11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4140 í B-deild Alþingistíðinda. (3469)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þingflokkur framsóknarmanna tók þetta mál til meðferðar á fundi í gær og var þar samþykkt eftirfarandi ályktun sem ég mun, með leyfi forseta, lesa upp.

„Þingflokkur framsóknarmana telur óeðlilegt að greiða bankastjórum ríkisbankanna árlega 450 000 kr. í launaauka vegna bifreiðakaupa. Telur þingflokkur framsóknarmanna rétt að laun og starfskjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna verði framvegis ákvörðuð af Kjaradómi og mun þingflokkurinn beita sér fyrir víðeigandi lagabreytingum.“

Þannig hljóðaði ályktun þingflokksins. Hún er mjög skýr og ég þarf ekki miklu við hana að bæta.

Það er skoðun okkar að eðlilegt sé að bankastjórar ríkisbankanna búi við góð kjör. Þetta er mikilvægt starf sem mennirnir vinna og ekkert við því að segja þó þeir fái góð laun fyrir það. Þeirra laun hafa tekið mið undanfarið af launum hæstaréttardómara sem aftur taka laun skv. kjaradómi. Ég tel að það sé ekki endilega eðlilegt að tengd séu saman laun bankastjóra og hæstaréttardómara vegna þess að þetta eru óskyld störf, en Kjaradómur á að gæta samræmis um launakjör í landinu hjá hinu opinbera og það er ekki annar aðili en Kjaradómur sem hefur betri skilyrði til þess að meta hvað eru sanngjörn laun handa bankastjórum. Það er eðlilegt að Kjaradómur ákveði líka starfskjör bankastjóranna.

Ég er ekki að hafa á móti því að bankastjórarnir geti farið ferða sinna um landið, en launaauki í formi svo geysimikils bílakaupastyrks er auðvitað algjörlega út í hött og vísitölutenging þaðan af fráleitari. Hins vegar vek ég athygli á því að þetta er breyting á þeim reglum sem giltu þegar þál. var samþykkt hér á Alþingi 22. maí s. l. þar sem sagði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að felldar verði úr gildi þær reglur sem nú kunna að gilda gagnvart yfirmönnum ríkisstofnana, svo sem ríkisbanka og Framkvæmdastofnunar, um fríðindi hliðstæð þeim, er ráðh. hafa notið varðandi bifreiðakaup.“

Það var sem sagt farið úr öskunni í eldinn og þó að vissu leyti eftir þeirri ályktun sem hér var samþykkt. Það er rétt að Kjaradómur ákveði hvernig þessum bílafríðindum eigi að vera háttað eða hvort ástæða sé til að hafa þau á annað borð. Auðvitað verða bankastjórarnir að komast um á milli útibúanna. Hugsanleg lausn væri sú að bankarnir ættu bifreiðar til þess að lóssa mennina á milli útibúa. (Gripið fram í: Lóssa?)

Nú vill það svo vel til að hér hefur verið lagt fram frv. til laga um viðskiptabanka á þskj. 695. Ég tel að eðlilegt sé að breyta 12. gr. þess frv. í fjh.- og viðskn. og mun beita mér fyrir því. Í 12. gr. segir svo: „Bankaráð ákveður laun og önnur ráðningarkjör bankastjóra“. Til samræmis við þá ályktun sem við framsóknarmenn gerðum tel ég eðlilegt að þessari grein verði breytt þannig að Kjaradómi verði falið að ákveða þetta.

Í niðurlagi 9. gr. sama frv. segir einnig að ráðh. ákveði þóknun bankaráðsmanna og varamanna þeirra. Ég teldi alveg eins geta komið til greina og eðlilegri skipan frá mínum sjónarhóli séð væri sú, að þóknananefnd ákvæði þóknun bankaráðsmanna og það væri þá í samræmi við önnur nefndastörf á vegum ríkisins.