16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3545)

357. mál, húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í gær fóru hér fram nokkrar umr. um störf Alþingis og það sem eftir lifir af þessum vetri í þinghaldi. Þá var m. a. minnst á það að ríkisstj. hefði haft í fórum sínum lista yfir 25 atriði sem hún hygðist leggja fyrir Alþingi. Sérstaklega var spurt um frv. til laga um breyt. á l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem hæstv. landbrh. lofaði að sýna stjórnarandstöðunni í dag, en mér er ekki kunnugt um að þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafi fengið enn þá.

Nú upplýsir hæstv. félmrh. að hann ætli sér að tryggja afgreiðslu á frv. um búseturéttaríbúðir á þessu þingi. Hann lýsti því yfir áðan úr þessum ræðustól. Ég vil af þessu tilefni fara þess á leit við hæstv. forseta Sþ. að hann sjái til þess að nú þegar í þessari viku komi frá ríkisstj. listi yfir þau mál sem stjórnarflokkarnir eru báðir sammála um að tryggja afgreiðslu á á þessu þingi. Að því er húsnæðismál varðar duga okkur auðvitað ekki yfirlýsingar hæstv. félmrh. Á síðasta þingi voru húsnæðissamvinnufélögin seld fyrir Jóga og Mangósopa á síðustu stundu. Sjálfstfl. náði þar sínu fram. Í þessum efnum dugir ekki að fá yfirlýsingar hæstv. ráðh. Við verðum að fá fram afstöðu beggja stjórnarflokkanna.

Fyrir því, herra forseti, vil ég í tilefni þessara umr. endurtaka þá ósk mína að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að ríkisstj. sýni þingflokkunum á næstu dögum lista yfir þau mál sem hún ætlar sér að leggja áherslu á að fá afgreidd á þessu þingi.