15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3480)

416. mál, þingsköp Alþingis

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ekki er um það deilt að þörf er á að endurskoða þingsköp Alþingis og raunar er það nokkuð samhljóða álit þm. að þörf sé á ýmsum breytingum í þingstörfum frá því sem nú er. Um hvort tveggja hafa verið nokkrar umr., annars vegar á fundum forseta og þingflokksformanna um þingstörfin, hins vegar í sérstakri til þess kjörinni nefnd sem fjallað hefur um þingsköpin. Staðreyndin er sú að margt má betur fara í þingstörfum án þess að til þess þurfi að koma lagabreyting eða breyting á þingskapalögum.

Í þeim umr., sem fram fóru í haust um breytta skipun þingstarfa, var það nokkuð almenn skoðun manna að velja mætti þingstörfum betri tíma en nú er gert og vel kæmi til greina að vera með tilraunafundi að morgni einu sinni eða tvisvar í viku til að byrja með a. m. k. Eins var almenn samstaða um það að vera mundi mjög til bóta í þingstörfum að deildir fengju meiri tíma til sinna starfa og væri ætlaður meiri forgangur í þingstörfum en nú er. Allt þetta verður auðvitað til áframhaldandi athugunar og ekki þess að vænta að breyting sé gerð í þessum efnum á miðju þingi, en hugsanlega þegar þing kemur saman á komandi hausti.

Þingskapanefnd hefur skilað ítarlegu nál. þar sem gerðar eru margar tillögur til breytinga á þingskapalögunum. Tillögur þessar hafa vafalaust verið til umræðu í öllum þingflokkum og vil ég láta þess getið hér að þingflokkur Alþb. fjallaði um þessar tillögur á fundi í seinasta mánuði og gerði allnokkrar athugasemdir við þær tillögur sem fram voru lagðar. Eftir því sem mér virðist hefur nú ekki verið tekið tillit til þessara ábendinga, sem komu frá þingflokki Alþb., nema að takmörkuðu leyti og er því ekki hægt að segja að þingflokkur Alþb. hafi fyrir sitt leyti samþykkt frv. í þeim búningi sem það er lagt fram, enda þótt fulltrúi Alþb. í nefndinni sem um það fjallaði sé einn af flm.

Við þm. Alþb. áskiljum okkur því rétt til að koma áframhaldandi á framfæri ábendingum okkar og tillögum um breytingar. Við viljum leggja á það áherslu að í mörgum tilvikum er þar um veruleg atriði að ræða sem menn lögðu þunga áherslu á við umræður um þetta mál á þingflokksfundi Alþb. og ekki hægt að segja að það sé samkomulag við okkur um efni frv. eins og það er nú nema til komi einhverjar frekari breytingar.

Það eru einkum þrjú atriði sem menn fetta fingur út í og er óhjákvæmilegt að taka til nánari athugunar.

Í fyrsta lagi er hér sett fram sú regla í 28. gr. að við fyrri umr. um þáltill. hafi frsm. till. aðeins 15 mínútur til að gera grein fyrir máli sínu en aðrir þm. megi aðeins tala í fimm mínútur um till. Hér er um mjög stórfellda breytingu að ræða frá því sem verið hefur, verulega takmörkun á rétti tillögumanns til að gera grein fyrir máli sínu og enn frekar á rétti þm. almennt til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum því að ekki getur neinn haldið því fram með sanni að fimm mínútur nægi til að gera grein fyrir skoðunum manns að öllum jafnaði þegar um flókin mál er að ræða.

Í þessu sambandi kunna menn að benda á það að till. eigi eftir að ganga til 2. umr. og þá sé ekki takmarkaður ræðutími. Við verðum að hafa það í huga að mikill fjöldi mála kemur aðeins til 1. umr. Menn fá því ekki tækifæri til að mæla fyrir till. eða koma fram athugasemdum um hana nema við þessa einu umr. Þess vegna er sérstaklega skaðlegt að takmarka ræðutímann svo mjög sem hér er gerð till. um.

Ég vil ekkert útiloka að menn væru reiðubúnir til einhverrar málamiðlunar í þessum efnum. En takmörkun, sem gengur svo langt sem hér er gerð till. um, er að mínum dómi fjarstæða og fyrst og fremst mjög alvarlegur hnekkir fyrir stjórnarandstöðuna á hverjum tíma, vegna þess að stjórnarandstaðan hefur fyrst og fremst tækifæri til að koma till. sínum á framfæri með flutningi mála hér á Alþingi og með athugasemdum við stjfrv. sem flutt eru, meðan aftur á móti ráðh. og ríkisstj. hafa ótal önnur tækifæri til að koma sínu máli á framfæri og því er veitt miklu meiri athygli í fjölmiðlum sem ráðh. og stuðningsmenn þeirra hafa fram að færa þegar þeir standa í sínum málatilbúnaði. Því er hér að mínum dómi verið að reiða býsna hátt til höggs í garð stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma og þar með hnekkja að nokkru lýðræðinu í landinu. Ég tel að svona langt megi ekki ganga í því að takmarka umræður hér á Alþingi. Sérstaklega á þetta við um stjfrv. eða till. til þál. sem ríkisstj. flytur og kunna að vera stórkostlega mikilvægar fyrir land og þjóð en þm. eiga ekki að fá að segja nema fáein orð í fimm mínútur um málið. Þetta tel ég alveg fásinnu.

Ég veit að vísu að gerð er undantekning í 5. mgr. 28. gr. um að till., sem fjalli um stjórnskipun, utanríkis- eða varnarmál eða staðfestingu framkvæmdaáætlana, falli ekki undir þetta ákvæði. En ég vek á því athygli að það geta komið hér inn í þingið stórkostlega mikilvægar stjórnartill. sem ekki heyra undir þessa undantekningarreglu og þá væri það alveg fjarstæða að ráðh. ættu að mæla fyrir málinu í 15 mínútur og svo fengju einstakir þm. fimm mínútur.

Annað það atriði sem orkar tvímælis, þó kannske megi segja að það sé ekki eins stórt í sniðum, er sú takmörkun sem hér er gerð á umr. um fsp. Í reglunni eins og hún er hér í 31. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

„Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðh., má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en tvær mínútur og ráðh. eigi lengur en fimm mínútur í senn. Öðrum þm. er heimilt að gera stutta athugasemd.“

Þetta þykir mér afar vond regla, miklu verri en sú sem fyrir er. Ég er ekki alveg viss um að hún leiði til neitt styttri fundartíma vegna þess að það er nokkuð löng og mikil reynsla fyrir því að stuttar athugasemdir hér í þinginu eru talsvert lengri en tvær eða fimm mínútur. Ég hygg að það sé æði algengt að menn komi hér í ræðustól á Alþingi og segist ætla að gera stutta athugasemd og tali svo í 20 mínútur. Það verður áreiðanlega mjög teygjanlegt fyrir forseta að eiga að úrskurða það hvað sé stutt athugasemd og hvað ekki. Í öllu falli er ég ansi hræddur um að þessi stutta athugasemd geti oft teygst í lengri tíma en tvær mínútur, jafnvel lengri tíma en fimm.

Ég held að reglan eigi að vera eins og hún er, að fyrirspyrjandi megi mæla fyrir sinni fsp. í fimm mínútur.

Það finnst mér vera lágmarkskrafa. Það má hins vegar vel takmarka svar ráðh. frá því sem nú er þó að ég telji ekki að það sé út af fyrir sig nein þörf á því. Mig minnir að ráðh. megi svara fsp. í tíu mínútur og það þykir mér engin ofrausn fyrir hans hönd. En kannske gæti það gengið að hann svaraði í fimm. Síðan finnst mér að vissulega megi takmarka umr. um fsp. í framhaldinu en að orða það þá á einhvern annan veg en þann að öðrum þm. sé heimilt að gera stutta athugasemd vegna þess að það hygg ég að yrði ekki nein takmörkun heldur lenging frá því sem nú er. Nú mega menn tala í tvær mínútur hver um sig, eins og menn þekkja. Ég gæti t. d. hugsað mér þá takmörkun að menn tali í tvær mínútur hver fyrir sig, eins og nú er, en aðeins einu sinni. Það fyndist mér mjög hæfileg takmörkun því að ég hef ekki séð nein rök fyrir því að menn þurfi að koma oftar en einu sinni upp í ræðustól til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum eftir að fsp. hefur verið svarað. En það er einmitt þegar menn koma tvisvar og þrisvar hver fyrir sig margir í senn að það teygist úr fyrirspurnatímum.

Í þriðja lagi vil ég gera hér að umtalsefni 32. gr. frv. um umr. utan dagskrár. Þar er hreyft við afar þýðingarmiklu en viðkvæmu máli. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er ekki samkomulag við meiri hluta þingflokks Alþb. um efni þessarar greinar. Mér er spurn hvort almennt samkomulag sé um hana við aðra flokka. Ég verð að telja það heldur ótrúlegt að menn séu reiðubúnir til að samþykkja efni þessarar greinar því að það gildir það sama um hana og um 28. gr. að þar er verið að takmarka rétt stjórnarandstöðunnar allheiftarlega. Við eigum svo sannarlega að hugsa okkur vandlega um áður en við samþykkjum reglu af þessu tagi. Þar er sem sagt gert að aðalreglu að menn geti komið á framfæri utan dagskrár í lok fundartíma Sþ. — sem gæti oft verið þegar komið væri fram á nótt ef því er að skipta — athugasemd sem eigi má þó standa lengur en þrjár mínútur. Ég er hræddur um að menn telji þennan rétt harla lítils virði. Ég óttast að þegar þessi regla er sett upp sem aðalreglan í 32. gr., en hitt svo aftur lagt í vald forseta hvort umr. eigi að fá pláss á öðrum tíma, og hann hefur þessa reglu til að styðjast við, sem sett væri í þessum þingskapalögum, kynni harðdrægur forseti — nú er ég ekki að tala um núv. forseta Sþ. sem er afskaplega viðræðugóður og samvinnuþýður forseti eins og allir hv. þm. þekkja — sem kynni að vera í forsetastól á síðara stigi, að beita þeirri reglu til að hnekkja verulega rétti stjórnarandstöðunnar í gegnum áratugi til að koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri þegar hart er í ári og þörf er að dómi stjórnarandstöðu að vekja athygli á málum.

Ég vil minna á í þessu sambandi að ég er ekki að tala hér fyrst og fremst fyrir hönd stjórnarandstöðu á komandi árum og komandi tímum. Ég minnist þess að þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili og því sem var þar á undan beittu þm. Sjálfstfl. utandagskrárumræðum nokkuð óspart til að vekja athygli á málum sínum. Ekki fannst mér það neitt óeðlilegt út af fyrir sig. Ég hygg að það mætti telja í hópi þeirra æðimarga þm. sem kvöddu sér hljóðs oftar utan dagskrár en ég hef gert hér í þinginu. Það er alls ekki hægt að segja að núverandi stjórnarandstaða hafi beitt þessum rétti eitthvað meira eða óhóflegar en gert hefur verið á fyrri kjörtímabilum, síður en svo. Þess vegna vil ég eindregið skírskota til fulltrúa annarra flokka, því að það á sannarlega eftir að verða hlutverk þeirra margra að verða í stjórnarandstöðu á komandi árum, hvort þeim finnst skynsamlegt og eðlilegt að takmarka utandagskrárumræður jafnmikið og gert er með þessari grein. Ég tel það óskynsamlegt og vara við því.

Ég skora að endingu á forseta þingsins almennt að leita eftir betri samstöðu við þingheim um efni þessa frv. en tækifæri hefur verið til að gera enn sem komið er. Þótt vissulega hafi þessi mál verið rædd í þingflokkum, sennilega öllum a. m. k. einu sinni, þá dugar það ekki til. Hér þurfa miklu meiri og víðtækari samráð að koma til. Eins og ég hef þegar sagt var frv. í þessum búningi ekki lagt fyrir þingflokk Alþb. og sennilega ekki fyrir neinn þingflokkanna til endanlegrar afgreiðslu. Það er því vafalaust ekki hægt að líta svo á að það sé neitt endanlegt samkomulag um málið í þeim búningi sem það birtist hér. Ég skora sem sagt mjög eindregið á forseta þingsins og aðra þá sem eru forsvarsmenn þessa þingmáls eða þá sem eiga eftir að sitja í nefnd sem fjalla mun um málið að leita eftir betri samstöðu, einkum um þau atriði frv. sem verulega þrengja rétt þm. og stjórnarandstöðu frá því sem verið hefur.