16.04.1985
Sameinað þing: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4237 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

335. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta er milljarðamál sem hér er tekið til umfjöllunar. Ætli innflutningsverð okkar á olíuvörum á þessu ári muni ekki nema um 3 milljörðum? Það verða allmörg hundruð milljónir á hvern þm. sem hér er mættur núna.

Það er athyglisvert í sambandi við þessi mál að lítið er talað um frelsi í innflutningi á olíuvörum. Ég varð t. d. aldrei var við að Sjálfstfl. ályktaði um það á landsfundi sínum núna sérstaklega að frelsi ætti að gilda í þessari grein. Það var almennt ályktað um frelsi í viðskiptum, en þetta var ekki sérlega tilgreint og er þó þriggja milljarða mál. Munu þó fáir þættir í viðskiptalífinu hjá okkar vera öllu stærri í sniðum. Ég man reyndar aldrei eftir því að Sjálfstfl., sem er talsmaður frelsis í viðskipfum og samkeppni, hafi sérstaklega ályktað um að frelsi skyldi gilda í þessari grein og hér skyldi samkeppni ríkja. Þeir sjálfstæðismenn boða frelsi í öllum viðskiptum, en einmitt þegar kemur að olíuinnflutningnum og reyndar útflutningsversluninni hljóðna þeir, þá tala þeir ekki um frelsið.

Maður hlýtur að spyrja hvers vegna það sé að þetta skuli vera undanskilið. Gæti það verið vegna þess að olíufélögin hafi eitthvað að segja í málinu, að einmitt þess vegna, þegar kemur að þessu þriggja milljarða verkefni, minnki og dofni allt í einu áhuginn á frelsinu? Sannleikurinn er sá að ég hef ekki orðið var við það að olíufélögin hafi neinn áhuga á að breyta til í þessum efnum. Einn forstjóri olíufélags lét hafa það eftir sér í blaðaviðtali nýlega að vitaskuld gildi ekkert frelsi og engin samkeppni í olíuversluninni á Íslandi. Þetta var forstjóri BP.

Ég sagði að olíufélögin væru ánægð með þetta ástand og ég held að það séu orð að sönnu. Ég hef oftsinnis orðið var við að þessu fyrirkomulagi, sem gildir hér varðandi olíuverslunina og olíuinnflutninginn, vilja olíufélögin ekki breyta. Þeim finnst þetta þægilegt. Þau þurfa lítið eða ekkert fyrir að hafa. Og eins og kerfið er njörvað saman geta þau bara framvísað sínum reikningum. Við höfum hlustað á harmagrát olíufélaganna yfir því hvað tapið væri alltaf mikið á sama tíma og við sjáum hallirnar rísa yfir bensínafgreiðslur og þess háttar. Það merkilega er að eins og kerfið er núna þurfa olíufélögin tæplega að hafa fyrir því að þrýsta á um sín eigin mál vegna þess að ef það safnast upp skuldir í bönkunum fara bankarnir að æmta og æpa og heimta hækkanir handa olíufélögunum. Þetta er gulltryggt kerfi fyrir olíufélögin. Það er kannske ekki nema von að þau séu heldur áhugalaus um að breyta. En maður hlýtur að ætlast til þess af stjórnmálaflokkum sem taka sjálfa sig alvarlega, eins og ég ætlast þó til af þeim flokki, Sjálfstfl., sem talar fyrir frjálsri samkeppni og frjálsum viðskiptum, að þeir a. m. k. hugleiði hvort það fyrirkomulag, sem ríkir í þessum efnum, sé eins og best verði á kosið.

Ég minnist þess líka að hæstv. viðskrh. gaf fögur fyrirheit á liðnu sumri um að það skyldi lækka olíuverðið fyrir 1. okt. Það var hluti úr stefnuyfirlýsingu ríkisstj. þegar hvað mest gekk á á miðju sumri og flotinn sigldi í höfn fyrir austan. En hverjar urðu efndirnar? Ekki lækkaði olían 1. okt. Hún hækkaði. Nú er hæstv. ráðh. að „pjattast“ í aðgerðum sem eiga að skila 2% lækkun á olíuverði. Það er auðvitað góðra gjalda vert að fá 2%, en ég held að rétt sé að skoða það í samhengi við aðrar stærðir í þessu dæmi. Við höfum líka upplifað það allt s. l. ár og allt fram á þennan vetur og reyndar á árinu 1983 líka að heimsmarkaðsverð á olíu fór lækkandi og við hlustuðum á fréttir um það aftur og aftur, en á sama tíma hækkaði alltaf olían hjá okkur. Gefur þetta ekki tilefni til þess að menn liti á þetta mál og skoði það?

Olían á Íslandi er dýr. Ég held að óhætt sé að fullyrða það. Munurinn milli olíuverðsins hjá okkur og á Norðurlöndunum einkanlega hefur þó minnkað núna á síðustu mánuðum, m. a. með hliðsjón af þeim vetrarhörkum sem hafa verið, en hann á vafalaust eftir að vaxa aftur ef við gerum ekkert sérstakt til þess að breyta um að því er varðar skipan þessara mála. En við upplifðum það allt s. l. sumar og árið þar á undan að gasolía var 40–50% dýrari á Íslandi en t. d. í Bretlandi og Þýskalandi og bensín hefur gjarnan verið 20–40% ódýrara í ýmsum grannlöndum okkar, t. d. í Þýskalandi, en það er hjá okkur. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna er olían svona dýr? Við skulum hyggja að kostnaðarsamsetningunni.

Innkaupsverð á gasolíu og svartolíu er um 75–80% af smásöluverði olíunnar þegar hún er komin hingað. Álagning til þess að standa undir dreifingarkostnaði innanlands hvaða nafni sem það nefnist, hvort heldur það er kallað landsútsvar, sem er bara hluti álagningarprósentu fyrir sköttum sem þessi fyrirtæki eiga að greiða, eða leki í hafi, er á bilinu 15–20%. Opinber gjöld eru á bilinu 3–3.5%. Fram að þessu höfum við horft upp á að það sem hæstv. ráðh. og ríkisstj. eru að glíma við eru þau 3–3.5% í olíuverðinu sem eru hin opinberu gjöld. Eftir mikinn bardaga og vangaveltur allt frá því á miðju s. l. sumri hefur nú séð dagsins ljós sú stefnumörkun að hér megi lækka um 2 prósentustig. Það var þrautafæðing og hefur reyndar kostað það í leiðinni að ríkisstj. hefur orðið að heita því að höggva á tekjustofna sveitarfélaga, þar með landsútsvarið, vegna þess að hún treystir sér ekki til þess að draga úr álagningarprósentunni öðruvísi en að höggvið væri á þann tekjustofn sveitarfélaganna sem svaraði til þessa.

Við heyrum ýmsa titla í sambandi við verðmyndun á olíuvörum. Við heyrum talað um innkaupajöfnunarreikning. Getur verið að hluti af skýringunni á því hvers vegna olían er svona dýr hjá okkur sé fólginn í innkaupajöfnunarreikningi? Við skulum líta á þennan mismun sem er upp á 40–50%. Við erum búin að skoða opinberu gjöldin sem eru upp á 3%. Hvað getur þessi innkaupajöfnunarreikningur gert þegar hann stendur sig eins og hann stendur sig oftast, heldur illa? Jú, hann gerir kannske 5% í olíuverðinu. Auðvitað er það breytilegt. Hann getur farið niður í 1–2%, upp í 67%. Ekki skýrir það heldur þennan 40% mun eða 50% ef við lítum á gasolíuna. Þar að auki er innkaupajöfnunarreikningurinn í rauninni einungis bókfærsluatriði sem menn nota til að jafna mun á verði á förmum, þannig að það sem inn á hann kemur fer út af honum jafnóðum aftur og áhrif hans á verðlagninguna sem slíka eiga þess vegna engin að vera nema að því leyti sem menn búa við gamlar syndir.

Hitt má vel vera og má gera sérstaklega að umtalsefni að innkaupajöfnunarreikningurinn hafi þau áhrif að það sé takmarkaður áhugi hjá olíufélögunum að stunda hagkvæmni í innkaupum. Er það flutningurinn til landsins sem er svona dýr? Flutningurinn til landsins er 3-4% af verði olíunnar. Það skýrir ekki heldur muninn. Og ef við bara skoðum eina staðreynd sjáum við hvað innkaupsverðið skiptir miklu í þessu sambandi. Við sögðum að innkaupsverðið á gasolíu væri um 75% af söluverðinu hérna, en það hefur líka verið staðhæft og fyrir því sannanir að smásöluverðið á olíu í Bretlandi og Þýskalandi hafi verið með þeim hætti að gasolían væri 50% dýrari hér. Þá er smásöluverðið í þessum útlöndum orðið lægra en innkaupsverðið hjá okkur. Þá er smásöluverðið í þessum löndum orðið lægra með öllum dreifingarkostnaði og því um líku og álagningu en innkaupsverðið hjá okkur. Þetta er hin yfirgnæfandi staðreynd.

Að því er varðar olíukerfið sjálft sagði ég að við byggjum við samannjörvað kerfi. Við búum við sérstakt kerfi að því leytinu að innflutningurinn er leyfisbundinn. Sem sagt: það ríkir algert ófrelsi og höft í þessum efnum og engin samkeppni og það sem meira er, ráðh. úthlutar í rauninni einokunaraðstöðu til olíufélaganna á þessu sviði. Það er rekið olíuverslunarkerfi sem er einokunarkerfi og er á ábyrgð ríkisins vegna þess að ráðh. úthlutar þessari einokun. Þetta kerfi að meðtöldum innkaupajöfnunarreikningi og öðru því ófrelsi sem ríkir þýðir að olíufélögin hafa engan hag af því að leita eftir hagkvæmni í innkaupum og afraksturinn er sem sagt 40–50% hærra gasolíuverð, sem við höfum mátt búa við á undanförnu ári og fram á þennan vetur, hér en í Bretlandi og Þýskalandi. Þessi munur verður ekki skýrður með flutningskostnaði til landsins, verður ekki skýrður með dreifingarkostnaði, verður ekki skýrður með tollum eða gjöldum til ríkisins af þeirri einföldu ástæðu að innkaupsverðið til landsins án alls dreifingarkostnaðar er hærra en það smásöluverð sem oftlega hefur að undanförnu verið í gildi erlendis. Skýringin á því hvernig komið er í þessum efnum hlýtur þess vegna að liggja í því kerfi sem við búum við. Þrátt fyrir að svona vel sé um hnútana búið kvarta olíufélögin yfir taprekstri og menn eiga kannske erfitt með að skilja hvernig þetta geti gengið upp.

Það er til lítils fyrir hæstv. viðskrh. að vera að pjattast í 2% meðan 75–80% verðsins sitja föst og engin tilhneiging er til þess að ná þar aukinni hagkvæmni. Munurinn á 50% og 48%, þessi 2%, vegur harla létt í þessum efnum.

Við höfum keypt u. þ. b. 80% af olíuvörum okkar frá Sovétríkjunum. Því hefur verið haldið fram að þessi innkaup væru mjög hagkvæm, en það er eitt sem ég sé ástæðu til að vekja athygli á í þessu sambandi. Það er að Sovétmenn ráða æðimiklu um það hvenær ferming skipanna fer fram. Ég hef séð línurit yfir það hvernig Rotterdam-markaðurinn þróaðist. Það sýnir m. a. að það er ótrúlega lítil tilhneiging til þess að það sé tilviljun undirorpið hvar menn eru staddir á sveiflunni á Rotterdam-markaði þegar ferming fer fram. Menn eru æðioft á toppunum á Rotterdam-markaðsskráningunni þegar ferming fer fram. Þetta er eitt af því sem við ráðum ekki yfir við gildandi kerfi. Ég ætla ekki að segja að þetta skýri nema hluta af þessu vandamáli, en ég kemst ekki hjá því að nefna það.

Í umræðunum um olíumálin vitna menn oft til þess hversu mikilvæg olíukaup okkar séu frá Sovétríkjunum. Annars vegar segja menn: Þau eru hagkvæm, en þau eru líka mikilvæg vegna sölu á afurðum þangað. Við skulum líta á þetta.

Ef þessi kaup eru hagkvæm, eins og fram er haldið, munu þau væntanlega halda jafnt áfram þó að frelsi sé gefið í þessum efnum. Væntanlega munu olíufélögin leita eftir því að halda þeim viðskiptum áfram ef þau eru eins hagkvæm og af er látið. Þá þurfa menn varla að óttast neinar breytingar af þeim sökum. Þá eru áhrifin á sölu á afurðum okkar auðvitað engin. Við kaupum þá jafnmikið eða meira. Hins vegar getur verið að úr því að olíuverð er svona hátt hérna hafi önnur kaup, þessi 20%, verið mjög óhagkvæm. Er þá ekki ástæða til þess að ætla að aukin samkeppni mundi verða til þess að lækka verðið á þeim hluta innkaupanna og verða þannig til þess að stuðla að lægra olíuverði?

Lítum nú á hinn kostinn. Ef það skyldi nú vera að olíuinnkaupin frá Sovétríkjunum, sem menn segja að séu svo mikilvæg, séu óhagkvæm, hvað erum við þá að gera með því að halda uppi þeim viðskiptum? Við erum vitaskuld að skattleggja okkur vegna útflutningsins. Við erum að stunda innflutning á dýrari vöru en þyrfti að vera til að útflutningur geti átt sér stað. Hvaða aðili er það sem greiðir bróðurpartinn af þeirri skattlagningu? Það er stærsti olíukaupandinn á Íslandi. Það er útgerðin. Útgerðin ásamt með öðrum landsmönnum er þá að skattleggja sig til að standa undir þessum útflutningi. Það yrðu menn þá að taka inn í dæmið vegna þess að það er heildarniðurstaðan sem skiptir meginmáli.

Úr því að hér er verið að tala um að gasolían hafi gjarnan á undanförnum árum, þó bilið hafi mjókkað núna, verið 40–50% dýrari en í grannlöndum okkar, hugsum okkur þá bara helminginn af því, ef það væri hægt að lækka innkaupsverð á olíuvörum um 20% með því að nýta kosti hinnar frjálsu samkeppni og frelsis í viðskiptum, og hvaða fjárhæðir væri þá um að ræða. Ef við erum með innflutning upp á u. þ. b. 3 milljarða á árinu 1985 eru það 600 millj. kr. Ef þetta væru hlutföllin er hér um 600 millj. kr. skatt að ræða á þjóðina sem stafar af því að menn velja ekki hagkvæmustu leiðina. Ég nefni þetta ekki vegna þess að ég gæti staðhæft að þessar tölur eigi við, heldur einungis til þess að menn átti sig á hver eru stærðarhlutföllin í þessum efnum.

Markaðsstaða okkar, segja menn, markaðurinn í Sovétríkjunum skiptir okkur mjög miklu máli hvað sem öllum peningaupphæðum líður að því er olíuverðið varðar. Það er vissulega rétt að við höfum selt heilmikið af vörum til Sovétríkjanna, en ef þau viðskipti í heild sinni hafa verið þannig að um skattlagningu hafi verið að ræða vegna þess að olían sé of dýr af þeim sökum verður að taka það inn í dæmið og í annan stað verðum við að líta á hvað það sé sem við höfum verið að flytja út og hvort við höfum fengið hátt og gott verð fyrir þá vöru. Það hafa verið fluttar út ullarvörur, mönnum hefur þótt þægilegt og gott að vera með þessa samninga um útflutning á ullarvörum til Sovétríkjanna, en verðið hefur verið lágt. Það hefur verið unnt að fá langtum hærra verð fyrir prjónles og aðra ullarvöru sem menn hafa þó komið á Evrópumarkað eða Bandaríkjamarkað, en það var fyrirhöfn. En verðið var lágt og menn hafa dofnað af því að eiga aðgang að mörkuðum sem ekki skila háu verði og þeir hópar sem hafa unnið í þessum prjónaskap hafa orðið láglaunastétt á Íslandi. Ég held menn hefðu gott af því að spreyta sig í auknum mæli á því að finna markaði annars staðar þar sem verðið er hærra eða fá hærra verð í Sovétríkjunum.

Karfaútflutningurinn var okkur ákaflega mikils virði, Sovétmarkaðurinn þar. Nú hafa menn uppgötvað að við getum unnið markað fyrir karfa annars staðar. Við eigum kannske að fara með hann með eitthvað öðrum hætti, en það hefur sýnt sig að með hugkvæmni er hægt að finna ágæta markaði, sem skila hærra verði, annars staðar, bæði í Bandaríkjunum og t. d. í Japan. Það hafa menn fengið að sjá og reyna. Nú er staðan sú að menn hafa ekki áhuga á að auka útflutninginn á karfa til Sovétríkjanna, heldur draga frekar úr honum og leitast þá við að auka hann á öðrum stöðum. Og þá komum við að þriðja þættinum, sem menn geta litið á sem viðkvæman í þessum efnum, nokkuð stórum þætti. Það er síldarútflutningurinn.

Það er ekkert launungarmál að Sovétmenn hafa keypt af okkur langstærstan hluta af þeirri síld sem við höfum saltað. Menn hafa náttúrlega bundið sig við og horfa á að þessi markaður sé mikilvægur. Þetta er þó einungis brot af því sem við kaupum inn olíuvörur fyrir frá Sovétríkjunum.

En hvað um það. Síld er etin víðar en í Sovétríkjunum. Hún er etin um allan heim. En það hefur verið þægilegt og notalegt fyrir okkur að flytja hana út saltaða í tunnur til Sovétríkjanna af því að það er verkunaraðferð sem við kunnum og var fljótvirk og þægileg. Sá markaður hefur gert það mögulegt fyrir okkur að vera ekki að leggja á okkur neina sérstaka fyrirhöfn við að leita að eða finna markaði sem krefðust meira af okkur í verkun, í fyrirhöfn, í markaðsmálum, en kannske markaðir sem gætu gefið okkur langtum meira í aðra hönd. Vitaskuld verða menn að aðlaga sig að aðstæðum á hverjum tíma. Ég held að menn hafi líka gott af því að fá svolítið aðhald í því að laga sig að aðstæðum að því er varðar útflutning á síldarvörum. Þess vegna held ég að ótti manna í þessum efnum sé að ýmsu leyti og að flestu leyti ástæðulaus. Ef innkaupin eru hagkvæm halda þau áfram. Ef þau eru óhagkvæm erum við að skattleggja okkur og menn verða að taka það inn í dæmið. Það gæti vel skeð að einmitt þau viðskipti sem við höfum átt við sovétríkin, sem menn hafa haft áhyggjur af, hefðu gott af samkeppnisaðhaldi og við mundum fá lægra verð frá þeim jafnframt að því er olíuna varðar.

Að öðru leyti er nauðsynlegt að menn aðlagi sig að markaðsaðstæðum.

En ef við skoðum einungis þær tölur sem ég minntist á hér í upphafi um verðsamsetningu olíunnar, um að að því er varðar gasolíu og svartolíu sé innkaupsverðið einhvers staðar á bilinu 75–80% af smásöluverðinu, sjá menn auðvitað að innflutningsverðið er langafdrifaríkasti þátturinn og innflutningsfrelsi mundi vera langafdrifaríkasti þátturinn í því að auka frjálsræði og auka samkeppni í þessum viðskiptum. Ég held að það sé líka ljóst að án frelsis á þessu sviði verður nánast ekki um neina samkeppni að ræða, hvað annað sem menn gera þegar svo stór hluti verðsins er undir því kominn hvernig menn haga innkaupunum. En þá er það líka ljóst að hagkvæmni í innkaupum ræður úrslitum um hvort menn ná raunverulegum árangri í því að lækka verð á olíuvörum hér á landi. Það er hagkvæmnin í innkaupunum sem mun ráða raunverulegum úrslitum um það. Allar aðrar aðgerðir eru nánast fálm og hjóm í samanburði við þær aðgerðir sem miða að því að ná sem hagkvæmustu innkaupsverði.

Það fyrirkomulag sem við búum við er ákveðið með reglugerð nr. 172 frá 20. mars 1980. Það styðst við lög nr. 63 frá 1979 um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Það er þess vegna á valdi ráðh. viðskiptamála að taka ákvörðun um hvort hér skuli ríkja frelsi eða ekki. Ráðh. viðskiptamála getur breytt þessari reglugerð hvenær sem er og það er af þeim sökum sem sú till. sem hér er flutt felur það einungis í sér að fela viðskrh. að breyta þeim ákvæðum reglugerðarinnar sem valda því að ófrelsi ríkir í innflutningi, felur honum það vegna þess að það er beinlínis á hans valdi.

Það fyrirkomulag sem er við lýði hefur gilt hér mjög lengi. Mér sýnist ljóst að það hafi í gegnum tíðina, og alveg sérstaklega var það áberandi á árunum 19831984, skilað okkur langtum dýrari olíuvörum en í ýmsum grannlöndum okkar, eins og ég rakti hér í upphafi. Þá verður að leita nýrrar skipunar. Og hvert á þá að leita um það hvers konar skipan upp eigi að taka? Liggur ekki beint við að leita fyrirmyndar hjá þeim sem búa við lægra olíuverð og hafa viðskiptafrelsi í þessum efnum, leita samræmis við það sem gildir hjá þessum grannlöndum okkar og taka upp þá skipan? Vitaskuld. Það er af þeim sökum sem það liggur beint við að flytja till. eins og þá sem ég mæli hér fyrir og það er þess vegna sem þessi till. er flutt.

Tilgangurinn með þessari till. er einfaldur. Hann er sá að stuðla að verðlækkun á bensíni og olíu með því að gefa innflutning á þessum vörum frjálsan og koma þannig á samkeppni í þessum mikilvægu viðskiptum sem að innflutningsverðmæti eru upp á 3 milljarða á árinu 1985 eða því sem næst ef að líkum lætur.

Þessi mál hafa lítið verið rædd hér á þingi. Þau hafa ekki verið hér til umfjöllunar. Þó er eðlilegt og rétt að um svo stórvægilegan málaflokk fari fram ítarleg skoðanaskipti á þinginu. Mér leikur forvitni á að vita, ekki einungis hvað viðskrh. hefur um þetta mál að segja, heldur líka hvað forustumenn hinna stjórnmálaflokkanna hafa um þetta mál að segja. Hver er afstaða formanns Framsfl.? Hver er afstaða formanns Sjálfstfl. til þessa máls? Hvað eru þeir að hugsa? Hvað vilja þeir gera í þessum efnum? Eru þeir ánægðir með það kerfi sem er við lýði eða vilja þeir ná fram breytingum? Við því mundi ég gjarnan vilja fá svör og ef þessir aðilar eru ekki hér í húsinu núna legg ég til að framhaldi umr. verði frestað þangað til þeir geta skýrt frá því hvaða stefnu þeirra flokkar hafa í þessum mikilvæga málaflokki, miðað við þá reynslu sem menn hafa búið við á síðustu árum. Við höfum upplifað verulegan verðmun miðað við ýmis grannlönd okkar í þessum vöruflokki. Sá verðmunur er minni núna en hann var fram undir þennan vetur og hann er minni einkum að því er varðar Norðurlöndin, en hann er verulegur og hann er mikill og hann er okkur þungbær. Þess vegna verða menn að leita nýrrar skipunar.