29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

15. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt Kolbrúnu Jónsdóttur, 8, landsk. þm. að flytja hér á þskj. 15 frv. til l. um breytingu á lögum nr. 52 frá 1959, um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum.

1. gr. þessa frv. hljóðar svo og er það breyting á 65. gr. laganna: „Kosning utan kjörfundar fer svo fram að kjósandi stimplar eða ritar bókstaf þess lista, eða nöfn þeirra frambjóðenda af listum, sem hann vill kjósa, allt upp í tölu þingsæta í viðkomandi kjördæmi, sbr. a- og b-lið 5. gr.“ Hér er þá reyndar verið að vísa til a- og b-liðar núgildandi kosningalaga.

2. gr. frv. hljóðar svo og er breyting á 84. gr.: „Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt, að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru, eða setur kross fyrir framan eitt nafn á lista eða fleiri nöfn á lista eða listum allt upp í tölu þingsæta í viðkomandi kjördæmi, sbr. a- og b-lið 5. gr.

Hver kjósandi hefur eitt atkvæði. Skipti hann atkvæði sínu á fleiri en einn frambjóðanda, hljóta þeir sama brot atkvæðis, reiknað með þremur aukastöfum.“

3. gr. hljóðar svo: „1. mgr. 109. gr. laganna (sbr. lög nr. 66/1984) orðist svo:

Til þess að finna út atkvæðatölu lista í kjördæmi skal reikna listum atkvæði með eftirfarandi hætti: Atkvæði sem merkt eru listabókstaf, eru lögð við atkvæði eða brot úr atkvæði, reiknuð með þrem aukastöðum, greidd einstaklingum á listum, og er þá fundin atkvæðatala listans í viðkomandi kjördæmi.“

4. gr. frv. hljóðar svo: „115. gr. laganna (sbr. lög nr. 66/1984) hljóði svo:

Til þess að finna hvaða frambjóðendur hafa Ráð kosningu af hverjum framboðslista skal þeim raðað innbyrðis eftir atkvæðamagni. Atkvæðamagn hvers frambjóðanda er fundið með því að leggja saman persónulegt atkvæðamagn hans og hlutdeild hans í atkvæðum greiddum viðkomandi framboðslista. Reikna skal með að atkvæði greidd listanum skiptist jafnt á jafnmörg efstu sæti hans og þingsætafjöldi listans segir til um. Við þessa skiptingu skal reikna með þremur aukastöfum. Þeir frambjóðendur hvers lista, sem mesta atkvæðamagn fá, skulu hljóta kosningu.“

Og 5. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Virðulegi forseti. Frv. sama efnis var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Hins vegar var samþykki frv. flokksformanna um breytingar á kosningalögum. Með hliðsjón af því hefur frv. þetta verið endurskoðað, en bent var á það í grg. að það mætti gera ef kosningalögunum yrði breytt, enda eru þær breytingar sem hér eru gerðar tillögur um, þ.e. aukið persónuval, sjálfstætt efnisatriði og varða ekki t.d. heildarfjölda þingsæta eða reglur um úthlutun þingsæta til lista. En þeim hlutum og fleiri var breytt með frv. flokksformanna á síðasta þingi. Þessar reglur fjalla aðeins um það hvaða frambjóðendur nái kosningu á hverjum lista, hvaða einstaklingar skipi þau sæti sem listinn hefur hlotið.

Í grg. með frv. eins og það var lagt fram á 106. löggjafarþingi sagði m.a.:

„Hér er lagt til að kosningalögum verði svo breytt, að kjósandi eigi möguleika á að merkja við listabókstaf, enda fellir hann sig þá við þá röð, sem fram hefur verið sett á röðuðum lista; að kjósandi eigi möguleika á að merkja við einn einstakling á einhverjum lista og nýtist þá atkvæðið þeim lista, sem sá frambjóðandi, sem atkvæðið hlýtur, á sæti á.“

Þetta tvennt er m.a. viðhaft í kosningum í Danmörku. En í þriðja lagi leggjum við til að kjósandi eigi rétt á að skipta atkvæði sínu á svo marga frambjóðendur sem fjöldi þm. í viðkomandi kjördæmi segir til um, þ.e. að í kjördæmi með fimm þm. eigi kjósandi möguleika á því að greiða einhverjum fimm einstaklingum af þeim listum sem fram eru boðnir 1/5 af atkvæði sínu. Kjósi menn með þeirri aðferð skiptast atkvæði milli lista í þeim hlutföllum sem kjósandinn hefur ákveðið.

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur frammi er í sjálfu sér hvað hugsun snertir ekki nýtt af nálinni. Frv. svipuð að efnisinnihaldi hafa verið flutt hér á þingi áður. Miðast þessi frv. eða frv.-tillögur öll við það sama, þ.e. að auka valfrelsi einstaklinga í kosningum. Í raun og veru er hér verið að tala um það að auka mannréttindi, rétt manna til þess að ákveða hvaða einstaklinga þeir kjósa helst að sjá í forsvari fyrir sig eða sín málefni. Þessi rýmkun á sjálfsákvörðunarrétti kjósandans, þessi rýmkun á valfrelsi kjósandans, það að auka rétt hans til þess að ákveða sjálfur hvort hann kýs einhvern ákveðinn lista í heilu lagi eða hvort hann vill kjósa einhvern ákveðinn einstakling af þeim lista, þessi möguleiki, er líka um leið valddreifing, valddreifing með þeim hætti að kjósandinn getur haft meiri áhrif með atkvæði sínu en hann á möguleika á í dag. Vald hans, það eina vald sem hann hefur í raun og veru hvað málefnum ríkis eða sveitar viðkemur, eykst við þann möguleika að hann getur haft raunveruleg áhrif á það hvaða einstaklingar veljast sem fulltrúar hans eða hans byggðarlags í sveit eða á þingi.

Miðað við það ástand sem ríkir í dag í stjórnmálum held ég að jarðvegur fyrir frv. af þessu tagi hljóti að vera öllu frjórri en hann var fyrir nokkrum árum. Það verður með ári hverju æ ljósara að flokkar með því skipulagi sem við höfum búið við undanfarin ár og áratugi koma í raun og veru ekki lengur til móts við fólk í kröfum þess um réttindi og þau málefni sem fólk lætur sig varða. Flokkar eru einfaldlega of fast mótaðar og fast bundnar stofnanir til þess að geta tekið upp á arma sína þau mál sem fólk með jafnmikið einstaklingsfrelsi og þegar ríkir hér á landi hefur áhuga á. Þess vegna verður einhvern tíma, hvort sem það verður núna eða seinna, að svara þessari breytingu í stjórnmálum, bæði hér og annars staðar. Hvort það gerist með þessum hætti sem hér er lagt fram eða einhverjum öðrum hætti skal ég ekki segja.

Ég tel að við ríkjandi aðstæður sé þetta eðlileg till. til lausnar, enda á fólk nú miklu erfiðara með að einskorða sig við listakjör en það átti fyrir nokkrum árum eða áratugum síðan. Við sjáum þetta mjög vel á því að hvað sem okkur finnst um skoðanakannanir þá er það mjög áberandi að helmingur aðspurðra vill ekki segja ákveðið til um það hvern það ætlar að kjósa ef til kosninga kæmi á þeirri stundu. Fólk er raunverulega alls ekki reiðubúið að gera það upp við sig fyrr en það hefur fyrir sér annaðhvort málefni flokkanna sem fram bjóða eða málefni þeirra einstaklinga sem þessa flokka skipa. Við vitum líka án þess að færa fram nokkrar sönnur á því að einstaklingar á listum hvar sem er, hvort sem það er í Reykjavík eða einhverju öðru kjördæmi, geta haft alveg gífurlega mikil áhrif á gengi viðkomandi lista alveg óháð því í raun og veru hvað listinn eða flokkurinn hefur annars fram að færa. Eins getur listi, sem borinn er fram af einhverjum flokki eða framboðsaðila sem hefur það sem maður mundi kalla slæma pólitík, eyðilagt möguleika ágætis einstaklinga. Hingað til hefur það viðgengist að flokkur hefur raunverulega gefið sér sjálfdæmi um að ákveða hvort einstaklingar skuli til framboðs hæfir eða ekki. Kjósendur hafa síðan afskaplega lítið um það að segja endanlega hverjir af þessum einstaklingum ná kjöri.

Þetta, eins og svo mörg önnur atriði sem við fjöllum um hérna, ber alltaf dálitinn keim af því að stjórnvöld hafa alltaf frá örófi alda til dagsins í dag vantreyst því sem maður kallar fólk eða einstaklingar. Stjórnvaldsaðgerðir miðast að mjög stórum hluta við að takmarka möguleika fólks til að hafa áhrif á valdhafana vegna þeirrar mjög svo einföldu skýringar, sem meira að segja gjarnan er notuð í ræðu og riti enn þann dag í dag, að fólk hafi ekki vit á hlutunum. Þetta gera menn enn þann dag í dag þrátt fyrir að við erum búin að mennta okkar þjóð það vel að varla er hægt að ímynda sér að hægt sé að gera það mikið betur. Það að auka síðan í samræmi við þetta menntunarstig þjóðarinnar og upplýsingastig, að auka mannréttindi hennar til einhvers samræmds horfs við þekkingu hennar og hæfileika, ætti að vera svo sjálfsagt að varla ætti að þurfa að flytja frv. um það.

En tilfellið er að enn þá erum við hérna 1984 að berjast við starfshætti sem tilheyra þeirri öld þegar aðeins lítill hluti Íslendinga var enn þá læs. Og þó að kjarnabreytingin 1959 hafi verið til einhverra bóta býst ég við að hér séu enn þá menn inni sem draga það í efa til hversu mikilla bóta hún var. Sú breyting, sem varð á kjördæmaskipan núna í vor, þ.e. þingmannatölu, er mjög dregin í efa sem réttmæt ákvörðun af mörgum hér innan veggja. Sú reikniregla, sem á að nota til þess að ákveða það endanlega hverjir hljóti þingsæti og hvaða einstaklingar af hvaða listum skipi þessi sæti, er svo flókin, að nánast óhugsandi hefði verið að bera hana fram í frumvarpsformi fyrir nokkrum árum síðan vegna þess að þá vantaði tæki til að reikna þingsætadreifinguna með. Þetta er hins vegar möguleiki í dag þegar við búum yfir tækni sem gerir okkur þetta kleift.

Ég hef margsinnis reynt það, meira að segja með þetta frv. í höndunum, að skýra þetta út fyrir því, sem við mundum kalla venjulegu fólki, hvernig eigi að ákveða það hvaða þm. það hefur raunverulega kosið á endanum. Ég verð að viðurkenna að mér er það ógerningur og ég mundi mjög gjarnan vilja hitta þann þm. sem getur gert það þannig að hvaða maður sem er í sjoppunni geti skilið það. Hérna erum við aftur á móti að leggja til ákveðna aðferð þar sem fólk veit nokkurn veginn um leið og það greiðir atkv. sitt hvaða áhrif það er að hafa með atkv. sínu. Það er sem sé ekki bara aukið valfrelsi, það er raunverulegt vald. Í dag er það vald, sem þetta fólk hefur í höndunum, að því leyti algerlega óráðin stærð að það kemur einfaldlega ekki í ljós fyrr en talið er upp úr kjörkössunum og reiknað eftir öllum kúnstarinnar reglum, sem við vorum uppfrædd um í vor sem leið hvernig væru, hvað raunverulega hefur gerst. Þetta er blindingsleikur í hæsta máta.