10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3411)

341. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur hlotið afgreiðslu í Nd. og er komið hingað í hv. Ed. Sjútvn. Ed. hefur fjallað um málið og var sammála um að það yrði afgreitt óbreytt eins og það kemur frá Nd. Ég vil geta þess að hv. 4. þm. Vesturl., Skúli Alexandersson, var ekki mættur á fundinum, en ég hafði samband við hann á eftir þannig að hann vissi hvað fram fór. En það er tekið fram í nál. að hann gat ekki verið mættur á fundinum.

Hér er um að ræða hvernig skuli farið með svokallaðan endurgreiddan söluskatt sem á að ganga til sjávarútvegsins. 520 millj. kr. eiga að fara í gegnum deildir Aflatryggingasjóðs til þess fyrst og fremst að greiða þar afla skv. samningum sem gerðir voru við síðustu fiskverðsákvörðun.

Það er eitt atriði í 3. lið 1. gr. sem ég ætla að minnast á. Þar segir, með leyfi forseta:

„Auk sérstakra bóta skv. 2. lið skal á tímabilinu 1. ágúst 1984 til 1. ágúst 1985 greiða til útgerðar“ o. s. frv. Hæstv. sjútvrh. sendi mér þau skilaboð áðan að þarna hefði orðið misprentun í frv. Þarna ætti að standa 31. ágúst. Það væri verið að prenta frv. upp og þessi breyting kæmi þar fram. Þetta vita fulltrúar Nd., að mér er tjáð, þannig að það þarf ekki að fara þangað aftur. Ég vil aðeins biðja hv. þdm. að merkja við þetta. Frv. kemur aftur með réttri dagsetningu. Það er prentvilla sem þarna hefur orðið. Hæstv. ráðh. bað mig að geta þess að þannig lægi í þessu máli.