15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4188 í B-deild Alþingistíðinda. (3520)

Afgreiðsla þingmála

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það var kominn tími til að menn ræddu svolítið þessi vinnubrögð hér í þinginu, vegna þess að ég er hræddur um að menn fari nú þar að reka upp á sker. Ég fer fram á og krefst þess að þessi frv.-drög, sem hafa verið nógu góð til þess að aðrir þingflokkar gætu um þau fjallað og væntanlega stjórn Stéttarsambandsins, verði afhent þingflokki okkar til að hægt verði að fjalla um þau á þingflokksfundi í dag. Ég tel ekki seinna vænna að menn fari að reyna að taka á sig verk til að reyna að flýta fyrir vinnslu mála á þessu þingi. Það eru ekki nema sjö vikur þangað til þingi ætti að ljúka skv. venjulegum starfstíma og það er augljóslega verulega mikið af verkum óunnið. Hér hefur verið nefnt dæmi um lánsfjárlög sem einhvern veginn hafa fallið ofan í milli í Ed. og menn helst ansa ekki fsp. um það hvernig þau mál standa. Ég vil nefna annað mál sem búið er að vera mikið til umræðu og í mikilli vinnslu alveg síðan í haust, útvarpslögin. Þau duttu á dularfullan hátt af dagskrá fyrir páska og hefur ekkert til þeirra spurst. Þetta eru tvö lítil dæmi um það hvernig afgreiðsla mála og umfjöllun mála virðist mjög á reiki og vægast sagt í illu ásigkomulagi hjá ríkisstj.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að komið verði á fundi — eigum við að segja verkstjóra þingsins, þá á ég við forseta og þingflokksformenn — þar sem menn geri sér grein fyrir því hvaða tími sé til stefnu til að afgreiða mál og þar verði lagður fram trúverðugur listi yfir þau mál sem ríkisstj. vill láta afgreiða fyrir vorið. Ég ber þetta fram við hæstv. forseta vegna þess að ég veit að hann vill virðingu þingsins sem allra mesta og ég tel, eins og málum er komið núna, að þetta sé raunverulega farið að varða virðingu þingsins.

Ef svo fer sem horfir mun þingið bregðast þjóð sinni. Í sumar fara í hönd kjarasamningar. Því hefur verið margsinnis yfir lýst af hálfu ríkisstj. að þar til grundvallar verði að leggja breytingar á skattastefnu og breytingar á húsnæðisstefnu svo aðeins séu tvö mál tekin af þeim sem augljóslega þarf að kippa í liðinn svo að raunverulegir kjarasamningar, frjálsir kjarasamningar geti farið fram. Ég tel líka að þetta varði virðingu þingsins vegna þess að atvinnulíf er að stöðvast víða og það er nauðsynlegt að þingið leggi þá farvegi, sem fólki er ætlað að sjá sér lífsbjörg í, svo að ekki endi hér allt með ósköpum. Þetta varðar líka margumtalaða virðingu þingsins vegna þess að hún eykst ekki með því að þingið vanræki augljósa skyldu sína með því að opinbera skipulagsleysi sitt, ráðleysi ríkisstj. og dáðleysi þeirra sem þar eiga að fara með völdin. Þess vegna endurtek ég ósk mína, að forseti beiti sér sem bráðast fyrir fundi til þess að hægt verði að bjarga því sem bjargað verður af virðingu þingsins en hún vex af því einu að það sjáist taka af krafti og ábyrgð á þeim verkefnum sem eru brýnust í samfélaginu.