16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4201 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

327. mál, bókmenntaverðlaun Jóns Sigurðssonar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þessi fsp. í þremur liðum er svohljóðandi:

„1. Hefur verið úthlutað bókmenntaverðlaunum af lið 02-982-0235 á fjárlögum ársins 1984 sem forseti Íslands stofnaði til og kenndi við Jón Sigurðsson?

2. Hefur verið skipuð stjórn til að fjalla um verðlaun þessi og sett um þau reglugerð?

3. Hvað er fyrirhugað um þessi verðlaun í framtíðinni og hvers vegna var ekki veitt fé til þeirra á fjárlögum í ár?“

Svarið við 1. og 2. lið fsp. er nei. Fjárhæð sú, sem veitt var á umræddum fjárlagalið 1984, nam 300 þús. kr. og liðurinn bar yfirskriftina Bókmenntaverðlaun án frekari skilgreiningar eða leiðbeininga af hálfu Alþingis um ráðstöfun.

Það er rétt að forseti Íslands setti fram hugmynd um þetta mál, stödd á Hrafnseyri við Arnarfjörð, en frumdrög að stofnskrá liggja ekki fyrir. Endanlegar tillögur um hvernig verðlaunum þessum skuli hagað og úthlutað liggja ekki heldur fyrir, en þess er væntanlega skammt að bíða þar sem nú stendur yfir athugun þessa máls í forsrn. á þann veg að verðlaunin verði tengd með sérstökum hætti reglum um Gjöf Jóns Sigurðssonar.

Reglurnar um Gjöf Jóns Sigurðssonar voru settar á Alþingi árið eftir að dánargjöf Ingibjargar Einarsdóttur, ekkju Jóns Sigurðssonar, var gefin. Reglurnar eru settar í samræmi við fyrirmæli í erfðaskrá frú Ingibjargar þar sem hún tekur fram að hún treysti Alþingi til þess að finna þá leið eða þann sjóð sem best sé fallinn til þess að ná tilganginum sem hún greindi í erfðaskránni.

Skv. þessu er verið að athuga þetta mál í forsrn. og þegar þær tillögur liggja fyrir verður einnig tiltækt fjármagn í þessu skyni. Jafnvirði þess fjár, sem veitt var á fjárlögum 1984 en ekki notað þá af framangreindum orsökum, verður tiltækt á þessu ári.