16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4227 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

412. mál, olíuleit á landgrunni Íslands

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. til iðnrh. um olíuleit á landgrunni Íslands. Það er þskj. 674. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvað líður rannsóknum á landgrunni milli Íslands og Jan Mayen og olíuleit sem ráð var fyrir gert þar í samkomulagi við Norðmenn þann 18. júní 1982?

2. Hvenær mun fram haldið rannsóknum og auðlindaleit á svæðinu út af Eyjafirði og Skjálfandaflóa sem fyrst var kannað árið 1978?“

Ég minni á í þessu sambandi að fyrir Sþ. liggur till. til þál., sem flutt er af mér, um auðlindarannsóknir á landgrunni Íslands, 130. mál, þar sem vikið er að þessum efnum. Sú till. hefur enn ekki hlotið afgreiðslu hér í Sþ. Ástæða er til þess þess vegna að hreyfa þessu máli hér í fyrirspurnarformi.

Ef ég vík fyrst að seinni lið fsp., þ. e. hvernig mundi haldið áfram auðlindaleit fyrir Norðurlandi, þá er það mál sem er eðlilegt að sé á dagskrá og er mjög raunhæft vegna þess að þar hafa þegar komið í ljós merki um hugsanlega olíu á hafsbotni.

Landgrunn Íslendinga er ákaflega víðáttumikið. Það er sjö sinnum stærra en landið sjálft. Það er um 753 000 km2 og að mjög miklu leyti ókannað. Við höfum farið okkur hægt í þeim rannsóknamálum eins og á mörgum öðrum sviðum rannsókna, að sumu leyti af skiljanlegum ástæðum vegna fjárskorts. En þarna hefur þó verið nokkuð rannsakað og þá fyrst og fremst fyrir atbeina bandarísks félags sem leyfi fékk til að rannsaka þetta svæði 1978. Þann 17. ágúst 1978 heimilaði þáv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen rannsóknarfyrirtækinu Western Geophysical Co. að framkvæma þar slíkar rannsóknir.

Niðurstöður er of langt mál að rekja en þær lofuðu hins vegar mjög góðu um tilvist auðlinda á þessu svæði. Það voru að vísu frummælingar sem þarna voru gerðar, en í ljós kom að út af Eyjafirði og Skjálfandaflóa var um að ræða allt upp í 4 km þykk setlög, en eins og menn vita eru setlög algjör forsenda fyrir því að um olíu- eða gaslindir geti verið að ræða. Ástæða er almennt talin til að halda áfram rannsóknum ef setlögin ná 1 km að þykkt, en þau voru frá 2 km upp í 4 km á þykkt á þessu svæði. Þess vegna má segja að ástæða hafi verið til að halda áfram könnunum í þessu efni.

Árið 1981 fóru fram frekari rannsóknir og þá jarðfræðirannsóknir í Flatey á Skjálfanda og rannsóknaboranir þar að tilstuðlan nefndar sem með þessi mál fór. Þá fól iðnrh. Hjörleifur Guttormsson Orkustofnun að framkvæma þar sérstaka rannsóknaborun sumarið 1982. Niðurstöðurnar voru staðfesting á tilvist setlaga þar, en rannsóknaborholan var aðeins 554 m djúp. Til þess að ganga úr skugga um tilvist kolvetna í setlögum þar nyrðra þarf að bora niður á yfir 2000 m dýpi. Endanleg niðurstaða fékkst því ekki þar.

Þess vegna, og með þetta í huga, er að því spurt hvenær þessum rannsóknum muni haldið áfram. Það er alveg ljóst að þarna er um mjög þykk setlög að ræða og þetta svæði er talið vænlegasta svæði við Ísland sem við þekkjum hvað þetta varðar. Ég held að það væri þess vegna full ástæða til þess og reyndar mjög áríðandi að þessu væri haldið áfram. Við vitum að skammt fyrir norðvestan okkur við strönd Grænlands eru að hefjast mjög umfangsmiklar kannanir, bæði mælingar og boranir, í Meistaravík, nú í sumar og á að halda þeim áfram næstu árin. Menn þekkja einnig hinar miklu olíulindir sem hafa fundist austanmegin við Ísland, reyndar er það miklu fjær. Við erum því á olíusvæði sem full ástæða er til að kanna frekar.

Í öðru lagi, og þar vík ég að fyrri lið fsp., var gerður samningur milli Íslands og Noregs í október 1981 sem gekk í gildi 2. júní 1982. Sá samningur fjallaði um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Í þessum samningi er ákveðið að Ísland og Noregur skuli sameiginlega láta fara fram rannsóknir á ákveðnum svæðum og settar verði reglur um hvernig hátta skuli olíuleit á þeim ef til komi. Norðmenn skulu kosta forrannsóknir á hafsbotninum, en skipulag á að vera í höndum beggja aðila sameiginlega. Þótt Norðmenn komi til með að bera kostnað þennan þurfa Íslendingar að gera ráð fyrir ýmsum atriðum og kostnaði, svo sem vegna forvinnuframkvæmdar og úrvinnslu rannsóknanna.

Mér er kunnugt um að þetta mál mun hafa verið í undirbúningi, en hér er einnig talið að sé um allvænlegt olíusvæði að ræða. Þess vegna er ástæða til þess að hafsbotnsrannsóknir, auðlindaleit hefjist sem allra fyrst í samræmi við þennan samning sem við gerðum við Norðmenn og tók gildi árið 1982. Hér er þess vegna um svið að ræða sem við ættum að sýna meiri áhuga og gefa meiri gaum að en við höfum gert á undanförnum árum. Vegna þess eru þessar fsp. til iðnrh. fram bornar.