10.04.1985
Neðri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

210. mál, selveiðar við Ísland

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Mig langar að æskja þess að hæstv. sjútvrh. verði víðstaddur þessa umr. (Forseti: Ég skal láta kanna hvort hann er hér viðstaddur.) Meðan ráðh. er leitað er kannske ekki úr vegi að rifja upp nokkur atriði sem skipta miklu í þessu máli.

Í fyrsta lagi vil ég ítreka það, sem ég hef áður sagt við ýmis tækifæri, að það er mjög brýnt mál að sættast á viðunandi lausn á framkvæmd þess sem ætti kannske að kalla stefnu um rannsóknir og veiðar á sel við Ísland. Kannske merkilegasta skrefið, sem hefur verið stigið í því efni, sé vinna nefndar sem sett var á fót af fyrrverandi sjútvrh., líklega 1982, til að semja frv. til laga um selveiðar við Ísland. Eins og kunnugt er skilaði sú nefnd frv.-drögum og varð þar samkomulag um ákveðið form samráðs og samstarfs við sjútvrn. þar sem lagt var til að sett yrði á fót sérstök nefnd aðila til að hafa samvinnu við rn. um framkvæmd þessarar stefnu.

Svo ég rifji upp það sem ég tel eitt það markverðasta úr þessu máli er í því frv., sem hér liggur frammi, gerð mjög veigamikil breyting, þ. e. að í stað þess að sett sé á fót formleg samráðsnefnd, eins og ráðh. hefur haft t. d. við framkvæmd fiskveiðistefnu sinnar, er hér einungis um að ræða óformlegt samráð. Og ég vil enn á ný spyrja ráðh.: Hvers vegna hefur hann gert þessa breytingu? Ég fæ ekki séð af ummælum hans hingað til í umr. um þetta mál að það sé komin viðhlítandi skýring. Við 1. umr. málsins segir hæstv. ráðh., með leyfi forseta:

„Um það hafa verið nokkuð deildar meiningar hvaða form skyldi haft á því samráði sem hér er fjallað um í 3. gr., hverjir teljist hagsmunaaðilar í þessu sambandi. Það má segja að það sé einnig fiskvinnslan o þeir aðilar sem berjast við hringorm á mörkuðum. Ég tel eðlilegt að fara bil beggja varðandi þessa grein, en vil leggja á það áherslu að mjög nauðsynlegt er að hafa um þessi mál náið samráð og samvinnu og leysa þau í tengslum við þau samtök sem hér eru nefnd.“

Í þessu sambandi vakna ýmsar spurningar. Hvað er ráðh. í raun að tala um þegar hann talar um bil beggja? Er verið að tala um ágreining? Hverjir hafa gert þennan ágreining? Hver er sá aðilinn sem hefur gert þennan ágreining og ráðh. virðist þá vera að taka tillit til? Það er ekki ljóst, að mínu mati, af því sem hér hefur komið fram fyrir tilmæli hvers þessi breyting var gerð og hvaða málamiðlun er verið að reyna með þessu fyrirkomulagi. Ef um það eitt er að ræða að fulltrúi fiskvinnslunnar verði beinn og formlegur aðili að þessu samráði er ráðh. í lófa lagið að koma því svo fyrir að hann eigi fulltrúa í þessari samráðsnefnd.

Ég vil minna á að skv. frv.-drögunum og brtt. minni hl. er fulltrúi frá Fiskifélaginu skipaður í þessa samráðsnefnd og það ætti að vera einfalt mál að koma aðild fiskvinnslunnar, sem vissulega á mikilla hagsmuna að gæta, formlega að í þessu máli. Ég tel að það hafi verið hægt á ýmsan hátt sem ekki hefði stefnt samþykkt og sátt í þessu máli í voða eins og ég tel að gert sé með þeirri breytingu sem ráðh. hefur gert frá hinum upprunalegu frv.-drögum.

Ég vil sem sagt spyrja ráðh., svo ég ítreki spurningu mína, hvers vegna hann kaus þann kostinn að hafa svo óformlegt samráð þegar honum hafði lánast formlegt samráð svo ágætlega sem raun bar vitni að hans mati í sambandi við framkvæmd fiskveiðistefnunnar. Þetta var ein spurninganna sem ég vildi varpa fram til ráðh.

Ég vildi þá aftur koma að því sem ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni í þessari umr., sem var hlutur og hlutverk svokallaðrar hringormanefndar. Ég leiddi rök að því að hringormanefnd er mjög undarlega sett, svo ekki sé meira sagt, í íslensku stjórnkerfi. Á sínum tíma virðist hún hafa verið skipuð í bága við gildandi lög um það hver eigi að ákveða rannsóknarstefnu varðandi seli. Síðan hefur hún á mjög umdeilanlegan hátt farið með hernaði, sem náttúruverndarmenn kalla svo, gegn selum án þess að leita á nokkurn hátt samráðs eða samninga t. d. við landeigendur og bændur sem eiga þarna mikilla hagsmuna að gæta, þó ekki sé nema þeirra að menn vaði ekki skjótandi og fretandi um lendur þeirra. Ég vil inna ráðh. eftir hvaða álit hann hafi á hlutverki hringormanefndarinnar, hvort hann telji stöðu hennar í stjórnkerfinu eðlilega eða hvort hann hyggi á einhverjar sérstakar breytingar í þeim efnum að þessu frv. samþykktu.

Ég vil í þriðja lagi minna menn á að það hefur margkomið fram, bæði í fskj. og umr. um þetta mál, að framlagning frv. er alls ekki í sátt við þá aðila sem óumdeilanlega eiga verulegra hagsmuna að gæta, bændur og landeigendur um allt land. Í ræðum þm. við þessar umr. hafa þær skoðanir komið fram, svo og kemur það fram í álitum sem bárust og eins hefur það margoft komið fram og kemur fram í viðræðum við bændur þar sem þessi mál ber á góma. Ég vil minna á að ég held að það hafi verið sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu sem sendi mjög harðorð mótmæli frá sér á sínum tíma þegar veiðimenn gengu um skjótandi og fretandi í óþökk manna þar. Ég held að við verðum að fá svör ráðh. við spurningunum sem ég lagði fram áðan: 1. Hvers vegna og undir þrýstingi írá hverjum var breytt 3. gr.? 2. Hver verður staða svokallaðrar hringormanefndar í þessu kerfi? Svo vildi ég mjög gjarnan heyra frá þm., sem þekkja hagi bænda og búenda, hvaða álit þeir hafa á þessu máli.