15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4187 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

Afgreiðsla þingmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Af þeim kemur fram að grg. með frv. er ekki tilbúin. Stjórnarflokkarnir munu hafa verið að ræða um drög að frv. án þess að hafa fengið grg. (Iðnrh.: Ekki fullbúna grg.) Þeir hafa ekki fengið endanlega grg. frá hæstv. ráðh. í þessu efni að því er hann sagði áðan. Ég vissi ekki til þess að iðnrn. hefði sérstaklega með þau mál að gera. En það er kominn tími til að iðnrh. blandi sér í þau mál líka og fylgist með þeim. Finnst mér þetta í rauninni nokkuð sérkennilegt vegna þess að það hlýtur að vera svo að stjórn Stéttarsambands bænda hafi fengið þessi frv.-drög til meðferðar. Eða veit stjórn Stéttarsambandsins ekki neitt hvað hún fær í hendur á miðvikudaginn kemur? Hefur Stéttarsambandið ekki hugmynd um hvað á að leggja fyrir? Auðvitað hlýtur hæstv. landbrh. að hafa farið með þessa hluti að einhverju leyti síðustu daga fyrir stjórn Stéttarsambandsins. Þess vegna er algerlega óeðlilegt að hann skuli í ljósi þess neita stjórnarandstöðunni um að fá frv.-drögin eins og þau liggja fyrir strax í dag. Hvað er það sem hæstv. landbrh. hefur að fela í þessum efnum? Hvað er það sem stjórnarflokkarnir vilja ekki láta sjá? Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, að ítreka þá kröfu við hæstv. landbrh. að þessi frv.-drög verði lögð fyrir og sýnd í stjórnarandstöðuflokkunum rétt eins og í stjórn Stéttarsambands bænda strax í dag, eigi síðar en í dag. Það er alveg ástæðulaust að draga það stundinni lengur.