15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4177 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

338. mál, sala jarðarinnar Víðiness í Beruneshreppi

Frsm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á fundi sínum hefur landbn. fjallað um þetta frv. og mælir með samþykkt þess. Allir nm. skrifa undir nál. um samþykki fyrir heimild handa ríkisstj. að selja jörðina Víðines í Beruneshreppi í Suður-Múlasýslu.

Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð. Ég vildi þó segja það hér að í lýsingu á jörðinni í safnritinu „Sveitir og jarðir í Múlaþingi“ segir að jörðin sé í Fossárdal norðan Fossár, sem rennur í Berufjörð, er bærinn um 5 km frá þjóðveginum og var bærinn, þegar hann stóð, í 150–160 m hæð yfir sjó og þykir nú trúlega ekki mikill búhnykkur að slíkri jörð í dag þó að þetta sé góð viðbót landfræðilega og búskaparlega séð fyrir þann mann sem býr á Lindarbrekku.

Jörðin fór í eyði 1944. Þar er allt óhreyft og engu spillt með vélum, en hins vegar hefur Fossá brotið upp verulegan hluta túnsins og nálgast nú bæjartættur. M. a. til þess að varna því að meira tjón verði af vill Gunnar bóndi á Lindarbrekku eignast jörðina til þess að verja þær frægu bæjartættur sem þarna eru því þar standa enn sem nýhlaðnir veggir bæjarins sem hlaðinn var 1927.

Í lokin má ég til með að geta þess til gamans að á þessu harðbýla koti, þar sem aðeins fengust 100 hestburðir af heyi, bjuggu síðustu 17 árin eða allt til 1944 hjón sem eignuðust 17 börn og öll komust þau til manns svo að ekki hefur ætíð verið þar svo þögult í túni sem nú er. Í gamla sögu skal ekki frekar farið, en jörðin var nákvæmlega 100 ár eða eina öld í byggð.

Landbn. mælir með þessum rökstuðningi og enn frekari sem hér mætti tíunda með því að þessi jarðarsala fari fram.