10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu málsins í sjútvn. var ég ekki viðstaddur. Ég hafði ekki möguleika á að sitja þann fund. Ég vil koma því á framfæri að ég er sammála þessu frv. enda, eins og kom fram hjá frsm. n., er þetta fyrst og fremst staðfesting á þeim samningum sem gerðir voru við sjómenn í byrjun mars. Mér finnst þó að nafngiftin á þessu frv. hefði mátt vera önnur en hér er. Það er hálfhlálegt að heyra að frv., sem verður til upp úr samningagerð, skuli heita „Aðgerðir til að bæta hag sjómanna og sjávarútvegs“. Ég held að nafngiftin á þessu frv. hefði frekar átt að vera á þann veg að hér væru aðgerðir til að koma ríkisstj. út úr þeim vanda sem hún var stödd í í sambandi við frágang sjómannasamninga og þetta sé fyrst og fremst staðfesting á því að ríkisstj. og stjórnvöld urðu í þessu tilfelli að gera ákveðna hluti til að samningar gætu náðst. Þetta byggist á því að útgerðin, sjávarútvegurinn stendur það höllum fæti að það varð að fá ríkisfyrirgreiðslur til að koma hlutunum í kring þannig að samningar næðust.

Það er einnig ástæða til að minna á það nú við samþykkt þessa frv. að það var látið eiga sig að ganga til samninga í alvöru við sjómenn fram að þessum tíma. Samningar við sjómenn áttu sér ekki stað fyrr en eftir þriggja vikna verkfall. Þrátt fyrir það hafði ríkisstj. möguleika á að gera þessa hluti, sem við erum komin til að samþykkja hér, hvenær sem var á því tímabili sem beðið var eftir samningum.

Það er líka rétt að það komi fram að við þriggja vikna verkfall sjómanna hér í vetur var ótrúlega lítið um það rætt í fjölmiðlum. Við flettum stærsta dagblaði landsins dag eftir dag án þess að minnst væri á að það væri allsherjarverkfall á fiskiskipaflotanum. Mjög svipað átti sér stað í sambandi við ríkisfjölmiðlana. Það virtist sem svo að það væru smámunir á ferð þó að íslenski fiskiskipaflotinn lægi í höfn, enda kom það líka á daginn að þegar búið var að semja eftir þriggja vikna verkfall komu yfirlýsingar frá formanni Landssambands ísl. útvegsmanna — ég segi nú ekki yfirlýsing frá hæstv. sjútvrh. — þar sem mátti lesa á milli línanna að íslenska þjóðfélagið hefði tapað sáralitlu af þessu þriggja vikna verkfalli. Það hefði verið sáralítill skaði fyrir þjóðarbúið þó að fiskiskipaflotinn íslenski hefði legið bundinn við bryggjur í þrjár vikur.

Það var reyndar aðeins tiplað á því að kannske hefði tapast einhver loðnuafli, þ. e. hrognafyllt loðna. Loðnan var áfram í sjónum þó að hún væri búin að hrygna. Þegar frá leið var það nefnt að skaðinn af þessu verkfalli heiði verið eins og þriggja togara ársúthald og afli en það var aðeins það sem við töpuðum í sambandi við loðnuhrygnuna sem við ætluðum að frysta fyrir Japansmarkað.

Hvað ætli skaðinn hafi verið stór ef við reiknuðum þann skaða sem varð á þorskveiðiskerðingunni á þessu tímabili? Við höfum a. m. k. trú á því að það sé nógur þorskur til í sjónum til að veiða eða hátt í það. En ástandið væni svolítið alvarlegra núna — (Gripið fram í.) Grindavík er meira að segja líka að verða hæsta fiskveiðistöðin í vetur. Við gerum okkur grein fyrir því að það mátti sækja og má sækja mikið meiri þorsk í sjóinn en skipulagt hefur verið. Það kemur sjálfsagt í ljós núna innan nokkurra daga að það mun verða bætt við þorskveiðikvótann. Sá fiskur, sem hefði verið hægt að sækja á. þessu tímabili sem fiskveiðiflotinn var í verkfalli, var miklu betra hráefni en það hráefni sem við erum að sækja í sjóinn í dag. Fiskur sem er veiddur áður en loðna gengur er yfirleitt miklu betra hráefni en sá fiskur sem verið er að veiða yfir loðnutímann, en líka vegna þess að þetta tímabil er besta hrognatímabilið í sambandi við þorskinn. En þetta gekk allt af og er ekki reiknað upp sem tapað verðmæti í íslensku þjóðarbúi nú vegna þess að það er búið að búa til þannig kerfi að við megum veiða þetta mikið af þorski og þegar að því marki er komið þá skulum við hætta. En það má líka reikna það á þann veg að á þessum tíma er hentugra að sækja þorskinn en á öðrum. Það var einmitt það sem skeði í vetur. Þá var mun hentugra að sækja aflann en t. d. á því tímabili sem nú stefnir að.

Ég undirstrika það að ég er sammála þessu frv. En jafnframt lít ég svo á að nafngiftin hefði átt að vera önnur og fyrst og fremst yfirlýsing um það að ríkisstj. var að bjarga sér út úr sínum vandamálum. Það er ekki nema að hluta sem þarna er verið að bæta hlut sjómanna þó að það komi inn í dæmið.