11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4146 í B-deild Alþingistíðinda. (3473)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Við verðum að átta okkur á, á hvaða tímum við lifum og hegða okkur í samræmi við það, sagði hæstv. viðskrh. hérna áðan. O tempora, o mores, ó hvílíkir tímar, ó hvílíkir siðir, var einu sinni sagt. Og formaður þingflokks Sjálfstfl. rifjaði upp þá tíma sem hann mundi helst og þótti best og skipta mestu að draga inn í þessa umr., nefnilega fyrir hálfum öðrum áratug.

Hvað hefur þessi umr. leitt í ljós? Hver eru þessi örfáu aðalatriði sem skipta máli?

Í fyrsta lagi: Hv. Alþingi Íslendinga hefur lýst yfir stefnu sinni í þessu máli, samþykkti í maí á s. l. ári þáltill. sem var borin fram af Alþfl. en samþykkt einróma af hv. Alþingi. Hún var ósköp einfaldlega um það að fela hæstv. ríkisstj., nánar tiltekið hæstv. forsrh., að fella niður, — ekki breyta, ekki breyta formi, fella niður, — bílahlunnindi bankastjóra ríkisbankanna og yfirmanna ríkisstofnana. Á bak við þessa ákvörðun stóð einróma Alþingi Íslendinga, reyndar elsta löggjafarsamkunda í heimi. Þetta eru fyrirmæli Alþingis til framkvæmdavaldsins, þetta á að gera. Og fyrsta atriði málsins er að þessum vilja Alþingis hefur ekki verið framfylgt og það stendur ekki til og svör hæstv. ráðh. eru í anda ályktunar þingflokks Sjálfstfl. að bíða eftir heildarendurskoðun, að fresta ákvörðun og að endurskoða en ekki að taka afstöðu. En afstaðan liggur fyrir. Afstaða Alþingis var þessi og að baki þeirri ákvörðun stóð hver þm. á fætur öðrum sem reyndar á sæti í bankaráði.

Númer 2: Þessi umr. hefur leitt í ljós að menn sem kosnir eru og hafa umboð Alþingis til þess að sitja í stjórnum bankaráða hafa brotið lög. Það getur vel verið að hv. þm. Guðmundi Einarssyni þyki það litlu skipta, en maður skyldi ætla að þm. almennt á elstu löggjafarsamkundu heims þyki það einhverju skipta ef menn sem starfa í umboði hennar hafa brotið lög. Hvernig þeir fara að því að brjóta lög er svo sérkapítuli út af fyrir sig.

Það er upplýst að upptök þessa máls voru þau að það voru löggiltir endurskoðendur í einum banka sem vöktu athygli á því að skv. því kerfi sem gilt hefur frá 1970 hafa bankastjórar brotið skattalög, þ. e. hlunnindi þeirra voru auðvitað að réttum skattalögum skattskyld, en af þeim hafa ekki verið greiddir skattar. Að þessu leyti gegnir öðru máli um þá en ráðh. þar sem þeirra bílahlunnindi eru ákveðin í lögum. Það er löggiltur endurskoðandi sem vekur athygli á því að þetta sé ekki nógu gott og þess vegna er verið að reikna afsláttinn á aðflutningsgjöldunum í peningagreiðslur til endurkaupa á bílum þriðja hvert ár. En þá kemur það skrýtna: greiðslan er miklu hærri. Viðmiðunarreglan er 1350 þús. kr. á þremur árum í staðinn fyrir kannske 600 þús. Það er vegna þess, og viðurkennt af hæstv. viðskrh., að bankaráðunum þóknaðist að ákveða að aths. um skattgreiðslur væri að vísu þörf, en bankarnir skyldu eftir sem áður greiða skattana fyrir hæstv. bankastjóra.

Þá má kannske geta þess að þeir sem þiggja þennan afslátt af aðflutningsgjöldum njóta þess aftur þegar þeir selja þessa bíla á almennum markaði á réttu markaðsverði. Þeir fá raunverulega tvöfaldan afslátt af þessum gjöldum.

Þá er eitt atriði sem ekki hefur komið fram í þessum umr. en er kannske ástæða til. Hæstv. ráðh. rifjaði upp söguna og sagði að sá ágæti forveri fjmrh. í starfi, Magnús heitinn Jónsson frá Mel, sem fékk á sig orð fyrir að reyna að beita nýstárlegum úrræðum til þess að koma á sparnaði í ríkisrekstrinum, hefði heldur kosið og innleitt það kerfi að menn ættu bílana, en fengju svolitla umbun til þess að kaupa þá, en ætlaðist til þess að reksturinn á þeim væri þá í höndum eigendanna. En nú er upplýst tvennt: Í fyrsta lagi að reksturinn á þessum bifreiðum, sem mönnum eru gefnir að hluta, er allur á skattgreiðendum, þ. e. bönkunum, og í annan stað að gamla kerfið sem Magnús frá Mel ætlaði að afnema, er í fullu gildi. Flestir þessara banka eiga nefnilega bílaflota, ekki bara torfærubíla til þess að flytja peninga, heldur líka fínar límúsínur, og það er upplýst að þó nokkuð margir af bankastjórum aka um í bílum bankanna og reyndar með einkabílstjórum og njóta þess vegna kosta beggja kerfanna.

Þriðja atriðið sem þessi umr. leiðir í ljós er ein spurning: Hvað ætlar Alþingi að gera? Ég leiði hjá mér að fara yfir það á stuttum tíma hvað hæstv. viðskrh. ætlar að gera eða hvað hæstv. ráðherrar ætla að gera. Þeir ætla að bíða, þeir ætla að fresta, þeir ætta að endurskoða. En þetta er mál Alþingis. Alþingi er búið að taka þessa ákvörðun. Þetta á að fella niður. Síðan koma fulltrúar tveggja þingflokka, hv. þingflokksformaður Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., og hv. 3. þm. Reykv., formaður Alþb., og tala um nauðsyn á kerfisbreytingu sem er í því fólgin að vísa málinu til Kjaradóms. Til Kjaradóms. Það var þá leiðin! Hvað er Kjaradómur? Kjaradómur er samsafn af nokkrum lögfræðingum sem er falið það verk og geta ekki unnið það öðruvísi en þá að umreikna hefðbundin áunnin hlunnindi. Málið er hins vegar það að Alþingi Íslendinga er búið að ákveða að fella þessi hlunnindi niður og það er búið að gefa handhöfum framkvæmdavaldsins fyrirmæli um að standa við þá ályktun Alþingis.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson komst hnyttilega að orði þegar hann sagði að það væri viðskiptamönnum bankanna nokkuð þýðingarmikið að hv. bankastjórar væru sem minnst „úti að aka“. Hvað væri nú hæfileg akstursþóknun eða ferðastyrkur til hv. bankastjóra? Þm. vita hver er áætlaður ferðakostnaður þm. Reykv. Hann er 3450 kr. á mánuði — ég endurtek: 3450 kr. á mánuði fyrir þm., jafnvel flokksformann sem þarf að heimsækja 70–80 byggðarlög á Íslandi á einum vetri eða heimsækja kannske 130 vinnustaði. Þá mætti bera það saman hver væri þörf stjórnmálamanns sem á erindi við sína kjósendur í samanburði við bankastjóra sem eiga helst að halda sig á bak við borðið sitt. Ég mundi leggja til að hæfilegur bílastyrkur fyrir þá væri helmingur af 3450 kr., en ekki 37 500 kr.

Að vísa þessu máli til Kjaradóms er að gefast upp og að heykjast á því að framfylgja vilja Alþingis og samþykktum Alþingis. Hitt er annað mál að það er ekki nóg fyrir Alþingi að gagnrýna og það er ekki nóg að vísa í samþykkt sína. Þegar menn, sem Alþingi hefur kosið til þess í sínu umboði að framfylgja lögum, eru uppvísir að lagabrotum er aðeins ein niðurstaða til sem er samboðin virðingu Alþingis. Hún er sú að afturkalla umboð þessara manna þegar í stað. Svo einfalt er það.

Af því tilefni að hv. þm. Guðmundur Einarsson vék að samsekt hinna gömlu kerfis- og verkalýðsflokka vil ég varpa fram nokkrum spurningum til hv. þm.: Hvaða flokkur var það sem lagði fram tillögu á Alþingi um að þessi fríðindi yrðu felld niður? Var það Bandalag jafnaðarmanna eða var það Alþfl.? Í annan stað: Hvaða bankaráðsmaður var það sem kom í veg fyrir að einn ríkisbankanna er uppvís að því að stunda ekki lögbrotin? Það var reyndar fulltrúi Alþfl. í því bankaráði. Hvaða þingflokkur er það sem hefur skorað á þá bankaráðsmenn sem að löglausum ákvörðunum stóðu að segja af sér og leggur hér með til og mun fylgja því eftir að ef mennirnir hafa ekki siðgæðiskennd til þess að gera það sjálfviljugir taki Alþingi Íslendinga það mál til afgreiðslu með lagabreytingum og svipti þá umboðinu?

Hv. þm. Guðmundur Einarsson vakti athygli á því að um þetta mál hefði verið fjallað í blöðum fyrst og það er rétt. Ég vil eindregið, án þess að lengja þessa umr. nú, taka þau ummæli þm. alvarlega og vek athygli á því að á hv. Alþingi sitja níu alþm. sem eiga sæti í bankaráðum. Það hefur komið hér fram við umr. áður að þeir eru ekki allir sekir um þessa ákvörðun vegna þess að í sumum bankanna voru þessar ákvarðanir teknar af fyrrv. bankaráðum, þ. e. í Landsbanka og Seðlabanka. Enn fremur sitja hér á Alþingi stjórnarmenn í Framkvæmdastofnun ríkisins. Hv. þm. Guðmundur Einarsson hefur borið þessum mönnum á brýn yfirhylmingu um lögbrot og vakið athygli á því að það hafi verið blaðamenn sem hafi ljóstrað upp um lögbrotin. Ég vil þess vegna leyfa mér, herra forseti, að skora á eftirgreinda hv. þm., Garðar Sigurðsson, Valdimar Indriðason, Stefán Valgeirsson, Helga Seljan, Friðjón Þórðarson, Halldór Blöndal, Pétur Sigurðsson, Davíð Aðalsteinsson, Harald Ólafsson, að koma hingað upp í ræðustól og gera grein fyrir afstöðu sinni og svara þessum ásökunum um leið og ég tek það fram að mér er kunnugt um að þrír þeir síðast nefndu tóku við sæti í bankaráðum eftir að þessar ákvarðanir voru teknar og það er líka upplýst að hv. þm. Garðar Sigurðsson greiddi atkv. gegn þessari samþykkt. En hér er um svo alvarlegar ásakanir að ræða að ég vil eindregið beina því til hv. þm. og það með nafni að þeir svari hver fyrir sig.