15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4179 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

291. mál, umferðarlög

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þetta frv. Á síðasta þingi var flutt frv. um sama efni og var þá samþykkt hér í hv. Ed., en var eigi afgreitt úr allshn. Nd. Sú breyting var gerð á frv. við endurflutning þess nú að ekki var gengið svo langt að leggja til að lögbinda notkun ökuljósa allan ársins hring. Þess í stað er lagt til að notkun ökuljósa verði lögbundin frá 1. sept. til 30. apríl ár hvert í þeirri von að frv. nái fram að ganga.

Ákvæði 2. gr. er þáttur í þeirri viðleitni að tryggja sérstaklega öryggi ungra vegfarenda, þar á meðal skólabarna.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt.