10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4107 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði gaman af því að hlusta á fulltrúa Alþb. sem talaði áðan, hv. 4. þm. Vesturl. Hann talaði um að framsóknarmönnum væri að fjölga — líklega vegna þess að þeir hafa líka skoðun og sjálfstæðismenn á því máli sem er á dagskrá. Það eru líka til fylkingar sem snúast á móti þeim framsóknarmönnum sem um er talað þannig að ég skil hann þannig að Alþb.-mönnum sé þá að fjölga líka. Er það ekki?

Málið sem hér liggur fyrir er mér nokkuð kært vegna þess að í mörg ár hef ég verið einn harðasti talsmaður á móti þeim vinnubrögðum sem Seðlabankinn hefur viðhaft í þessum málum og var hvað harðastur á þeim tíma sem ég var bankaráðsformaður í Útvegsbankanum. Það nær ekki nokkurri átt að það geti haldið áfram, enda er verið að draga úr því, að Seðlabankinn bindi fé bara til að binda og láni svo aftur út á mörgum sinnum hærri vöxtum en eigendur sparifjár þess, sem bundið er, fá fyrir það. Þannig hafa þeir mergsogið í gegnum tíðina viðskiptabankana og það gengur ekki lengur. Það eru alveg hreinar línur. Það er helsta skýringin á þeim vanda, sem viðskiptabankarnir og efnahagslífið eiga við að búa núna, hvað lengi þetta hefur viðgengist.

En hitt er annað mál að frv. sem hér liggur fyrir nær ekki nema hálfa leið. Það þýðir ekki að tala bara um að skerða þann rétt sem Seðlabankinn hefur tekið sér til bindingar út á það að hann hefur orðið lögum skv. að veita afurðalán. Oft hefur hann tekið, og af sömu viðskiptabönkum, meira fé en hann hefur þurft að nota til afurðalána. Það er ekki heldur rétt. Á það sérstaklega við um einn ríkisbankann. Og um tíma var ekki tekin nein binding af sparisjóðum eins og kom hér fram áðan. Ég veit ekki hvort það er gert núna. Ég er ekki alveg viss um það. (Gripið fram í.) Það er gert núna, já.

En þetta frv. er gallað að mínu mati. Það getur verið að það sé bara mitt mat. En einn þátt af mínum málflutningi hafa flm. þessa frv. ekki tekið inn í þetta frv. Það er að banna með lögum — það á að vera hér líka — Seðlabankanum að fjármagna viðskiptabankana. Ef bindiskyldan er felld niður eiga viðskiptabankarnir að vinna á eigin fé og því sparifé sem þeir geta skapað sér. Það vantar inn í þetta frv. að banna Seðlabankanum að ávaxta sitt fé á þann hátt sem hann hefur gert með því að spýta fé í viðskiptabankana. (VI: Þetta er fyrsta skrefið.) Þetta er skref sem á að taka jafnframt. Þú setur ekki annan fótinn fram án þess að hinn fylgi á eftir og það þarf tvo til til að missa ekki jafnvægið. Það vantar jafnvægi í þetta. Það finnst mér vanta í þetta frv. Ég hefði gjarnan viljað fá tækifæri til þess að bæta um betur og það mun ég gera ef þessu frv. verður vísað til ríkisstj. Það hef ég oft talað um í ríkisstj. líka að bindiskylda yrði felld niður með öllu, að viðskiptabönkunum verði gert að skyldu að vinna á eigin fé, það dregur úr spennu, og að Seðlabankanum verði ekki leyft að auka spennuna með því að spýta sömu peningum eða jafnvel enn þá meiri inn um bakdyrnar á dýrari vöxtum. Það nær ekki nokkurri átt. En bindiskylda getur átt rétt á sér til að minnka spennu í þjóðfélaginu ef peningarnir ekki fara út aftur bakdyramegin til sömu aðila og þeir gera.

Þetta er það sem ég hefði viljað segja um frv. sjálft og ég held að ég styðji það, — vegna þess að það er að mínu mati ófullkomið, það vantar þennan seinni helming sem ég gat um í frv., — að því verði vísað til ríkisstj.

En í öllu tali um efnahagsmál kemur upp spennan í Reykjavík. Það er alltaf talað um hana eins og það sé Reykvíkingum einum að kenna að í þjóðfélaginu sé spenna, Reykjavík sé spennulandssvæði og Reykjavík eigi hreinlega að taka sig til og hætta þessum ljóta leik gagnvart landsbyggðinni. (Gripið fram í: Þetta er að verða spennandi.) Það var spennandi áður en var gripið fram í. En það getur verið að það sé einhverra hagur að dreifa athyglinni frá því sem ég ætlaði að segja.

Við skulum átta okkur á því að öll stærstu mannvirki í Reykjavík, allt það sem er mest spennuvaldandi, kemur utan að. Hvað með þessa gríðarlega stóru verslunarbyggingu, Miklagarð? Það er ekki reykvískt fyrirtæki. Þetta er á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga sem hafði höfuðstöðvar annars staðar í upphafi og er gestkomandi í bænum, ég reikna með því. Ég minni á gríðarlega miklar byggingar og starfsemi á vegum Sláturfélags Suðurlands sem er nú að stækka við sig og auka framleiðslu á sama tíma sem vinnuframboð er ekki nægjanlegt heima í kjördæmi. Hvaðan kemur Mjólkursamsalan? Ekkert af þessu eru félög Reykvíkinga nema síður sé. Alla vinnu og allan undirbúning, allt það sem þar er gert, er hægt að inna af hendi heima í héraði og flytja vöruna tilbúna í bæinn. Þessi spenna er meiri en nokkrir einstaklingar geta skapað. Þegar slík gríðarleg eftirspurn eftir vinnu, eins og hér er á markaði, á sér stað byrjar launaskrið, tekjurnar aukast og fólkið fer að hugsa um að byggja í kringum sig og sína. Við skulum ekki tala eins og það séu bara Reykvíkingar einir. Þeir skipta nokkrum hundruðum, utanbæjarmenn, sem hafa fjárfest í Reykjavík. Ég var með töluna fyrir 2–3 árum af því að ég þurfti að nota hana í sambandi við borgarstjórnarkosningar, en ég held að ég sé ekki með hana núna. Þeim er alltaf að fjölga. Það er alveg furðulegt hve margir utan af landi geta keypt hér íbúð bara til þess að börn, sem koma hingað í skóla, geti búið í þeim, en nota þær ekki í öðrum tilgangi. Það eru ekki bara Reykvíkingar sem eru að fjárfesta á þessu svæði. Þetta er spennusvæði vegna þess að landsmenn allir eru að fjárfesta hér í stórum stíl.

En þetta frv. tel ég ófullkomið eins og það er. Það er gott svo langt sem það nær, en ég held að ég styðji það að því verði vísað til ríkisstj.