15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4193 í B-deild Alþingistíðinda. (3529)

Afgreiðsla þingmála

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er náttúrlega auðsætt af viðbrögðum hæstv. ráðh., þeirra sem hér eru þó og ber að virða það, að þeir vita upp á sig skömmina. Þar hafa illa verið rekin trippin og stjórn þingsins af þeirra hálfu meira og minna í ólestri. Hér fyrir framan mig gengur t. d. hæstv. félmrh. sem fer með húsnæðismál og hefur ítrekað úr þessum virðulega ræðustóli lýst því yfir að hendur hans séu bundnar og fætur hans heftir í húsnæðismálunum vegna þess að hann hafi enga samþykkt á lánsfjáráætlun. Allir vita hvar lánsfjáráætlun er og hvað henni líður, hversu náðuga daga hún á í Ed. Enn þá getur hæstv. félmrh. lítið gert í húsnæðismálunum af þessum sökum. Það er mál eins og þetta og önnur slík sem við erum hér m. a. að ræða um. Og hæstv. ráðh. vita upp á sig skömmina, eins og ég áðan sagði, og svara því með hroka og útúrsnúningi, ef þeir svara þá einhverju á annað borð, eins og t. d. hæstv. iðnrh. Ég fékk það nú reyndar á tilfinninguna að hann hefði sett öfuga löpp fram úr í morgun, þessi hæstv. ráðh., þegar hann gekk úr rúmi sínu, svo snakillur var hann hér uppi áðan, eða þá að hann kemur svona illa niður af landsfundinum. Það er líka mögulegt að þetta hafi verið eitthvað hörð lending hjá honum þegar hann kom heim af landsfundinum.

En vegna þess sem hann tók sér hér í munn, hæstv. ráðh., þá rifjaðist upp fyrir mér gamall húsgangur sem var farið dálítið með fyrir austan hér á árunum. Hann hefur að vísu hvergi birst á prenti, að ég hygg, þessi húsgangur, en ég bið samt leyfis herra forseta til að fara með hann af því að mér finnst hann eiga snoturlega við í þessu samhengi. Hann er svona:

Gapti hann og gleypti vind.

Gekk þá flest úr skorðum.

Munnræpan var Sverris synd

og setuliðsins forðum.