16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (3543)

357. mál, húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin og ég fagna því að ráðh. skuli hafa lýst því hér yfir, og gefið ákveðna dagsetningu í því efni, að nefndin muni ljúka störfum fyrir tiltekinn tíma og að meiningin sé að afgreiða frv. til laga um kaupleigu- og búseturéttaríbúðir á þessu þingi. Hins vegar er óneitanlega gagnrýnivert að slíkt frv. skuli ekki koma fram fyrr en í síðasta þingmánuðinum, þ. e. ef svo fer sem hæstv. félmrh. hefur hér boðað. Má og undarlegt vera að sú nefnd sem vann þetta mál skuli hafa þurft nærri heilt ár til að skila af sér vinnunni þar sem hæstv. ráðh. hefur margoft lýst því yfir að full eining sé í stjórnarflokkunum um þetta mál.

En ég fagna svörum ráðh. og vona að þau gangi eftir og vil að þau loforð, sem þar voru gefin, gangi eftir. Vil ég í því sambandi minna á þá ályktun sem í gær var samþykkt á fjölmennum fundi áhugafólks um úrbætur í húsnæðismálum þar sem eitt megininntakið var „aðgerðir í stað loforða“. Það vona ég að gangi eftir í þessu máli.