29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu á þskj. 29, en flm. ásamt mér eru Jón Baldvin Hannibalsson, Kjartan Jóhannsson og Karvel Pálmason.

Í 1. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmið laga þessara er að koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu og skapa öllum skilyrði til að aðlagast tæknivæðingu, einkum í þeim atvinnugreinum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingar.“

Áður en ég geri grein fyrir einstökum greinum þessa frv. vil ég fara nokkrum orðum um það hversu nauðsynlegt er að Alþingi taki af skarið í þessu máli og komi á samræmdri og skipulagðri endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu.

Allir hljóta að vera sammála um að gífurlegar breytingar hafa orðið á atvinnulífi í heiminum í kjölfar örrar tækniþróunar. Ég tel að það sé engum blöðum um það að fletta að við Íslendingar séum orðnir langt á eftir nálægum þjóðum í að hagnýta okkur nýja tækni eða að endurmennta starfsfólk með tilliti til tæknivæðingar. Auk þess hefur allt of lítil umræða farið fram hér í þjóðfélaginu um þessi mál eða ítarleg rannsókn á því hvaða áhrif tækniþróunin og örtölvubyltingin mun hafa á vinnumarkaðinn og einstakar greinar atvinnulífsins svo og allt okkar efnahagslíf. Undirstaða þess að vera samkeppnisfær við aðrar þjóðir og efla hér hagvöxt og framleiðni er að við gerum okkur fyllilega ljóst hvert stefnir í þessum málum og að við aðlögum okkar atvinnugreinar og starfsfólk þeirri róttæku breytingu sem rafeindatækni og áhrif tölvuvæðingar mun hafa á allan vinnumarkaðinn á komandi árum.

Ef Íslendingar ætla ekki að verða undir í þeirri atvinnubyltingu sem nú á sér stað verður umsvifalaust að taka af skarið í þessu efni og kanna til hlítar hvaða áhrif þessar róttæku breytingar muni hafa á atvinnulíf og atvinnuhætti í landinu á komandi árum, hvaða nýja möguleika tæknin mun opna og ekki síður hvaða hættur hún mun hafa í för með sér fyrir efnahagslífið og atvinnuþróun og hvernig best sé að bregðast við í tíma á réttan hátt.

Breytingar þessar munu tvímælalaust hafa það í för með sér að öll störf og vinnuaðferðir munu breytast og um mikla tilfærslu verður að ræða á vinnuaflanum á milli atvinnuvega, starfsgreina og verkefna á vinnustað. Sjálfvirkni og vélvæðing mun hafa það í för með sér að mörg störf munu annaðhvort taka miklum breytingum eða úreldast og ný störf taka við sem gera sífellt auknar kröfur til starfsfólks um endurmenntun. Ef ekki er brugðist við með réttum hætti í tíma er mikil hætta á því að það muni hafa í för með sér versnandi lífskjör og atvinnuleysi hér á landi.

Á þeim, sem ferðinni ráða í þessum efnum hér á landi, hvílir því mikil ábyrgð því áföllin geta orðið stór fyrir íslenskt þjóðfélag ef áfram á að láta kylfu ráða kasti í þessu efni og ekki verður tekið til við að undirbúa atvinnulítið og launþega með skynsamlegum hætti undir þær breytingar sem tækniþróunin mun hafa á allt atvinnulíf á komandi árum. Ábyrgð stjórnmálamannanna er hvað mest í þessu máli að vel til takist því að á miklu veltur að við stýrum því fjármagni, sem við höfum yfir að ráða, bæði í fjárfestingar í atvinnulífinu og til menntunar mannaflans með þeim hætti að við séum undir það búin að mæta þeim miklu breytingum sem fram undan eru. Tilfærslur verða að geta átt sér stað á mannaflanum milli verkefna og atvinnugreina með eðlilegum hætti, en forsenda þess er að starfsfólki sé gert kleift að njóta endurmenntunar og starfsþjálfunar í miklu ríkara mæli en nú er.

Í allri atvinnuuppbyggingu og leiðum til að bæta lífskjör fólks er það því eitt brýnasta verkefnið að opna starfsfólki möguleika til að geta aðlagast með eðlilegum hætti áhrifum þeirra gífurlegu breytinga sem tæknivæðingin mun hafa í för með sér. Endurmenntun starfsfólks er því ein veigamesta forsenda þess að hægt sé að nýta sér nýjar tæknibreytingar til aukinnar framleiðni, hagvaxtar og bættra lífskjara hér á landi.

En hvaða möguleika höfum við í dag? Hvaða möguleikar eru hjá starfsfólki til þess að öðlast sérhæfða menntun við sitt hæfi og þarfir fyrirtækjanna? Um það mætti vitaskuld hafa langt mál. Í grg. með þessu frv. eru tilgreindir nokkrir þættir.

Í fyrsta lagi að skólakerfið hafi ekki getað sinnt með skipulegum hætti endurmenntun í tengslum við atvinnulífið og að skólakerfið og menntunin í heild sinni hafi ekki tekið nægjanlegt mið af þörfum atvinnulífsins. Ég tel að þessi punktur sé mjög veigamikill og umhugsunar virði. Hann vekur upp þær spurningar hvort ekki þurfi gagngerðrar endurskoðunar við á öllu okkar menntakerfi. þannig að menntakerfið verði í miklu nánari snertingu við atvinnulífið og taki meira mið af þörfum þess og framtíðarspám um þróun atvinnuveganna. Menntakerfið hefur á engan hátt fylgt eftir eða tekið mið af þeirri kröfu sem atvinnulífið gerir til endurmenntunar, sem stöðugt þarf að vera í gangi, og þeirri endurmenntun og starfsþjálfun sem launþegar þurfa sífellt að fá til að geta tekist á við ný verkefni í atvinnulífinu. Kannske sýnir það best hvað við erum langt á eftir öðrum þjóðum að engin löggjöf er til um endurmenntun og hér á hv. Alþingi hefur ekki orðið samstaða, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, um með hvaða hætti skuli haga fullorðinsfræðslu hér á landi eða hvernig skipulag og samræming fullorðinsfræðslunnar skuli vera.

Breytingar í atvinnulífinu gera það nauðsynlegt að fólk verður að eiga kost á endurmenntun því mörg störf krefjast oft annars undirbúnings, annarrar hæfni og þekkingar en áður og kannske annars konar þekkingar en skólakerfið og frummenntunin veitti. Endurmenntun eða starfsmenntun í tengslum við atvinnulífið er því ekki orðinn síður nauðsynlegur þáttur en sú frummenntun sem lögboðin er. Fræðslukerfið verður því að vera sveigjanlegt og tilbúið að taka breytingum þannig að stöðnun eigi sér ekki stað, því stöðnun í okkar menntakerfi getur haft víðtækari áhrif á lífskjör og atvinnuuppbyggingu en nokkurn órar fyrir.

Á fleiri hindranir má benda sem tefja fyrir að fólk eigi kost á að öðlast endurmenntun við sitt hæfi. Langur starfsdagur fólks hér á landi og framfærslubyrði gera kröfu til þess að hver fjölskylda verði að geta treyst á tvær fyrirvinnur ef endar eiga að geta náð saman í nauðsynlegum útgjöldum. Það er því ljóst að lítill sem enginn tími er aflögu að starfsdegi loknum til þess að sækja endurmenntun eða þau námskeið sem í boði eru vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu.

Of lítið framboð er líka af námskeiðum og þau námskeið sem boðið er upp á eru í mörgum tilfellum of dýr fyrir einstaklingana sem fæstir þola þann tekjumissi sem því er samfara að öðlast endurmenntun.

Á þriðja atriðið má einnig benda sem ekki er síður mikilvægt. Mjög lítil umræða hefur farið fram hér í þjóðfélaginu um nauðsyn endurmenntunar vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu og áhrif tæknivæðingar á störf í ýmsum atvinnugreinum. Þar af leiðir að starfsfólk er ekki nægilega vel á verði um nauðsyn endurmenntunar og þess að endurmenntun getur ráðið úrslitum um atvinnuöryggi þess í framtíðinni.

Ég tel það ekki síður skyldu stjórnvalda en aðila vinnumarkaðarins að hafa frumkvæði að því að skapa fólki skilyrði til endurmenntunar og um leið að hvetja starfsfólk til að fá sér endurmenntun og leiðbeina því um hve nauðsynleg endurmenntun og starfsþjálfun er fyrir atvinnuöryggi þess og atvinnulífið í heild. En allt er þetta torvelt og ýmsum annmörkum háð þegar engin skipulögð eða samræmd stefna er uppi í endurmenntunarmálum og ljóst að starfsfólki reynist oft erfitt að skipuleggja endurmenntunarnám sitt upp á eigin spýtur, auk þess sem ekki er endurmenntunarnámskeið í boði fyrir ýmsa þætti atvinnulífsins og starfsfólk sem nauðsynlega þarf á því að halda. Ljóst er einnig að fyrirtækin sjálf hafa gert allt of lítið af því að undirbúa starfsfólkið undir tæknibreytingar með því að gefa því kost á starfs- og endurmenntun. Það hlýtur að vera hagur fyrirtækjanna og atvinnurekstursins ekki síður en starfsfólksins að vinnumarkaðurinn hafi á að skipa hæfu starfsfólki sem sé í stakk búið til að takast á við þær breytingar sem hafa orðið og eru fram undan í atvinnulífinu.

Ég sagði hér áðan að það væri engum blöðum um það að fletta að Íslendingar væru orðnir langt á eftir öðrum þjóðum í því að undirbúa og endurmennta starfsfólk vegna breyttra atvinnuhátta og tæknivæðingar. Við getum tekið Norðurlöndin sem dæmi um lönd sem hafa fyrir löngu hafið þá endurmenntun sem er nauðsynleg fyrir starfsfólk og gert það með þeim hætti að starfsfólki eru sköpuð skilyrði sem ekki eru fyrir hendi hér til að hagnýta sér endurmenntun. Þar hefur þörf fyrir endurmenntun og starfsþjálfun verið mætt með mjög umfangsmiklum, fjölbreyttum og skipulögðum aðgerðum. Ég nefni Danmörk sem dæmi, en þar hefur til að mynda verið í gildi frá 1960 löggjöf um endurmenntun ófaglærðs starfsfólks.

Ríkisvaldið hefur í þessum sem öðrum löndum talið það skyldu sína að veita ríflegu fjármagni til endurmenntunar. Á Norðurlöndum hefur ríkisvaldið þannig um langt árabil styrkt bæði námsgagnagerðina, kennsluna eða þjálfunina svo og veitt styrki sem samsvara atvinnuleysisbótum til að bæta það tekjutap sem fólk verður fyrir samfara endurmenntunarnámi. Á árinu 1982 var ríkisframlag Dana rúmlega 941 millj. d. kr. og á árunum 1981–1982 var ríkisframlag Svía 3891 millj. s. kr. Ljóst er því af þessu að gífurlegum fjármunum er varið til að mynda í þessum löndum til endurmenntunarmála og þarf ekki að efa að það fjármagn og sú fjárfesting í menntun mannaflans mun skila sér margfalt aftur í auknum hagvexti og bættum lífskjörum.

Ég tel að jafnvel þó illa ári nú í efnahagsmálum okkar sé lítil forsjálni eða sparsemi í því fólgin að veita ekki nú þegar töluverðu fjármagni til endurmenntunarmála. Framtíð íslensks atvinnulífs, atvinnuöryggi og lífskjör hér á landi munu að verulegu leyti ráðast af því að uppbygging atvinnulífsins sé aðlöguð nýrri tækni og að við höfum þá framsýni til að bera að veita til þess nokkru fjármagni til að launþegar hér á landi hafi möguleika til að tileinka sér tæknibreytingar. Ég undirstrika og legg áherslu á að ábyrgð stjórnmálamanna er mikil ef áfram á að láta reka á reiðanum í þessu efni.

Hverjar eru þróunarhorfur í íslensku atvinnulífi og íslenskum atvinnuháttum á komandi árum? Hvar er vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi? Hvaða áhrif mun ný tækni hafa á íslenskan vinnumarkað? Og hvert ber að stefna í uppbyggingu atvinnulífsins til að gera okkur samkeppnisfær við aðrar þjóðir? Allt of lítið hefur verið gert af því að rannsaka þróunarhorfur í atvinnumálum og áhrif tækniþróunar á einstakar atvinnugreinar og hvernig skynsamlegast sé að verja í atvinnuuppbygginguna því takmarkaða fjármagni sem við höfum yfir að ráða. Talið er að mannafli á vinnumarkaðnum muni aukast um 30 þús. manns á næstu 20 árum. Helst hefur verið horft til iðnaðarins í þessu efni og talið nauðsynlegt að byggja hann upp til að taka við auknum mannafla á vinnumarkaðnum á komandi árum. Ef litið er til helstu upplýsinga um mannaflaþróun í helstu atvinnugreinum þjóðarinnar á árabilinu 1963–979 kemur í ljós að hlutur opinberra starfa hefur vaxið mest eða úr 17.2% í 25%. Það er fjölgun um rúmlega 13 þúsund störf. Hlutur iðnaðar hefur staðið nokkurn veginn í stað á þessu tímabili. Fækkun hefur orðið í landbúnaði. Og þó nokkur fjölgun hafi orðið í sjávarútvegi eða um 3230 störf hefur hlutur hans af mannaflanum minnkað á tímabilinu.

Í grg. með þessu frv. kemur fram tafla sem sýnir hlutfallslega skiptingu mannafla og atvinnugreina á árunum 1910–1981. Ég tel að hér sé um athyglisverða töflu að ræða sem lærdóm má draga af, en þar kemur glögglega í ljós hvert stefnir í skiptingu mannaflans milli þjónustugreina, framleiðslugreina og úrvinnslugreina. Til samanburðar er sýnd staðan í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Vestur-Þýskalandi og Frakklandi á árinu 1975. Þessi tafla sýnir ljóslega hve gífurlegum breytingum atvinnulífið hefur tekið.

Samkvæmt þessari töflu má sjá að á árinu 1981 er hluti mannaflans í frumvinnslugreinum einungis 11.2%. Í samanburði má taka árið 1950, þá var hlutur mannaflans í frumvinnslugreinum tæplega 34.9%. Á árinu 1910 er hlutfall mannaflans í frumvinnslugreinum 63%. Þessu er þveröfugt farið í þjónustugreinum því árið 1910 er hlutfallsleg skipting mannaflans í þjónustugreinunum 24.8%. 33% 1950 og árið 1981 er hlutur mannafla í þjónustugreinum kominn í 51.7%. Ef teknar eru úrvinnslugreinarnar þá er hlutfall mannaflans í úrvinnslugreinum 12.2% árið 1910, 1950 32% og 1981 37.1%. Ef gerður er samanburður á skiptingu mannaflans milli atvinnugreina hér á landi árið 1975 samanborið við Bandaríkin, Svíþjóð, Þýskaland og Frakkland kemur eftirfarandi í ljós: Hér á landi voru 14.8% af mannaflanum í frumvinnslugreinum, í Bandaríkjunum aðeins 3.3%, í Svíþjóð 4.7%, Þýskalandi 5.8% og Frakklandi 9.9%. Ef úrvinnslugreinarnar eru teknar er hlutur mannaflans hér á landi á árinu 1981, eins og áður sagði, 37.1%, en í Bandaríkjunum 31.5% á árinu 1975 og í Svíþjóð 30.6%, í Þýskalandi 35.1% og í Frakklandi 29.9%. Ef aftur er litið til þjónustugreinanna er hlutur mannaflans í þjónustugreinum á árinu 1975 hér á landi 47.5%, í Bandaríkjunum 65.2%, í Svíþjóð 64.7% og í Þýskalandi 59%.

En hvað segja þessar tölur? Ef litið er á þróunina í þessum löndum, sem hér hafa verið tilgreind og mun lengra eru komin en Ísland í allri tæknivæðingu, þá er ljóst að bætt lífskjör í þessum löndum hafa ekki byggst á auknum tækifærum í framleiðslugreinum. Það sést gleggst á því að í Bandaríkjunum eru lífskjör einna best, en þar er lægst hlutfall vinnuaflans í þessum löndum við framleiðslustörf eða einungis 3.3% á sama tíma og hlutur mannaflans í þjónustugreinum er 65.2%.

Af því sem hér hefur verið greint er ljóst að hlutur upplýsingamiðlunar og þjónustu hefur farið vaxandi í þeim löndum sem hér hafa verið nefnd. Á árinu 1975 eru á Íslandi einungis 47.5% af mannaflanum í upplýsinga- og þjónustustarfsemi, en í Svíþjóð 64.7% af mannaflanum í upplýsinga- og þjónustustarfsemi, Bretlandi 62.6%, Frakklandi 60.2% og í Bandaríkjunum 65.2% eins og áður hefur verið sagt. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga að þó störf í framleiðslugreinum séu fleiri hér á landi en hjá þessum þjóðum eru framleiðni, hagvöxtur og lífskjör mun verri hér á landi en í þessum löndum og Ísland láglaunasvæði miðað við flest þessara landa. Þó vissulega beri að hlúa að og styrkja okkar undirstöðuframleiðslugreinar eins og sjávarútveginn, þá er ljóst að við verðum einnig að sækja á önnur mið að því er nýsköpun í atvinnulífinu og ný atvinnutækifæri varðar.

Í athyglisverðri grein, sem Ingjaldur Hannibalsson forstöðumaður Iðntæknistofnunar Íslands skrifar um framtíð tæknivædds iðnaðar á höfuðborgarsvæðinu og birtist í tímaritinu Skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Sé litið á uppbyggingu íslensks iðnaðar kemur í ljós að helstu greinar hans eru þær sem erlendis eru yfirleitt taldar til láglaunaiðnaðar. Gildir þetta um ýmsar greinar matvælaframleiðslu, fataiðnað, húsgagnaiðnað og ýmsar greinar málmiðnaðar. Sumar þessara greina hafa á undanförnum árum átt í miklum erfiðleikum í nágrannalöndum vegna samkeppni frá láglaunalöndum og hefur starfsmönnum í greinum eins og fataiðnaði, húsgagnaiðnaði og skipasmíðaiðnaði fækkað mjög í flestum nágrannalöndum. Ekki er ólíklegt að svipuð fækkun eigi eftir að verða í þessum greinum hér á landi. Jafnframt bendir margt til þess að starfsmenn í íslenskum byggingariðnaði séu óeðlilega margir. Hlutfali byggingariðnaðar af heildarmannafla er 11% á Íslandi á meðan hlutfall byggingariðnaðar í flestum öðrum þróuðum ríkjum er undir 5%. Bendir margt til þess að auka megi mjög framleiðni í íslenskum byggingariðnaði og er líklegt að með aukinni fjöldaframleiðslu byggingahluta í verksmiðjum megi fækka nokkuð starfsmönnum í þessari grein iðnaðar. Margt bendir einnig til þess að á næstu áratugum muni koma fram tækni sem gerir mögulegt að auka mjög sjálfvirkni við fiskvinnslu. Þessi tækni mun hafa í för með sér mikla fækkun starfa við fiskvinnslu. Má því með nokkrum rökum halda því fram að umtalsverð fækkun starfa verði í ýmsum þeim greinum iðnaðar sem sterkastar eru á Íslandi í dag.“ Síðar í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Ef litið er til annarra þjóða kemur í ljós að stefna svo til allra iðnaðarþjóða er að auka til mikilla muna iðnað sem byggður er á tækni og þekkingu. Telja þessar þjóðir að þessi tegund iðnaðar verði til þess að bæta lífskjör næstu áratugina með sama hætti og hefðbundinn framleiðsluiðnaður hefur gert á undanförnum áratugum. Þær greinar sem flestir virðast leggja mesta áherslu á eru eftirfarandi:

— Rafeindaiðnaður,

— lífefnaiðnaður,

— fjarskiptaiðnaður,

— framleiðsla á nýjum tegundum efna,

— geimiðnaður.

Hér er um að ræða greinar með nokkuð aðra kostnaðarskiptingu en almennt gerist í hefðbundnum iðnaði. Hlutur rannsóknar- og þróunarstarfsemi í framleiðslukostnaði er mun meiri en áður hefur þekkst.

Hráefni svo og launakostnaður er hins vegar lægri en algengt er. Þetta hefur það í för með sér að þjóðir sem ráða yfir þekkingu fá forskot. Litlu máli skiptir hvar þær eru staðsettar í heiminum vegna þess að flutningskostnaður á hráefni til framleiðslustaðar og fullunnum vörum til markaðar verður hlutfallslega lítill miðað við verðmæti vörunnar. Til þess að hátækniiðnaður blómstri þarf að vera gott framboð á vel menntuðu fólki.“

Af ýmsu því sem hér kemur fram er ljóst að framleiðniaukning í iðnaðarframleiðslunni erlendis vegna hagræðingaraðgerða, sjálfvirkni og nýrrar tækni í iðnaði getur fyrirvaralaust, ef ekkert er aðhafst, gert nýjar greinar í iðnaði hér á landi ósamkeppnishæfar. Á það hefur verið bent að þótt tölvubyltingin skapi ný störf sem krefjist endurmenntunar, þá leiði hún einnig til aukinnar einhæfni og minni krafna og starfsþjálfunar í öðrum störfum. Einnig hefur á það verið bent að einhæfum störfum muni verulega fækka, svo sem ýmsum störfum í þjónustugreinum. Margt bendir því til þess að það sé ekki síst starfsöryggi kvenna sem muni verða í hættu vegna tækniþróunarinnar, ekki síst í mörgum hinna hefðbundnari kvennastarfa, vegna þess að störf þeirra og menntunarval eru einhæfari og viðkvæmari fyrir tölvuþróuninni. Ljóst er einnig að það eru ekki einungis störf kvenna sem eru viðkvæm fyrir þeim róttæku breytingum á vinnu sem verða vegna áhrifa tölvuvæðingar. Aldraðir sem ekki treysta sér eða ekki eru í stakk búnir til að aðlagast tæknivæðingunni geta orðið hart úti samfara þessari þróun, svo og fatlaðir.

Ef ekki er brugðist við á réttan hátt munu erfiðleikar kvenna sem sækja á vinnumarkaðinn á nýjan leik eftir barnauppeldi og heimilisstörf einnig stóraukast. Sérstaklega ber að huga að ráðstöfunum fyrir eldri konur, sem litla menntun hafa, í ýmsum þjónustu- og framleiðslugreinum. Í þessu sambandi má benda á það að t.a.m. í Danmörku hefur frá 1978 verið lögð áhersla á endurmenntun fyrir konur sem koma út á atvinnumarkaðinn eftir lengri fjarveru. Það er því ljóst að sérstaklega ber að vera á verði að því er þessi störf varðar. Áhrifa tölvuvæðingar mun ekki síst gæta í störfum þar sem konur eru fjölmennar, svo sem í almennum skrifstofu- og þjónustustörfum og störfum ófaglærðra svo sem í iðnaði. Fyrir þessu eru ýmsar orsakir sem ég skal ekki sérstaklega rekja hér. Ljóst er þó að ýmiss konar tækninám og tæknistörf, sem við koma tæknivæðingu, höfða lítt til kvenna og fæstar sækja í slíkt nám eða störf.

Á Íslandi hefur þróunin orðið sú að á árinu 1983 voru af 174 nemendum sem skráðir voru í tölvunarfræði í Háskóla Íslands 140 karlar og 34 konur eða 82% karlar og 18% konur. Aftur á móti virðist svo vera að konur standi jafnfætis körlum að því er varðar aðsókn að tölvunámskeiðum. Úttekt sem gerð var á vegum Stjórnunarfélags Íslands, sem meðal annars hefur á sínu starfssviði tölvunámskeið, sýnir að konur eru tæplega helmingur þeirra sem sóttu tölvunámskeið. Athyglisvert verður þó að telja að konur voru yfir 90% allra þátttakenda í ritvinnslunámskeiðum, en karlar aftur á móti í miklum meiri hluta þeirra þátttakenda sem sækja námskeið um stjórnun, áætlanagerð og undirbúning tölvuvæðingar.

Í grg. með frv. er vitnað til ráðstefnu sem haldin var s.l. vetur hér á landi um atvinnumál með tilliti til jafnréttis kynjanna, en þar komu fram athyglisverðar upplýsingar. Skulu hér einungis nefndar tvær þeirra.

Á ráðstefnu Alþjóðasambands verslunarmanna um tölvuvæðingu var m.a. bent á að 8% vöxtur sjálfvirkni á tíu ára tímabili mundi gera 20–25 % skrifstofustarfa óþörf. Um 5 milljónir af 17–18 millj. skrifstofufólks í Vestur-Evrópu muni þá missa vinnu sína. Í Bretlandi spá sérfræðingar verkalýðssamtakanna 20% atvinnuleysi á þessu sviði upp úr 1990 og í Danmörku er reiknað með að á næstu árum hverfi u.þ.b. 75 þúsund skrifstofustörf. Í Ástralíu var sett á laggirnar rannsóknarnefnd sem hafði það verkefni að greina þau störf sem voru í hættu vegna hagnýtingar nýrrar tækni. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ný tækni hefði meiri áhrif í þjónustugreinum en iðnframleiðslu. Nánar tiltekið var þeim sem gegna störfum sem eru tengd upplýsingamiðlun af einhverju tagi sérstök hætta búin, t.d. skrifstofufólki, svo og vélriturum, riturum og þeim sem gegna ýmsum tegundum af stjórnunarstörfum. Niðurstaðan varð sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna mundi ný tækni hafa áhrif innan starfsgreina þar sem 50% kvenna á vinnumarkaðnum vinna en 25% karlar. Auk þess má benda á að atvinnuleysi ungs fólks fer vaxandi, t.d. í Vestur-Evrópu, og sérstaklega hjá stúlkum. Ástæðan fyrir því er talin sú að ráðningum í hefðbundin kvennastörf fari stöðugt fækkandi vegna aukinnar tölvuvæðingar.

Þó hér hafi einkum verið rakin hættan sem fylgir hefðbundnum kvennastörfum í landinu er ljóst að á öllum sviðum atvinnulífsins mun tæknivæðingin hafa meiri og minni áhrif. Hlutfallslega mun störfum ófaglærðra fækka, en fjöldi tæknimanna, stjórnenda og sérhæfðra starfsmanna fara vaxandi. Einnig er líklegt að þróun sjálfvirkni í fiskvinnslu samfara framförum í flutningatækni geti haft í för með sér mikla fækkun starfa í fiskvinnslu. Hér er því vissulega hætta á ferðum sem bregðast verður við með skjótum hætti því ef starfsfólki í fiskvinnslugreinunum verða ekki sköpuð tækifæri til endurmenntunar og aðlögunar nýrrar tækni má búast við að starfsfólk í fiskvinnslu geti innan fárra ára staðið frammi fyrir miklu atvinnuleysi.

Herra forseti. Ég hef gerst nokkuð langorð í framsöguræðu minni. en ég tel, herra forseti. að hér sé mjög þýðingarmikið mál á ferðinni og hef því talið ástæðu til að rökstyðja mál mitt nokkuð ítarlega. Ég vil í lokin gera í nokkrum orðum grein fyrir einstökum greinum þess frv. sem hér liggur fyrir.

Ég hef áður lýst markmiðum þessa frv. sem eru að koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu og skapa öllum skilyrði til að aðlagast tæknivæðingunni, einkum í þeim atvinnugreinum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingar.

2. gr. þessa frv. kveður á um skipan sjö manna endurmenntunarráðs og jafnmargra til vara til fjögurra ára í senn, þar af fimm eftir tilnefningu eftirtalinna aðila: Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og eftir tilnefningu menntmrh. Félmrh. skipi tvo menn án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins.

Í 2. gr. er það sérstaklega tekið fram að endurmenntunarráð skuli kveðja sér til ráðuneytis aðila vinnumarkaðarins eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

Með skipan ráðsins er leitast við að tryggja aðild stærstu heildarsamtaka á vinnumarkaðnum. Þar sem endurmenntunarmálum hefur verið skipað með lögum á Norðurlöndum er algengt að þau mál heyri undir atvinnumálaráðuneyti. Sjálfstætt atvinnumálaráðuneyti er ekki fyrir hendi hér á landi og því er lagt til að yfirstjórn þessara mála sé í höndum félmrh. sem fer með vinnumarkaðsmál, en í reglugerð um Stjórnarráð Íslands kemur fram að félmrn. fari með mál sem varða vinnu, þ. á m. stéttarfélög launþega og atvinnurekenda, svo og skráningu atvinnulausra, vinnumiðlun, atvinnujöfnun og hagræðingu á vinnumarkaði. Því verður að telja eðlilegt að félmrh. fari með yfirstjórn þessara mála.

Í 3. gr. er hlutverk endurmenntunarráðs skilgreint, en það er eftirfarandi, með leyfi forseta:

a) Að gera heildaryfirlit yfir þá endurmenntun sem í boði er og tengist tæknivæðingu í atvinnulífi.

b) Að meta á hverjum tíma þörf endurmenntunar vegna áhrifa nýrrar tækni á atvinnulíf og einstaka starfshópa.

c) Að gera áætlun til fjögurra ára í senn um skipulag og samræmingu endurmenntunar og forgangsverkefni á því sviði sem markvisst miði að því að aðlaga starfsgreinar og starfshópa áhrifum tæknivæðingar í samræmi við þarfir atvinnulífsins.

d) Að gera árlega kostnaðaráætlun vegna endurmenntunar sem fjárveiting næsta árs byggist á.

e) Að úthluta styrkjum úr endurmenntunarsjóði. Verði ágreiningur um ákvörðum ráðsins geta þrír ráðamenn vísað ágreiningsatriðum til úrskurðar félmrh.

Hlutverk endurmenntunarráðs byggist á því meginmarkmiði, sem fram kemur í 1. gr. frv., að komið verði á samræmingu og skipulagi á endurmenntun, sem tengist endurmenntun í atvinnulífinu, og forgangsverkefni á því sviði taki markvisst mið af því að tryggja atvinnuöryggi starfsmanna sem í hættu er vegna tæknivæðingar í einstökum greinum atvinnulífsins. Ljóst er að eitt vandmeðfarnasta verkefni nefndarinnar er úthlutun styrkja úr endurmenntunarsjóði, enda ræðst af henni röðun forgangsverkefna á sviði endurmenntunar vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Nauðsynlegt er því að tryggja úrskurðarvald ráðh. í þessum lögum komi til ágreinings í endurmenntunarráði.

Eitt mikilvægasta ákvæði þessa frv. er stofnun endurmenntunarsjóðs. Hlutverk endurmenntunarsjóðs er samkv. 4. gr. annars vegar að veita styrk, sem sé að fjárhæð a.m.k. jafnhár atvinnuleysisbótum á hverjum tíma, til þeirra sem fá viðurkennda endurmenntun og hins vegar að veita styrki til námsgagnagerðar, námskeiðahalds og starfsþjálfunar á sviðum sem viðurkennd eru af endurmenntunarráði. Eðlilegt er og auðvelt í framkvæmd að miða upphæð styrkveitingar við atvinnuleysisbætur eins og þær eru á hverjum tíma. Í því sambandi er rétt að geta þess að í Danmörku eru atvinnuleysisbætur notaðar til viðmiðunar þegar greiddir eru styrkir vegna endurmenntunar starfsmanna.

Ljóst er þó að sú upphæð er ekki nægilegur hvati til að starfsfólk sæki sér endurmenntun því að í allflestum tilfellum er um töluverðan tekjumissi að ræða. Hagur launþega og atvinnurekenda er augljós ef átak verður gert á sviði endurmenntunar starfsfólks vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Nauðsynlegt er því að kanna grundvöll þess að atvinnurekendur greiði starfsmönnum t.a.m. mismun á launum þeirra og atvinnuleysisbótum á meðan á starfsþjálfun stendur svo og að aðilar vinnumarkaðarins greiði hluta af námskeiðsgjöldum.

Mikilvægt er að samstaða náist um alla framkvæmd málsins og að samningar geti tekist við aðila vinnumarkaðarins um hlutdeild í kostnaði við endurmenntun starfsfólks. Því er kveðið á um það í 4. gr. að nánari ákvörðun um skilyrði fyrir styrkveitingu og hlut aðila vinnumarkaðarins í fjármögnun skuli sett í reglugerð að uppfylltu ákvæði til bráðabirgða í þessum lögum. En í ákvæði til bráðabirgða stendur, með leyfi forseta:

„Félmrh. skal þegar í stað hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins, sbr. ákvæði síðustu mgr. 4. gr. laganna, í því skyni að leita samráðs um þátttöku og fyrirkomulag á hlutdeild aðila vinnumarkaðarins í fjármögnun vegna endurmenntunar samkv. ákvæðum þessara laga.“

Með frv. þessu, ef að lögum verður, er hlutur aðila vinnumarkaðarins tryggður varðandi allar ákvarðanir um skipulag endurmenntunar. Ljóst er að hlutdeild þessara aðila í kostnaði þeim sem af endurmenntun leiðir mun tvímælalaust flýta fyrir endurmenntun starfsfólks í flestum atvinnugreinum og því að markmiðinu verði náð sem fram kemur í 1. gr. frv. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að það er jafnt til hagsbóta fyrir atvinnurekendur sem launþega. Skilyrði fyrir styrkveitingum, sem sett verði í reglugerð, hljóta síðan að taka mið af þeirri niðurstöðu sem fæst úr viðræðum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Í 4. gr. er einnig kveðið á um að heimili sé að endurmenntunarsjóður greiði að fullu námskeiðsgjöld fyrir þá sem eru að koma á vinnumarkaðinn og ekki eru í stéttarfélögum og fyrir þá sem verið hafa á atvinnuleysisskrá í a.m.k. fjórar vikur. Hér eru ekki síst hafðar í huga þær fjölmörgu konur sem bundnar eru við heimilisstörf og barnauppeldi í mörg ár en leita síðan á vinnumarkaðinn að nýju. Er ljóst að skapa verður þeim sérstök skilyrði til þess að nýta sér endurmenntun.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera að öðru leyti sérstaka grein fyrir þessu frv. nema 5. gr. þess sem kveður á um að ríkissjóður skuli í fjárlögum ár hvert leggja sjóðnum til upphæð sem nemi eigi lægri fjárhæð en svarar helmingi af framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs á hverjum tíma.

Ef reynt er að gera sér grein fyrir því hvað það kostar að koma endurmenntunarmálunum í sæmilegt horf hér á landi og hver sá fjöldi væri sem gagn gæti haft af endurmenntun kemur eftirfarandi í ljós:

Gert er ráð fyrir að um 40 þús. manns muni geta haft gagn af styrkveitingum úr þeim endurmenntunarsjóði sem fyrirhugað er að stofnaður verði með þessu frv. Ef miðað er við að hver og einn þurfi að fá sem lágmark tveggja vikna starfsmenntun á fimm ára fresti þyrftu því 8 þús. manns úr þessum hópi að sækja tveggja vikna námskeið á hverju ári. Algeng námskeiðsgjöld á samsvarandi námskeið 1984 var 800–1200 kr. á þátttakanda. Gera má ráð fyrir að útbúa þurfi um 30 ný námskeið að jafnaði á ári og að námsgagnagerð kosti sem svarar um 150 þús. kr. á námskeið að meðaltali. Samkv. þessu er áætlaður kostnaður miðað við þessar forsendur eftirfarandi:

Námskeiðsgjöld, þ.e. 10 daga fyrir 800 þátttakendur og gert ráð fyrir að kostnaðurinn væri í kringum 1000 kr. á dag, yrðu u.þ.b. 80 millj. kr. á ári. Styrkveitingar, sem greiddar yrðu úr þessum sjóði, ef reiknað er að meðaltali 10 dagar á 8 þúsund þátttakendur, en atvinnuleysisbætur eru 535 kr. rúmar á dag, yrðu tæpar 43 millj. Í þróunarkostnaði er gert ráð fyrir 4.5 millj. Samtals er hér um að ræða 127.4 millj. tæpar.

Hér er vissulega um mjög grófa áætlun að ræða en sem gefur þó nokkra mynd af kostnaði sem þessu er samfara. Ef vel ætti að vera þyrfti auðvitað að veita mun meira fjármagni til endurmenntunar en hér er gert ráð fyrir því að einungis er í þessum útreikningum gert ráð fyrir tíu daga námskeiði á fimm ára fresti fyrir um 40 þúsund manns, sem gætu nýtt sér endurmenntun, eða tvo daga á án fyrir hvern þátttakanda. Má vissulega færa rök fyrir því að hér sé of skammt gengið.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir að á fjárlögum ár hvert verði sjóðnum lagt til fé sem samsvarar a.m.k. 50% af framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs eða 1984 yrði hér um að ræða 58.5 millj., en ef tekið er mið af fjárlögum fyrir árið 1985 yrði hér um að ræða 78 millj. kr. Það er jafnhá upphæð og nemur framlagi atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hér er vissulega ekki um stóra upphæð að ræða miðað við hvað brýnt er að átak verði gert á þessu sviði og ekki síst miðað við hvað endurmenntun mannaflans getur skilað okkur í bættum lífskjörum hér á landi.

Ég tel ekki, herra forseti, að spurningin snúist um það hvort við höfum efni á því að fara út í víðtæka endurmenntun miðað við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu, heldur snúist spurningin miklu frekar um það hvort við höfum efni á því að gera það ekki. Hvar á að taka peninga? spyr einhver. Ég gæti vitaskuld nefnt hér ótal dæmi með tilvitnunum í fjárlög fyrir árið 1985 og rök um það að skynsamlegra sé að verja þeim 78 millj. sem hér er gert ráð fyrir með þessu frv. í endurmenntun frekar en ýmsa aðra þætti sem finna má í fjárlögum. Ég get t.a.m. nefnt hvort ekki væri skynsamlegra að veita þessum 78 millj. í endurmenntun en að veita bönkum skattfríðindi á næsta ári sem nemur sömu upphæð, en það kemur fram í fjárlögum fyrir árið 1985, eða veita fyrirtækjum skattfríðindi sem nema tvisvar til þrisvar sinnum hærri upphæð en hér um ræðir eins og gert var á síðasta þingi, eða veita helmingi hærri upphæð en hér um ræðir í jarðræktarframlög sem að verulegu leyti ýta undir offramleiðslu í landbúnaði. Ég get nefnt að hér er um fimm sinnum lægri upphæð að ræða en renna á í útflutningsuppbætur á næsta ári. Þannig mætti lengi telja.

Það mun ekki, herra forseti, standa á okkur Alþfl.mönnum, sem flytjum þetta frv., að leggja til niðurskurð á móti ef Alþingi felst á að fara þá leið sem hér er lögð til.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég vara við því ef menn ætla að setja fyrir sig kostnaðinn sem því er samfara að endurmennta fólk vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu og ítreka að spurningin er ekki hvort við höfum efni á að endurmennta starfsfólk vegna tæknivæðingar, heldur hvort við höfum efni á að gera það ekki. Svo mikilvægt er málið. Á miklu veltur að brugðist verði við tæknivæðingunni með réttum hætti. Lykillinn að því að aðlagast tækniþróuninni er fyrst og fremst skipulögð endurmenntun starfsfólks. Hvernig til tekst í þeim efnum mun hafa afgerandi áhrif á hvort og þá hvenær einstakar atvinnugreinar taka tæknina í þjónustu sína. Slík fjárfesting, sem stuðlar að aukinni endurmenntun starfsfólks, er því ekki síður mikilvæg en fjárfesting í ýmsum tækjabúnaði og gerir okkur samkeppnisfær við aðrar þjóðir sem leiða mun til aukinnar framleiðni, hagvaxtar og betri lífskjara hér á landi.

Ég vænti þess að þessu máli verði vel tekið hér á hv. Alþingi og er að sjálfsögðu opin fyrir breytingum á því frv., sem hér er lagt fram, sem betur ná því markmiði sem að er stefnt. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn.