16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

396. mál, sýningar Þjóðleikhússins

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Þjóðleikhúsið. Nafnið eitt gefur tilefni til að ætla að hér sé um að ræða listamusteri þjóðarinnar allrar þar sem öllum þjóðfélagsþegnum gefst sem best tækifæri til að njóta þess sem þar er á fjölunum hverju sinni, enda er það svo að í lögum um þjóðleikhús, þ. e. 15. gr. þeirra laga, er ráð fyrir því gert að listin úr þessu musteri þjóðarinnar sé flutt út á meðal þegnanna á landsbyggðinni, en í 15. gr. segir, með leyfi forseta:

„Þjóðleikhúsið skal kappkosta að hafa samstarf við leikfélög áhugamanna, láta þeim í té gistileikara og leikstjóra til leiðbeiningar, eftir því sem unnt er. Gera skal leikfélögum áhugamanna kleift að fylgjast með starfi Þjóðleikhússins. Á vegum Þjóðleikhússins skulu árlega farnar á starfstíma þess leikferðir sem víðast um landið. Einnig skulu farnar leikferðir til annarra landa og fengnir hingað erlendir listamenn, hvort tveggja eftir því sem aðstæður leyfa.“

Nú finnst mér að það hafi mjög skort á að við dreifbýlisfólk yrðum þess aðnjótandi að starfslið þessa listamusteris léti sjá sig úti á landsbyggðinni eins og lög gera ráð fyrir. Ég hef því leyft mér að flytja á þskj. 641 fsp. til hæstv. menntmrh. sem er eftirfarandi:

„1. Hversu margar leiksýningar hefur Þjóðleikhúsið haft á eftirtöldum svæðum s. l. fimm ár: Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi?

2. Hve marga leikstjóra eða leikara lét Þjóðleikhúsið leikfélögum úti á landi í té s. l. fimm ár?“