10.04.1985
Neðri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

408. mál, mörk Garðabæjar og Kópavogs

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 670 um breytingar á mörkum Garðabæjar og Kópavogs. Meðflm. mínir að þessu frv. eru hv. þm. Gunnar G. Schram, Kjartan Jóhannsson, Geir Gunnarsson, Guðmundur Einarsson og Kristín Halldórsdóttir.

Þetta frv. er flutt að beiðni bæjarstjórnanna í Kópavogi og Garðabæ til þess að samningur, sem gerður var milli bæjarstjórnanna þann 18. maí 1983, öðlist gildi.

Hér er ekki um stórt né flókið mál að ræða og frv. er aðeins þrjár greinar.

1. gr. kveður á um breytingu þá á mörkum kaupstaðanna sem samið hefur verið um milli bæjarstjórnanna. Það er að vísu lítt skiljanleg talnaruna við fyrstu sýn, en það er nú orðin venja í hliðstæðum lögum sem Alþingi hefur sett á undanförnum árum að kveðið sé á um markapunkta með hnitum í hnitakerfinu. Með þskj. er hins vegar prentað kort sem sýnir legu markalínunnar í landinu.

Með 2. gr. frv. er veitt heimild til að víkja frá þeim mörkum að hluta til sem um ræðir í 1. gr. og þá með reglugerðarákvæði sem félmrh. setur samkvæmt sameiginlegri tillögu bæjarstjórna Kópavogs og Garðabæjar. Þetta gæti orðið nauðsynlegt ef nánari hönnun vegakerfis á svæðinu gæfi tilefni til breytinga á mörkum.

Frv. þetta hefur verið samið í samráði við þá ráðh. sem mál þetta snertir sérstaklega, þ. e. hæstv. landbrh. fyrir hönd jarðadeildar landbrn. og hæstv. heilbrrh. fyrir hönd ríkisspítala vegna Vífilsstaða.

Herra forseti. Ég orðlengi þetta ekki frekar, en læt í ljós þá von að þótt frv. þetta sé nokkuð seint á ferð megi það hljóta afgreiðslu á þessu þingi. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.