29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

47. mál, barnalög

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í barnalögunum sem samþykkt voru á Alþingi 15. apríl 1981, í 17. gr. þeirra laga, eru ákvæði sem kveða á um heimild til þess að ákveða framlag frá meðlagsskyldum aðila til menntunar- og starfsþjálfunar barns til 20 ára aldurs. Einnig er í 19. gr. sömu laga ákvæði um að heimilt sé að úrskurða framfærsluskyldan aðila til að inna af hendi framlag vegna sérstakra útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms eða greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.

Það frv. sem ég hér mæli fyrir á þskj. 47 er um að breyting verði gerð á barnalögunum að því er varðar ákvæði 17. og 19. gr. laganna. Þær breytingar, sem frv. felur í sér. eru að lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins skuli greiða framlög vegna menntunar eða starfsþjálfunar barns ef meðlagsskyldur aðili er ekki á lifi eða af öðrum ástæðum reynist ókleift skv. úrskurði valdsmanna að innheimta framlög skv. 1. mgr. 19. gr. barnalaganna vegna menntunar eða starfsþjálfunar barns.

Með sama hætti er einnig gert ráð fyrir í 2. gr. frv. að Tryggingastofnun ríkisins greiði framlög vegna þeirra sérstöku útgjalda, sem kveðið er á um í 19. gr. barnalaganna, ef um er að ræða að meðlagsskyldur aðili er ekki á lífi eða af öðrum ástæðum reynist ókleift skv. úrskurði valdsmanns að innheimta greiðslur skv. ákvæðum þessarar greinar barnalaganna.

Þegar það nýmæli var samþykkt á Alþingi að framfærsluskylda gæti staðið til 20 ára, ef þörf krefur vegna menntunar eða starfsþjálfunar barns, svo að heimilt væri að úrskurða framfærsluskyldan aðila til að inna af hendi sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms eða greftrunar eða af öðrum sérstökum tilefnum, þá var ekki hugað að því að tryggja sambærilegan rétt eða stuðning við einstæða foreldra eða börn þeirra í þeim tilfellum að meðlagsskyldur aðili er ekki á lífi eða ef af öðrum ástæðum reynist ókleift að innheimta greiðslur skv. ákvæðum þessarar greinar barnalaganna. Hér er því um að ræða augljóst ranglæti og mismunun í aðbúnaði og kjörum einstæðra foreldra sem með þessu frv. er leitast við að leiðrétta.

Í grg. með frv. er reynt að leggja mat á það hve margir einstæðir foreldrar og börn þeirra eru án þessara réttinda sem barnalögin tryggðu einstæðum foreldrum sem leitað geta til meðlagsskylds aðila.

Í ljós kemur að skv. upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins fengu 834 einstæðir foreldrar greiddan barnalífeyri með börnum sínum yngri en 18 ára vegna andláts annars hvors foreldris. Að mati Tryggingastofnunar ríkisins má gera ráð fyrir að þessir 834 einstæðu foreldrar hafi að meðaltali 1.4 börn á framfæri sínu. Skv. þessum upplýsingum eru það 834 einstæðir foreldrar, sem hafa á framfæri sínu 1167 börn, sem ekki njóta réttar skv. ákvæðum 17. og 19. gr. barnalaganna.

Þeir hafa ekki til neins meðlagsskylds aðila að leita. Gera má því ráð fyrir að um 14–5% einstæðra foreldra eða börn þeirra eigi engan rétt á stuðningi, hvorki frá meðlagsskyldum aðila né hinu opinbera, vegna menntunar barna til 20 ára aldurs né vegna þeirra útgjalda sem upp eru talin í 17. gr. barnalaganna, en skv. þjóðskrá 1. des. 1983 töldust einstæðir foreldrar vera 6250 sem höfðu á framfæri sínu 8283 börn 15 ára og yngri.

Í grg. með frv. er einnig vakin athygli á því hve fáir einstæðir foreldrar, sem rétt eiga skv. 17. og 19. gr. barnalaganna, hafa sótt eftir þeim rétti frá því að barnalögin tóku gildi. En skv. upplýsingum sakadóms Reykjavíkur, sem fer með úrskurð þessara mála í Reykjavík, kemur í ljós að á árinu 1982 voru einungis kveðnir upp 10 úrskurðir vegna menntunar- eða starfsþjálfunar, á árinu 1983 17 úrskurðir og fyrstu níu mánuði ársins 1984 einungis 10 úrskurðir. Vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms eða greftrunar eða af öðrum sérstökum tilefnum er einnig um mjög fáa úrskurði að ræða eins og fram kemur í grg. með frv. Undirstrika ber þó að þær upplýsingar sem fram koma í grg. lúta aðeins að framkvæmd 17. og 19. gr. barnalaganna í Reykjavík, en engu að síður gefur það nokkuð góða mynd af því hve fáir einstæðir foreldrar leita réttar skv. þessum ákvæðum barnalaganna. Verður að telja athugunar virði hvort einstæðum foreldrum sé ekki nægjanlega vel kunnugt um þann rétt sem þeir eiga skv. ákvæðum barnalaganna.

Herra forseti. Ætla verður að miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja yrði ekki um mikinn kostnað að ræða fyrir ríkissjóð yrði frv. þetta að lögum. En ljóst er að hér er á ferðinni brýnt réttlætismál sem Félag einstæðra foreldra hefur lagt mikla áherslu á að leiðrétt verði. Með samþykkt þessa frv. yrði tryggt að börn sem aðeins eiga annað foreldra á lífi hafi sömu möguleika og börn annarra einstæðra foreldra og að einstæðum foreldrum yrði ekki mismunað að því er varðar þann rétt og stuðning sem 17. og 19. gr. barnalaganna gefa einstæðum foreldrum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. og legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.