11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (3475)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Eftir að fjölmiðlar flettu ofan af hinum dæmalausu ákvörðunum bankaráða ríkisbankanna um sérstaka sporslu til bankastjóra þessara banka hafa stjórnmálaflokkarnir hver á fætur öðrum keppst við að fordæma þá. Þeir hafa hamast við að þvo hendur sínar eins og við höfum heyrt hér í umr. í dag og aðallega gert það með þeim hætti að bera sakir hver á hendur öðrum. Þetta eru að mínu mati viðbrögð skömmustunnar og þau eru bæði spaugileg og skinheilög.

Stjórnmálaflokkarnir kjósa fulltrúa í bankaráð og skipta með sér kökunni og raða sínum mönnum á jöturnar. Í bankaráðunum úir og grúir af þingmönnum og innanbúðarmönnum úr flokkunum. Stjórnmálaflokkarnir hafa alla tíð lagt á það megináherslu að bankaráðin eigi að vera skipuð og kosin pólitískri kosningu til að stjórnmálaöflin og almenningur hafi sem greiðastan aðgang að stjórn bankanna og geti þannig veitt þeim aðhald. Og ekki nóg með það. Flokkarnir hafa skipt bankastjóraembættunum á milli sín í samræmi við hina alkunnu samtryggingarreglu. Þeir eiga þar sín sæti og er skemmst að minnast þeirra grátbroslegu átaka sem áttu sér stað hér á síðasta ári þegar barist var um bankastjórasæti í ríkisbönkunum. Fór þar flest eftir um skiptingu á milli flokkanna.

Hneykslið í ríkisbönkunum, sem nú er til umr., er auðvitað fullkomlega á ábyrgð stjórnmálaflokkanna og stjórnmálaaflanna, Alþingis og þingflokkanna. Það eru þeir sem eru allsráðandi í bankastjórnunum og er þar enginn flokkur undanskilinn. Alþfl. hefur gert hér tilraun til þess að þvo hendur sínar með því að vera m. a. málshefjandi í þessari umr. Vera má að Alþfl. sé búinn að taka upp einhverja nýja siðbótarstefnu en auðvitað vita allir, sem með pólitík hafa fylgst hér á undanförnum árum og áratugum, að Alþfl. hefur svo sannarlega setið í sömu súpunni og verið samferða öðrum flokkum í leitinni að bitlingum innan kerfisins.

Þetta mál, herra forseti, er lýsandi dæmi um það að pólitísk áhrif skapa ekki nægilegt aðhald. Þau eru skálkaskjól. Það er rétt, sem hv. þm. Guðmundur Einarsson segir, að menn hreinsa ekki samvisku sína með skömmum um þetta hneyksli, það er einber hræsni, vegna þess að bankarnir hafa nú aðeins verið að umreikna fríðindin yfir í krónur. Hér standa menn frammi fyrir kerfi og kjörum sem samtryggingin hefur vitað um og haldið verndarhendi sinni yfir.

Þetta mál er að mínu mati áfellisdómur yfir hinu pólitíska siðgæði í landinu. Það er enn ein sönnun þess að flokkarnir nýta aðstöðu valds og áhrifa til að hygla sér og sínum. Það er bræðralag spillingarinnar, sem þjónar eflaust hagsmunum flokkanna, sem hér brýst fram og gægist út úr skúmaskotunum. En það er ósvífin tilraun til að ganga eins langt og mögulegt er, meðan það ekki spyrst, meðan enginn segir neitt. Og það voru ekki flokkarnir eða fulltrúar þeirra sem létu öxina falla í þessu máli, heldur fjölmiðlar og almenningsálitið, almenningsálit sem taldi sér nóg boðið og mál að linnti. Vildarkjör bankastjóranna, sem hér hafa verið til umræðu og hér hefur verið lýst, storka siðferðishugmyndum þjóðfélagsins, ekki síst á þeim tíma þegar hinn almenni launamaður þarf að berjast með hnúum og hnefum til að eiga til hnífs og skeiðar. Hið pólitíska aðhald hefur brugðist og flokkspólitíska samtryggingin hefur enn einu sinni verið afhjúpuð. Maður spyr: Ef þetta hneykslismál upplýsist fyrir tilviljun, hvað þá með allt annað sem þrífst í skjóli þessarar samtryggingar? Hversu mörg eru hneykslin sem liggja í þagnargildi og aldrei koma fyrir almenningssjónir? Og það er einmitt í því ljósi sem ber að skoða bankastjórakjörin. Þau eru sjálfsagt aðeins einn angi af dæmalausri misnotkun ráðandi afla á aðstöðu og völdum. Í stað þess að vera fulltrúar almannavaldsins og gæta hagsmuna borgaranna hafa stjórnmálaflokkarnir og þeirra menn þvert á móti keppst við að sölsa undir sig völdin og skipta þeim á milli sín. Stjórnmálaflokkarnir hafa í þessari umræðu í dag og yfirlýsingum að undanförnu verið að hengja bakara fyrir smið. Þeir eru því miður sjálfir höfuðpaurarnir og skúrkarnir í þessu siðlausa og dæmalausa hneykslismáli. Þeir ættu svo sannarlega að líta sér nær.