15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4195 í B-deild Alþingistíðinda. (3534)

Afgreiðsla þingmála

Svavar Gestsson:

(KP: Það er umburðarlyndi sem forseti hefur.) Já, ég þakka hæstv. forseta enn og aftur og þykir verst hvað hv. 3. þm. Vestf. er orðinn ókyrr. Ég vissi ekki að hann tæki varaforsetahlutverk sitt hér í Nd. svo hátíðlega að hann vildi loka ræðustólnum fyrir mönnum. En ég vil bara leyfa mér að þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir það að hann hefur leiðrétt þau ummæli sem hann hafði hér uppi áðan. Hann viðurkennir að það er á ábyrgð ríkisstj. hvernig verkstjórnarlag er hér í þinginu. Og í annan stað lætur hann landbrh. allra náðarsamlegast eftir að standa við orð sín varðandi þetta frv. í þá veru að drögin að frv. verði lögð fyrir stjórnarandstöðuna strax á morgun. Það er það fyrirheit sem hann gaf og ég lít svo á að það standi þar sem hv. þm. Páll Pétursson hefur dregið fyrirskipanir sínar til baka.