15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

416. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málefnalegar umr. um frv. Ég átti raunar ekki von á öðru. Auðvitað geta menn haft mismunandi skoðanir á einstökum atriðum sem varða þingsköp Alþingis, en allt starf þingskapanefndarinnar, sem unnið hefur þetta frv., hefur miðast að því að samræma ólík viðhorf þar sem þau hafa komið upp um einstök atriði. Það hefur frá upphafi verið unnið að þessu máli á þann veg eins og ritari nefndarinnar, hv. 2. þm. Austurl., greindi frá hér áðan. Ég vil líka taka það fram að það hefur verið mjög góð samvinna í nefndinni. Ég vil sérstaklega þakka ritara nefndarinnar, hv. 2. þm. Austurl., og öðrum nefndarmönnum fyrir samstarfið í þessari nefnd. Menn hafa lagst á eitt um það að starfa vel í nefndinni og viljað leiða starf nefndarinnar til lykta á þann veg að við hefðum eftir þetta þing sem nú situr ný þingskapalög.

Ég vona að menn geti haldið áfram hér í þingsölunum að vinna í þessu máli eftir þessum meginsjónarmiðum, að leita samstöðu þar sem einhver ágreiningur er eða blæbrigði eru mismunandi í málinu og vinna þannig að málinu að frv. verði lögfest á þessu þingi. Hvers vegna það? Hvers vegna samþykkti Alþingi 1983 þáltill. um endurskoðun þingskapa? Það var vegna þess að það var talin brýn þörf á því að endurskoða þingsköpin. Og það stóðu allir þingflokkar að þessari þáltill. Hún var flutt með samþykki formanna allra þingflokka og forseta allra. Ég vona að við getum sameiginlega lokið því að koma í verk aðkallandi og nauðsynlegri endurskoðun þingskapa og gera það á þessu þingi.

Nú kann að vera að mönnum hafi fundist að það væri mikill og djúpstæður ágreiningur á milli okkar sem stöndum að þessu frv. og hv. 3. þm. Norðurl. v. af því sem hann sagði hér fyrr í umr. En ég vil leyfa mér að halda að svo þurfi ekki að vera þegar nánar er að gáð. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hóf mál sitt með því að segja: Ekki er deilt um þörf endurskoðunar og breytinga á þingsköpum. Þetta er kjarni málsins. Um þetta erum við öll sammála.

Ég gat um það í minni framsöguræðu að nefndin hefði annast heildarendurskoðun á þingskapalögum. En það eru sérstök atriði sem eru meginatriði í tillögum nefndarinnar og það eru einmitt þau atriði sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði einkum að umræðuefni.

Í fyrsta lagi var það 28. gr. frv., um þingsályktanir. Hv. þm. taldi að það væri of mikil takmörkun á umræðutíma við 1. umr. þáltill. svo sem ráð er fyrir gert í frv. Við í þingskapanefndinni ræddum þetta mál alveg sérstaklega. Við höfðum mismunandi skoðanir. Annars vegar voru skoðanir þeirra, eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Austurl., sem töldu rétt að hafa enga umr. áður en till. færi í nefnd. Hins vegar voru hugmyndir þeirra sem vildu stilla í hóf takmörkunum á umræðum. Niðurstaða nefndarinnar er millileið, sem farin er í þessu frv., millileið farin í trausti þess að hægt sé að ná sem víðtækastri samstöðu um frv.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. ræddi nokkuð vissar hliðar á þessu máli, sem ég skal ekki fjölyrða um við þessa umr. Ég geri ráð fyrir að við ræðum sérstaklega þessa grein við 2. umr. En ég held að það sé misskilningur ef menn halda að þessi ákvæði eins og þau eru í frv. miðist eitthvað við það að klekkja á stjórnarandstöðu, hver sem hún er hverju sinni. Ég fæ líka vart séð að það sé ekki sæmilega hægt að gera grein fyrir till. af flm. sem getur tvívegis falað og samtals 30 mínútur áður en till. fer í nefnd. Og ég hygg að það sé hægt að gera allnokkrar aths. við till. þegar aðrir þm., hver og einn, geta talað tvisvar og samtals í 10 mínútur. Ég leyfi mér að líta svo á málið. En þá er það auðvitað á þeirri forsendu að nauðsynlegt sé að takmarka umræður. Auðvitað er alltaf álitamál hvað á að ganga langt í því efni. Ég leyfi mér meðan því er ekki mótmælt að líta svo á að hv. 3. þm. Norðurl. v. sé okkur sammála um að einhver takmörkun eigi að vera á umræðum, en eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gat um og augljóst er þá eru frá þessari reglu, um takmörkun á umræðum um þáltill. við 1. umr., þýðingarmiklar undantekningar þegar stórmál eiga í hlut.

Þá er það annað atriði, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði sérstaklega að umræðuefni, og það voru fyrirspurnir og ákvæði 31. gr. frv. Hv. þm. taldi að það væri ekki af hinu góða að leggja til, svo sem gert er í frv. þessu, að binda umræður um fsp. við fyrirspyrjanda og ráðh. sem spurður er, þó að það væri möguleiki, ef á þyrfti að halda, fyrir aðra þm. að leggja þar orð í belg eins og frv. gerir ráð fyrir. Um þetta er það að segja að auðvitað geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvað á að takmarka mikið þessar umræður. En að vel athuguðu máli kom nefndin sér saman um að setja niður þá reglu sem er að finna í 31. gr. frv.

Það er um að ræða takmarkanir á umræðum, bæði um þáltill. og fsp., skv. frv. En ég bið menn að athuga að þessar takmarkanir verður að athuga í samhengi við ákvæði frv. um umræður utan dagskrár. Um leið og umræður eru takmarkaðar um þáltill. og fsp. eru bein ákvæði í 32. gr. um að víkka möguleikana fyrir því að málum sé hreyft utan dagskrár. Ég held að hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi misskilið þetta, a. m. k. þegar hann lagði lítið upp úr því að heimilt væri að tala utan dagskrár síðasta hálftíma fundar í Sþ. Hann sagði að þetta kæmi að litlu gagni að næturlagi. Ég er honum sammála um það. En hv. þm. les bara ekki greinina rétt því að það er tekið fyrir þetta tilvik með beinu orðalagi greinarinnar. Þar segir: „í lok hvers fundar á venjulegum fundartíma.“ — Á venjulegum fundartíma.

Þá þótti mér kenna þess misskilnings einnig hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að staða ríkisstj. væri betri og staða stjórnarandstöðu lakari ef þessi ákvæði um umræður utan dagskrár yrðu samþykkt, lakari en er í dag. Ég held að þetta sé líka misskilningur. Eins og ég tók fram í minni framsöguræðu lagði ég áherslu á að það væri oft þörf á umræðum utan dagskrár. Hv. þm. væru áhugasamir um ýmis þjóðmál. Þeir vildu vafningalaust geta komið með málin inn á Alþingi og að það ætti ekki að amast við þessu, eins og ég orðaði. Í þessum anda kom nefndin sér saman um fyrri mgr. 32. gr. Það er til þess að opna leið fyrir alþm. til þess að geta komið vafningalaust með mál, sem þeim liggur á hjarta, inn í þingið.

Við gerum ráð fyrir því að þm. hafi rétt til þessa, en það sé ekki eins og núna er í framkvæmd og hefur verið um umræður utan dagskrár, að þm. hafa ekki getað komið fram með mál nema þeir hafi samið við einhvern ráðh. um að svara því sem þeir vilja fá svar við. Nú er gert ráð fyrir því að þm. geti komið með sín mál vafningalaust inn í þingið án þess að semja um að ráðh. sé þátttakandi í þeim umræðum utan dagskrár. Þetta er grundvallarmismunur frá því sem verið hefur. Ég bið menn að athuga þetta og athuga þetta í samhengi við þær takmarkanir sem er gert ráð fyrir á umræðum um þáltill. og fsp. Að vísu er það svo að skv. 1. mgr. 32. gr. verða umræður takmarkaðar og mikið takmarkaðar, en við teljum að það sé ekkert óeðlilegt, þegar það eru gefnar frjálsar hendur í þessu efni, að hafa umræður takmarkaðar. Þær verða að vera það. Það er gersamlega útilokað annað.

Við höfum leitast við í þessu efni að taka nokkurt mið af því, sem gerist í öðrum þjóðþingum sem við viljum telja að geti verið til fyrirmyndar í því efni að hafa stuttar, hnitmiðaðar umræður í þinginu. Þetta er nýtt, þetta er til þess að opna nýja leið. Ef við tölum um stjórnarandstöðu og ríkisstj., sem mér finnst að við eigum ekki að vera að tala svo mikið um í þessu sambandi, þá kemur þetta fyrst og fremst stjórnarandstöðunni til góða.

Jafnframt þessu stendur svo í 2. mgr. 32. gr. að forseti geti leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. og svo aðkallandi að ekki geti beðið venjulegrar meðferðar þingmála. En það er ekki nóg með það að þessari leið er haldið opinni, heldur er tekið beint fram að þegar umræður utan dagskrár falla í þennan farveg eigi ekki að takmarka þessar umræður. En það hefur verið nokkur tilhneiging til þess að takmarka umræður utan dagskrár og þá hefur það stundum verið gert í mjög þýðingarmiklum málum þar sem orkar tvímælis hvort hafi verið rétt að takmarka umræður.

Ég hef núna farið út í þau þrjú atriði sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði sérstaklega að umræðuefni. Og ég sagði áður að ég ætlaði að þegar nánar væri að gáð þyrfti ekki að vera svo mikill ágreiningur milli þingskapalaganefndarinnar og hv. 3. þm. Norðurl. v. þó að auðvitað sé eðlilegt að það geti verið blæbrigði á þeim aðgerðum sem menn telja rétt að gera.

Ég gef verið stuttorður um það sem aðrir hv. þm. hafa sagt hér, hv. 11. þm. Reykv., hv. 9. þm. Reykv. og hv. 6. landsk. þm. Ég vil ekki teygja umræður nú með því að fara út í einstök atriði sem þessir hv. þm. komu inn á. En ég vil þakka sérstaklega fyrir hina jákvæðu afstöðu, sem þar kom fram og þær athyglisverðu ábendingar sem þar komu einnig fram, en eru okkur í þingskapanefndinni flestar eða allar ekki ókunnar því að þingskapalaganefndin ræddi ítarlega málið frá öllum hliðum eins og framast mátti vera. Ég get líka stytt mál mitt vegna þess að ritari nefndarinnar, hv. 2, þm. Austurl., hefur gert ýmsum atriðum þessa máls svo glögg og góð skil að ég hef ekki neina ástæðu til þess að bæta við það sem þessi hv. þm. sagði.