15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

Afgreiðsla þingmála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þarf að leiðrétta misskilning sem mér þótti gæta í máli hv. 3. þm. Reykv. Þar er fyrst til að taka að á fundi formanna þingflokka í haust var þeirri ósk beint til forráðamanna þingsins, til forseta sem síðan beina því áfram til ráðh., að reynt yrði að jafna vinnuálag í deildum. Nú er ég ekki að segja að þarna hafi ekki verið nokkuð ofgert í þetta sinn. Eins og sjá má er miklum verkum ólokið í Ed. og munar þá kannske mest um það að lánsfjáráætlun var lögð fram í Ed., en undanfarið hefur hún yfirleitt verið lögð fram í Nd. Fjmrh. hefur lagt mörg mál fram í Ed. á þessu þingi. Ég er ekki að segja að þetta sé til fyrirmyndar. Ég held að þarna þurfum við að þræða hinn gullna meðalveg eins og oftar. Nú hefur vinnuálagið orðið kannske fullmikið hjá Ed.-mönnum en þeir eru vel starfhæfir og klára sig nú væntanlega af þessum verkefnum.

Hv. 3. þm. Reykv. misskildi líka orð mín um framlagningu þessa frv. Ég skipti mér að sjálfsögðu ekki af því hvenær hæstv. landbrh. sendir stjórnarandstöðunni frv.-drög þau sem fyrir liggja. Það sem ég var að segja var að áður en stjórnarflokkarnir eru búnir að samþykkja þetta mál og ganga frá því í sinn hóp, báðir þingflokkar stjórnarinnar, er þetta ekki orðið að stjfrv. Og við tökum ekki ábyrgð á þessu máli fyrr en við erum búnir að fjalla um það og koma okkur saman um endanlega gerð þess.