10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4100 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

403. mál, meðferð opinberra mála

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þess gerist ekki þörf að hafa mjög mörg orð um þetta frv. Ég áttaði mig ekki nákvæmlega á þeim athugasemdum sem hv. 8. þm. Reykv. gerði hér áðan, ég verð að játa það. Mér sýnist þetta frv. horfa til betri vegar frá því sem verið hefur. Ég sé ekkert athugavert við það að í lögum sé sérstakt ákvæði eins og það sem er í 1. gr. þessa frv., þ. e. að mál vegna meiri háttar skatta- og efnahagsbrota skuli að jafnaði sæta meðferð í Reykjavík. Mér finnst það þvert á móti vera afar eðlilegt ákvæði.

Þetta frv. miðar að því að hraða og bæta meðferð mála, m. a. skatta- og efnahagsbrota, ef ég skil rétt. Ég minni á það að Alþfl. hefur flutt hvað eftir annað þáltill., sem sumar hverjar hafa verið samþykktar, um að þessi mál verði öll tekin fastari tökum. Mér sýnast þær tillögur, sem sú nefnd sem getið er í athugasemdum við þetta lagafrv. hefur gert, allar vera til bóta og til þeirrar áttar að hraðar verði tekið á þessum málum og þau gangi fljótar fyrir sig í dómskerfinu. Þessi skatta- og efnahagsbrot eru sjálfsagt eins og ísjaki þar sem ekki kemur upp úr nema 1/10 hluti jakans eða svo. Þess vegna er það brýnt að á þessum málum verði tekið og mér sýnist við fyrstu athugun þetta allt saman heldur stefna í rétta átt. En kostur gefst á að skoða það nánar þegar málið fær umfjöllun í nefnd að lokinni þessari umr.