10.04.1985
Neðri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4113 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

210. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef áður svarað fsp. hv. þm. um sama atriði. Ef hann vill heyra skoðanir hinna ýmsu aðila um þetta mál í þjóðfélaginu hefði verið rétt að hann færi þess á leit í nefndinni að kallað væri á hina ýmsu aðila til að fá fram skoðanir þeirra. Það kom skýrt fram af minni hálfu við framsögu þessa máls að ég var reiðubúinn til að láta það í hendur þingnefndar að taka afstöðu til þess hvort skipan þessara mála skyldi vera með þeim hætti sem n. lagði til á sínum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að betra sé að hafa það með þeim hætti sem fram kemur í frv. og ég fæ ekki séð hvaða ósátt það á að skapa vegna þess að hér stendur: „Sjútvrn. skal hafa samráð við eftirtalda aðila um stjórn og skipulagningu selveiða“. Í frv. til l. um stjórn fiskveiða stendur einnig að rn. skuli hafa samráð við ákveðna aðila. En það stendur ekki að það skuli vera bundið í ákveðna nefnd þar sem einungis eigi sæti ákveðnir aðilar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög heppilegt að binda það í lögum að nefnd skuli starfa við hliðina á rn. um stjórn ákveðinna mála. Það eru rn. sem verða að bera hina pólitísku ábyrgð á framkvæmd mála og taka afleiðingum þess en ekki nefndin. Ég er því almennt þeirrar skoðunar að betra sé að orða samráð með þeim hætti sem nú er gert í 3. gr. En það er ekki þar með sagt að það verði haft minna samráð við viðkomandi aðila.

Ég tel einnig nauðsynlegt, eins og ég hef áður tekið fram, að hafa fullt samráð við aðila fiskvinnslunnar og fiskiðnaðarins um þessi mál. Mér þykir gleðilegt að heyra að hv. þm. Guðmundur Einarsson er orðinn þeirrar skoðunar að það skuli almennt tala við þá um þetta mál. (Gripið fram í: Ég hef aldrei verið á annarri skoðun.) Ég fæ ekki skilið þá þráhyggju sem fram kemur í hans orðum um þá ósátt sem er um málið með þessum hætti. Það liggur alveg ljóst fyrir að ákveðnir aðilar vilja hafa formlega nefnd. En í frv. kemur fram mjög greinilega að skylt sé að hafa samráð við þessa aðila þannig að tryggt sé að þeir geti komið öllum sínum sjónarmiðum að. En það stendur ekki til að þessir aðilar taki hinar endanlegu ákvarðanir um það með hvaða hætti skuli unnið að málinu.

Að því er varðar hringormanefnd þá hefur ekki verið tekin nein endanleg ákvörðun um starfsemi hennar. Það liggur alveg fyrir að þegar skipulag selveiða verður komið í hendur sjútvrn. þarf að gera breytingar á starfsemi hringormanefndar og samræma vinnubrögð. En ég tel of snemmt að kveða upp úr um það með hvaða hætti það verður. Það hlýtur m. a. að verða ákveðið með samráði við þá aðila sem tilgreindir eru í frv.