. Ég hygg að alveg eins og læknar vilja hafa sitt leyfi og sín réttindi, hjúkrunarfræðingar og fjölmargar aðrar starfsgreinar, bæði í þessum málaflokki sem öðrum, sé þetta eðlilegt. En ég skal taka undir það sjónarmið að e.t.v. eru bæði ég og aðrir alþm. búnir að ganga of langt hvað varðar setningu sérlaga. Þess vegna erum við núna að burðast við að semja frv. sem er nokkurs konar rammafrv.