15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4167 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

416. mál, þingsköp Alþingis

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ekki þarf ég að hafa mörg orð um málið eftir ítarlega framsöguræðu 1. flm., hv. 4. þm. Vestf., forseta Sþ., sem um leið var formaður þeirrar nefndar sem hefur lagt í þessa endurskoðun mikla vinnu þar sem margar skoðanir hafa verið á lofti um einstök atriði, mismunandi sjónarmið eins og gengur. Ég vil við þetta tækifæri alveg sérstaklega þakka forustu formanns, hversu hún hefur verið röggsöm og vinnubrögð verið skipuleg og vel að þeim staðið. Þar hefur einskis ofríkis gætt, heldur þvert á móti. Öll vinnubrögð hafa einkennst af því að menn hafa reynt að ná samkomulagi um sem flestar hugmyndir í þessari nefnd.

Það hafa vissulega verið margar hugmyndir á kreiki. Út af því sem hér hefur verið sagt m. a. um tímalengd og möguleika manna til að koma að sínum aths., þá er rétt að geta þess, hafi það ekki komið fram sem ég tók ekki eftir í framsöguræðu hv. 1. flm., að í þessari nefnd komu vissulega fram hugmyndir um að þáltill. færu beint í nefnd umræðulaust: Okkur þótti ekki stætt á því að slík málsmeðferð yrði viðhöfð. Þannig hefur auðvitað verið reynt að fá fram eðlilega málamiðlun sem frekast, en engu að síður reynt að komast að samkomulagi um hvernig hægt sé að setja lög um þingsköp á þann hátt að vinnubrögð þingsins verði skilvirkari, betri og geri meira gagn.

Það er mín skoðun að lengd umr. segi lítið um gagnsemi umr. Gagnsemi umr. fer vitanlega eftir því hvernig skoðanaskipti verða, með hve skilvirkum og glöggum hætti menn koma sínum sjónarmiðum á framfæri, en ekki eftir því hversu lengi þeir eru að því.

Það eru allir sammála um að það þurfi ýmislegt að gera til bóta í vinnubrögðum hér. Þingsköpin eru auðvitað bara rammi utan um þessi vinnubrögð og margt er á okkar valdi, allra sem hér sitjum, að reyna að koma í það horf sem við getum öll best við unað. Það er hins vegar augljóst, og mér var það augljóst þegar ég tók sæti í þingskapalaganefndinni, að aldrei yrðu allir sammála um það sem hér yrði í endanlegri frumvarpsgerð. En málið á auðvitað eftir að hafa sinn gang í þinginu, fá þar meðferð, brtt. kunna að verða gerðar og síðan er endanleg afgreiðsla. Mér var það fyllilega ljóst að ekki yrðu allir sammála.

Ég er á því að þegar kemur að því að setja reglur um skilvirkari vinnubrögð með t. d. ákveðnum takmörkunum, sem hljóta að verða varðandi ræðulengd og annað því um líkt, stingi menn við fótum. Ég er ekki að segja að það sé óeðlilegt. Menn óttast, eins og kom fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. og var mjög áberandi í þingflokki Alþb. og ég greindi frá á fundi þingskapalaganefndar, það mikla stökk að umr. um þáltill., sem eru algerlega óbundnar af tímalengd, verði takmarkaðar eins og þarna er. Ég flutti þess vegna þá till., sem kom frá okkar þingflokki fyrir þessa nefnd, að tímalengd yrði breytt vegna þessa stóra stökks þannig að flm. fengi 20 mínútur og aðrir 10 mínútur í umr. um þáltill. Áður höfðu þetta verið, í þeim frv.-drögum sem lögð voru fyrir þm., 10 mínútur og 3 mínútur, en til samkomulags í nefndinni var þessu breytt, til þess að geta lagt þetta fram í meiri einingu, í 15 mínútur til handa flm. og 5 mínútur til handa öðrum. Þar taldi ég aðra nefndarmenn, sem voru nokkuð á öðru máli, koma býsna mikið til móts við þau sjónarmið sem ég flutti frá mínum þingflokki þó að ég gerði mér grein fyrir því að það væri ekki gengið til móts við vilja allra sem þar eiga hlut að máli.

Þess ber og að geta að við fengum svipaðar aths. frá fulltrúa Kvennalistans í nefndinni, en sumir nm. vildu jafnvel ganga lengra, eins og ég hef getið um áður, í styttingu og jafnvel svo, svo að ég endurtaki það hér, að þær hugmyndir voru á kreiki hjá sumum nm.þáltill. ætti að vísa umræðulaust til nefndar.

Ég er á því að e. t. v. iðkum við í ræðustólum þingsins of miklar málalengingar og of mikið málskraf. Og ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v. að alveg sérstaklega á síðasta kjörtímabili þóttu mér umr. utan dagskrár fara alveg gersamlega úr böndum og fara gersamlega úr hófi. Ég veit að það er erfitt að setja þar nokkrar skorður eins og er. Menn þekkja það hins vegar nú að núv. forseti Sþ. hefur alveg sérstaklega beitt sér fyrir því að reyna að takmarka umr. utan dagskrár og beina þeim í annan og betri farveg. Mér er ekki grunlaust um að núverandi hv. stjórnarandstaða hafi einnig verið tillitssamari en síðasta stjórnarandstaða í utandagskrárumr.

Það er hins vegar rétt að menn stinga við fótum þegar þeir líta þannig á að hinn nýi farvegur, sem reiknað er með, að menn geti komið að málum í lok hvers fundar á venjulegum fundartíma, er túlkaður sem aðalregla og úrskurður forseta um málefni og mikilvægi mála gengur fyrir. Ég minni hins vegar að gefnu tilefni á seinni mgr., en hún er þannig, með leyfi virðulegs forseta:

„Forseti getur leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar skv. 31. gr. eða annarra formlegra þingmála. Fer þá um umræðu málsins skv. 36. gr. eftir því sem við á.“

Ég tel að í mjög mörgum tilfellum þar sem um mikilvæg mál er að ræða sé ekki nokkur vafi á því að í þennan farveg geti þessi mál allt eins beinst, þannig að menn séu hreinlega ekki, og þannig vil ég túlka þetta, að beina mikilvægum málum í þennan hálftíma í lok hvers fundar, en ýmislegu af því sem menn vilja vekja athygli á og snertir e. t. v. líðandi stund, en er ekki meginmál, geti þeir aftur á móti komið að í lok hvers fundar í Sþ., og það er mikilvægt líka, hvort sem það er yfirlýsing um eitthvert mál eða fsp. til ráðh., og þó ekki væri nema vegna þeirrar ánægju sem við hefðum af því að sjá ráðh. einhvern tíma í lok fundartíma í hv. Alþingi, þá tel ég þessa reglu góða því að þeir eru mjög sjaldséðir hér eða næstum óséðir hér þegar fer að líða á fundartíma Sþ., eins og reyndar gildir um fleiri hv. þm.

Ég segi það út af orðum hv. 3. þm. Norðurl. v. og sem ég varð nokkuð var við í mínum þingflokki einnig og kynnti í þingskapalaganefndinni, að ég treysti býsna vel á úrskurði forseta í þessum efnum. En e. t. v. kann það að vera rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að við getum ekki alltaf treyst á jafnréttsýnan forseta og við höfum nú. Viðurkennt er af öllum og fer ekkert á milli mála hér í Alþingi og er hægt að segja án vitundaragnar af hræsni eða smjaðri að réttsýni hæstv. forseta efar enginn hv. þm. og það efast enginn um, þegar um mikilvæg mál er að ræða eða svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar skv. 31. gr., að þá muni hæstv. núv. forseti örugglega úrskurða á þann veg sem allir geta vel við unað. Það fullyrði ég hér og nú og ég legg kannske of þunga áherslu á þetta með tilliti til þess, en vitanlega geta hér orðið forsetar sem vilja ekki ganga alveg erinda þingsins heldur ríkisstj. fyrst og fremst. Það er alltaf viss hætta á því að svo kunni til að takast og þá er vissulega líka hætta á misbeitingu valds ef forseti þingsins telur sig vera forseta ríkisstj. en ekki Alþingis.

Í því liggur hættan og vissulega getur það komið til. En ég segi það enn og aftur að ég held að áfram muni mál utan dagskrár verða tekin fyrir, sem eru svo mikilvæg og svo aðkallandi, með sama hætti og verið hefur þó að hinn nýi farvegur sé opnaður og segi það enn og aftur að utandagskrárumr. hafa oft verið algerlega úr hófi hér og allir um það sammála, algerlega úr hófi, alveg sérstaklega þegar löng dagskrá þinglegra mála bíður og menn þrasa kannske allan fundartímann um mál fram og til baka, nota sér öll ýtrustu þingskapaákvæði til að komast að með aths., bera af sér sakir eða hvað það heitir nú allt saman til að geta lengt umr. enn frekar og dregið þær enn meira úr hófi.

Mín skoðun er sú að það sé nægilegt að fyrirspyrjandi og ráðh. séu í umr. um fsp. Það er mín skoðun og hana hef ég látið uppi í mínum þingflokki. Hins vegar veit ég að um þetta eru mjög skiptar skoðanir og ég trúi ekki öðru en miklu víðar en í þingflokki Alþb. séu skiptar skoðanir um þetta mál og að mönnum þyki nokkuð að sér þrengt þegar þeir koma í fyrirspurnatíma með hinu nýja formi þar sem þeir ættu þess engan kost að taka þátt í umr. eða gera stuttar athugasemdir. Ég flutti því þingskapalaganefndinni einnig þá aths. frá þingflokki Alþb. að fyrirspyrjandi fengi nokkru rýmri tíma og ráðh. einnig, en síðan fengi hver þm. að gera grein fyrir sínu máli einu sinni með tveggja mínútna ræðutíma. Niðurstaðan af aths. varð sú, sem hér segir, sem er líka nýmæli frá því sem var í frv.-drögunum sem lögð voru fyrir þingflokkana, að þm. er gefinn kostur á því að gera stutta athugasemd. Það getur vel verið að það sé teygjanlegt, en ég hygg að með röggsamri fundarstjórn sé hægt að takmarka þetta nokkuð.

Ég ætla ekki að segja um þetta fleiri orð. Ég geri mér alveg grein fyrir því að eflaust eru margir þm. hér á öðru máli í sambandi við þingsköp en hér er sett á blað. En ég fullyrði þó að allir þm. vilja fá þann þingskapalagaramma sem gerir vinnubrögð þingsins betri og skilvirkari og gerir okkur kleift að sinna þingstörfum og standa að þingstörfum með meiri reisn en oft hefur verið.