16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3547)

357. mál, húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vegna þess, sem hér hefur áður verið nefnt, að þingi fer senn að ljúka og menn þurfa að fara að skipuleggja störf sín hér og vegna þeirra loðnu svara sem komu frá félmrh. um hvernig hann ætlaði að haga afgreiðslu þessa máls, þá vildi ég nota tækifærið til að fá það skýrt fram í þessu máli, sem hæstv. félmrh. nefndi, hvort fullkomin eining væri innan stjórnarflokkanna um afgreiðslu þessa máls. Það er tækifæri til þess. Hv. 2. þm. Reykv. er hér staddur og einnig 9. landsk. þm., formaður þingflokks Sjálfstfl. Við gætum því e. t. v. fengið strax upplýst hér af hálfu Sjálfstfl. hvort hann er sammála hæstv. félmrh. um að það sé fullkomin eining innan stjórnarflokkanna um afgreiðslu þessa máls fyrir þinglok.