10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

341. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skrifaði upp á nál. hv. sjútvn. með fyrirvara. Þar sem um er að ræða tilfærslu á fjármunum með þessu frv., m. a. vegna samninga um fiskverð og samninga á milli útgerðarmanna og sjómanna, mun ég ekki greiða atkv. gegn þessu frv. Ég vil ítreka þá skoðun Bandalags jafnaðarmanna að ríkisstjórnum beri að taka sig út úr samningsgerð á milli þessara aðila. En á meðan við búum við það kerfi sem nú er þjónar það engum tilgangi að setja sig upp á móti einni tilfærslu fremur en annarri. Á meðan við búum við þetta verður sífellt að færa fjármuni úr einum vasanum í annan, ár eftir ár og jafnvel mörgum sinnum á ári. Við skulum líta á dæmi um slíkt. Hér er um 540 millj. að ræða. Þetta er þó nokkuð há fjárhæð sem nefnd er uppsafnaður söluskattur og hann er endurgreiddur útgerð. En útgerð greiðir engan söluskatt, heldur fiskvinnslan. Þetta er bara eitt dæmið enn um kerfið sem við búum við sem við sjáum hér ljóslifandi fyrir okkur.