11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4135 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. óskaði eftir því við mig að fá að bera fram hér á þingi fsp. vegna þess, sem fram hefði komið, að bankaráð ríkisbankanna hefðu gert samþykkt um greiðslu ákveðinnar upphæðar í stað greiðslna sem þeir áður höfðu innt af hendi vegna bifreiðakaupa bankastjóranna.

S. l. þriðjudag ritaði ég bankaráðunum bréf þess efnis að ég óskaði eftir greinargerð varðandi þessar samþykktir og fór fram á það að framkvæmd samþykktanna yrði frestað þá þegar. Hv. þm. lét mér í té þær fsp. sem hér voru bornar upp áðan, þannig að ég hafði nokkurn tíma til þess að afla mér upplýsinga og til þess að geta gefið svör við þeim hér og nú.

Fyrsta fsp. hv. þm. er: Hvað hefur viðskrh. gert til þess að framfylgja ályktun Alþingis frá 22. maí 1984 um að fella niður bifreiðahlunnindi bankastjóra ríkisbankanna?

Það eru bankaráðin sem fara með launakjör bankastjóra skv. lögum og það er því í slíku tilfelli hægt fyrir rn. að beina tilmælum til bankaráðanna, eins og gert var s. l. þriðjudag varðandi þessa samþykkt, og slíkt væri hægt að gera í sambandi við launakjör þeirra að öðru leyti. En þegar þál. frá 22. maí var samþykkt, þá hafði á vegum forsrn. verið unnið að endurskoðun á bifreiðamálum ríkisins og ríkisstofnana. Viðskrn. taldi rétt að bíða eftir niðurstöðu þeirrar endurskoðunar áður en hafist væri handa um tillögur um breytingar í bifreiðamálum ríkisbankanna.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Telur viðskrh. að ákvörðun bankaráðanna um 450 þús. kr. árlegan vísitölubundinn launaauka til bankastjóra ríkisbankanna brjóti í bága við áðurgreinda ályktun Alþingis?

Það að vísitölubinda launagreiðslur er andstætt lögum nr. 71/1983, um launamál, það er ljóst. En meginatriðið í þeirri ákvörðun, sem bankaráðin hafa tekið í þessu máli, er hins vegar að bankastjórum verði greidd ákveðin fjárhæð sem komi í staðinn fyrir fyrirkomulag sem gilt hefur frá 1970. Sú regla er í því fólgin að bankastjórar ríkisbankanna hafa getað endurnýjað bifreiðar sínar á þriggja ára fresti með því að bankastjórar hafa greitt innflutningsverð þeirra, en bankarnir aðflutningsgjöld þessara bifreiða. Sú breyting, sem í þessu felst, virðist vera í meira samræmi við þál. en sá háttur sem tíðkast hefur.

Á það skal bent að þál. gerði ekki ráð fyrir að launakjör bankastjóra breyttust frá því sem verið hafði. Hins vegar má svo alltaf deila um hver launakjör þeirra eigi að vera eins og launakjör annarra, en ákvörðun bankaráðanna virðist ekki ætlað að breyta kjörum þeirra, heldur breyta formi þessara mála.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Hver eru tildrög þessarar ákvörðunar?

Tildrög þessarar ákvörðunar bankaráðanna eru, skv. þeim upplýsingum sem fengist hafa, komin til eftir ábendingu frá löggiltum endurskoðendum bankanna þar sem tekið var fram að eldri reglan væri umdeilanleg í skattalegu tilliti.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.: Hver er sú viðmiðun sem lögð var til grundvallar í ákvörðun bankaráðanna um 450 þús. kr. árlegan vísitölubundinn launaauka til bankastjóra ríkisbankanna? Sérstaklega er spurt hvort innifalið í greiðslunni sé eftirfarandi: áætlaðar skattgreiðslur vegna launaaukans, rekstur og viðhald bifreiða bankastjóranna — eða standa bankarnir með öðrum hætti undir rekstrarkostnaði? Hver eru að öðru leyti laun bankastjóra?

Sú fjárhæð, sem hér um ræðir, er sögð íundin með því að reikna aðflutningsgjöld af bifreið sem kostar 1.1 millj. kr. og telst í þeim verðflokki sem flestir bankastjórar hafa notfært sér á undanförnum árum. Áætlaðar skattgreiðslur munu innifaldar í fjárhæðinni sjálfri. Þá greiða bankarnir rekstrarkostnað vegna bifreiða bankastjóranna. Skv. upplýsingum bankanna eru laun viðskiptabankastjóranna 82 800 kr. á mánuði en laun seðlabankastjóra 5% hærri.

Í fimmta lagi spyr hv. þm.: Hafa aðstoðarbankastjórar og útibússtjórar launaauka eða bifreiðafríðindi í einhverju formi?

Aðstoðarbankastjórar og útibússtjórar fá bifreiðastyrk skv. þeim reglum sem um það gilda hjá ríkisstofnunum. Frá þeirri reglu er ein undantekning í Búnaðarbankanum, en sá aðstoðarbankastjóri býr við sömu kjör í bifreiðamálum og bankastjórar skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið.

Í sjötta lagi spyr þm.: Var leitað samþykkis ráðh. á ákvörðun, sbr. ákvæði 8. gr. laga nr. 28/1976 um Búnaðarbanka Íslands, en í þeim lögum segir að bankaráð ákveði launakjör bankastjóra með samþykki ráðh.? Síðan er spurt: Hefur ákvörðun bankaráðanna um launaauka bankastjóranna þegar komið til framkvæmda í ríkisbönkunum?

Svar við þessu: Frá því að samþykkt var s. l. vor að Búnaðarbankinn skyldi settur undir yfirstjórn viðskrh. hefur ekki verið leitað samþykkis ráðh. á þeim ákvörðunum sem hér eru til umræðu, sbr. ákvæði 8. gr. laga nr. 28/1976. Í dag hef ég fengið bréf þar sem leitað er staðfestingar á þeim málum eins og þau þar eru í dag, en skv. upplýsingum rn. hefur ákvörðunin um greiðslu 450 þús. kr. ekki komið til framkvæmda hjá Búnaðarbanka Íslands. Að ósk rn. hafa bankarnir allir samþykkt að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar, en eins og ég sagði áðan hafði hún ekki komið til framkvæmda hjá Búnaðarbankanum. (JS: Var hún komin til framkvæmda annars staðar?) Ég hef ekki tæmandi upplýsingar um það með hvaða hætti það er. En frestun á framkvæmdinni frá og með þeim degi sem um var beðið hefur verið samþykkt.

Í sjöunda lagi og síðasta spyr hv. þm.: Hver er skoðun viðskrh. á ákvörðun bankaráðanna um vísitölubundinn launaauka til bankastjóranna?

Ég gerði grein fyrir því áðan að ég tel það andstætt lögum að vísitölubinda launagreiðslur skv. lögum nr. 71 frá 1983. (SvG: Finnst þér það lögbrot?) Spurði þm.? (Gripið fram í: Fyrrv. hæstv. félmrh.) Ég lýsti því yfir, að það væri andstætt lögunum að ákveða slíkt. Um framkvæmdina höfum við ekki vitneskju svo að við getum tæpast talað um lögbrot enn þá.

Hv. þm. spyr einnig: Er viðskrh. tilbúinn að beita sér fyrir því að þessi hlunnindi verði afnumin og að ákvörðunarvald um launakjör bankastjóra verði tekið úrhöndum bankaráðanna?

Í dag hefur verið lagt fram hér á Alþingi frv. til l. um viðskiptabanka. Í því frv. er gert ráð fyrir að bankaráðin ákveði laun og önnur ráðningarkjör bankastjóra líkt og verið hefur. Frv. þetta er að stofni til byggt á tillögum bankamálanefndar sem skipuð var í tíð fyrrv. viðskrh. og í áttu sæti fulltrúar allra þeirra þingflokka sem. áttu þm. á Alþingi árið 1981. Í nefndinni var alger samstaða um að leggja ekki til breytingar á þessu fyrirkomulagi og hefur því ekki verið breytt í því frv. sem hér hefur verið lagt fyrir. Málið er því nú í höndum Alþingis. Ég mun kappkosta að veita fjh.- og viðskn. Alþingis allar þær upplýsingar sem þær óska eftir um þau mál sem við koma viðskiptabönkum, hvort heldur það eru bifreiðamál ríkisbankanna eða annað, en ég mun að sjálfsögðu senda fjh.- og viðskn. þær greinargerðir um mál þetta sem mér munu verða sendar af hálfu bankanna síðar. Það er því á valdi Alþingis að taka ákvörðun um hvernig staðið skuli að ákvörðunum um launakjör bankastjóra og geta þar að sjálfsögðu komið til greina fleiri en ein leið.

Að öðru leyti vísa ég til þess, sem ég sagði í upphafi, að bifreiðamál ríkisins og ríkisstofnana eru í endurskoðun á vegum forsrn. Þegar þær tillögur liggja fyrir verða þær að sjálfsögðu skoðaðar í viðskrn. í ljósi þeirrar þál. sem samþykkt var 22. maí 1984.

Ég hef reynt að svara fsp. hv. þm. eins og mér er unnt eftir svo skamman tíma, en áður en ég lýk máli mínu langar mig til þess að rifja upp sögu þessara mála.

Fyrir árið 1970 höfðu ýmsir embættismenn ríkisins til afnota bifreiðar í ríkiseign. Þá hafði fjvn. Alþingis í samráði við þáv. fjmrh. forgöngu um endurskoðun bifreiðamála ríkisins. Fulltrúar allra flokka á Alþingi gerðu þá sameiginlega tillögu til fjmrh. um breytingu í þá veru sem nú gildir. Ég hef fyrr í þessari ræðu lýst inntaki þeirra reglna. Þær tillögur voru grundvöllur að reglugerð sem þáv. fjmrh. Magnús Jónsson gaf út. Þetta fyrirkomulag var þá talið til mikilla bóta. Það er vert að hafa það í huga nú þegar umræða um bifreiðamál hefur aftur hafist hér á Alþingi. Við verðum að sjálfsögðu ævinlega að átta okkur á því á hvaða tímum við lifum og undir hvaða kringumstæðum málin eru rædd og endurskoða þegar við teljum rétt að gera það.