16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3570)

396. mál, sýningar Þjóðleikhússins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli, sem er þarft og gott að fá svör við, og vissulega ber að fagna því að svo vel hefur þó verið að verki staðið varðandi þann þátt sem snertir það að senda leikara og leikstjóra út til áhugafélaganna. Við afgreiðslu laga um Þjóðleikhúsið á sínum tíma lýsti ég ánægju minni með þau ákvæði sem þar voru tekin inn bæði um heimsóknir og ekki síður gestaleiki og leikstjórn hjá áhugafélögunum, svo sem segir þar eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á, að Þjóðleikhúsið skyldi kappkosta svo sem unnt væri að styðja áhugaleikfélögin. Ég lagði þá ríka áherslu á að þetta yrði ekki dauður bókstafur einn, ákvæðin yrðu virk en ekki aðeins til að gera lögin áferðarfallegri og líklegri til að ganga í augun á fólki á landsbyggðinni þar sem leiklistaráhugi og leiklistariðkun eru sérstaklega til fyrirmyndar. Ég vildi raunar þá fá fortakslausari og enn skýrari skylduákvæði hvað þetta hvort tveggja snertir því að skyldan á að vera ótvíræð og raunar ljúf og eðlileg fyrir þessa stofnun að inna af hendi.

Varðandi þann ágæta stuðning sem greinilega hefur þó verið veittur af hálfu Þjóðleikhússins til áhugafélaganna með gestaleikurum og leikstjórum hef ég aldrei verið í vafa um að það eru ekki bara áhugafélögin og fólkið þar sem nýtur góðs af þessu. Ekki síður hafa leikarar Þjóðleikhússins hið mesta gagn af þessu. Ég fullyrði að það víkkar þeirra sjóndeildarhring. Það skapar þeim nýja reynslu, víðari yfirsýn og gerir þá jafnvel hæfari til starfa á sínum vettvangi á eftir. Ég vitna þar í þann ágæta valinkunna leikara, Val Gíslason, sem fyrir alllöngu fór austur í Egilsstaði sem leikstjóri og leikari og kvað þá reynslu hafa verið sér ómetanlega og nauðsynlega um leið fyrir hvern atvinnuleikara.

Af svörum hæstv. ráðh. kom fram að þarna hefði verið þokkalega að verki staðið, en hraklegar en áður var þó varðandi leikferðirnar, og þar kæmu sparnaðaraðgerðir Þjóðleikhússins fram, í leikferðum út á landsbyggðina. Spurning er þá hvernig á þessum málum á að taka. Ég treysti hæstv. ráðh. til þess að beita sér fyrir því að hér verði á veruleg breyting til batnaðar og Þjóðleikhúsið sinni ótvíræðri lagaskyldu sinni í þessu hvoru tveggja og sér í lagi að ef á að hagræða einhverju og ef eitthvað á að spara hjá Þjóðleikhúsinu verði það ekki nær eingöngu látið koma niður á leikferðum út um land.