16.04.1985
Sameinað þing: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4254 í B-deild Alþingistíðinda. (3597)

335. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. fann að formi þessarar þáltill. Mér skildist að honum þætti skynsamlegra að flutt yrði lagafrv. En nú er það svo að í lögunum, sem í gildi eru, er tiltekið að viðskipti með alla vöru, aðra en þá sem er undanskilin sérstaklega með reglugerð, skuli vera frjáls. Þá þyrfti lagabreytingu sem gengi á snið við þetta og tæki það fram, en þar að auki skuli það gilda sérstaklega um olíuvöruna. Mér finnst óþarfi að fara út í slíkar formbreytingar á lögum, sem fyrir hendi eru, þegar hæstv. viðskrh. hefur það gersamlega í hendi sér hvernig hann framkvæmir þá reglugerð sem í gildi er.

Hæstv. ráðh. orðaði það svo að nú ætti að fara að stjórna landinu með þáltill. Ég vil nú minna á það að í ýmsum merkum málum hefur stefna Alþingis verið boðuð og ákveðin með þáltill. Í ekki ómerkari málum en hvernig við skipum öryggismálum landsins, aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, í ekki ómerkari málum en landhelgismálinu og ekki einu sinni, heldur í marggang hefur því verið skipað með þáltill. Þetta er mjög mikilvægt mál sem við ræðum hér og ég get ekki annað séð en það eigi ágætlega heima í flokki með þeim málum sem ég nefndi, svo miklu sem það skiptir í þjóðarbúskap okkar, og að hæstv. ráðh. megi vera fullsæmdur af að um þennan málaflokk, sem undir hann heyrir, skuli einmitt vera fjallað með sama hætti og þau stórmerku mál sem ég rakti hér áðan. Mér finnst hann vera fullsæmdur af og ætti bara að vera hreykinn. Á þessari till. er vitaskuld ekki nokkur formgalli.

Hæstv. ráðh. gat þess að í ályktun frá Sjálfstfl. hefði þess verið getið að menn ættu ekki að vera of háðir einum aðila í þessum viðskiptum. En það var ekki ályktað um það að þessi viðskipti skyldu vera sérstaklega frjáls. Og niðurstaðan úr ræðu ráðh. var vitaskuld ákaflega merkileg. Hún var í fyrsta lagi sú að verðið á á Íslandi væri mjög lágt, ekki hátt. Það væri greinilega alger misskilningur hjá Íslendingum að þeir byggju við hátt verð á . Það væri lægra en menn gætu búist við, það væri lægra en hjá öðrum, það væri mjög lágt. Í ljósi þessa hlýtur menn að furða það að útgerðarmenn á Íslandi skuli leggja það á sig, m. a. útgerðarmenn í Neskaupstað, að fara alla leið til Bretlands á sérstökum skipum til að sækja olíu sem skv. upplýsingum hæstv. ráðh. er dýrari en hér heima. Mann hlýtur að furða á því að talsmenn LÍÚ skuli hafa látið hafa það eftir sér að olíuverðið hér væri 40–50% hærra en það sem þeir gætu fengið í erlendum höfnum. Þessi talnakúnst, sem hér er uppi höfð, kemur vissulega á óvart. Hitt er ljóst, að það hafa orðið breytingar á olíuverðinu á líðandi vetri, eins og ég gat reyndar um í framsögu minni, þannig að bilið hefur minnkað. En það á bara eftir að breikka aftur.

Önnur niðurstaða ráðh. var sú að það væri alveg klárt að við gætum ekki fengið olíu við lægra verði en við höfum fengið undanfarið. Sem sagt, það væru engir möguleikar á lægra innkaupsverði en við höfum notið. Þó er það svo að annað veifið hafa verið að koma farmar til landsins sem hafa verið undir Rotterdamskráningu, jafnvel langt undir Rotterdam-skráningu. Sannleikurinn í málinu er nefnilega sá, að þó að það sé til Rotterdam-markaður og þó að það sé til skráning á honum, þá er það mjög lítill hluti af olíuviðskiptum í heiminum sem fer þar í gegn. Mjög stór hluti af viðskiptunum gerist með öðrum hætti og margt af þeim viðskiptum er á hagkvæmari kjörum en Rotterdammarkaðurinn gefur til kynna. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Ef menn hins vegar ætla að binda sig við einhverjar skráningar þá er Rotterdam ekkert verri skráning en hver önnur. En í hinum almennu olíuviðskiptum er það ekki skráning á Rotterdam-markaði eða einhver önnur skráning sem ræður þessum viðskiptum alfarið. Í því liggur nefnilega hundurinn grafinn, með leyfi hæstv. forseta. Í því liggur efni þessa máls. Þess vegna tel ég að sú staðhæfing hæstv. ráðh. að við getum ekki fengið lægra olíuverð standist ekki. Hún stenst einfaldlega ekki vegna þess að aðrir hafa fengið lægra olíuverð og við bjuggum hér í langan tíma við það að munurinn var þau 40–50% sem ég rakti hér áðan.

Þriðja meginniðurstaða hæstv. ráðh. í ræðunni var sú að samkeppni mundi ekki skila lægra verði. Þetta þótti mér merkileg yfirlýsing af hálfu eins af fremstu talsmönnum þess flokks sem hefur ævinlega haldið því fram að samkeppni mundi skila lægra verði. Nú er það tekið út fyrir sviga að því er olíuna varðar, einhver stærstu viðskipti sem eru í gangi í heiminum í fyrsta lagi, stærsta samanlagða innflutningspóst hjá Íslendingum. Í þessari grein gildir það skv. mati hæstv. ráðh. að samkeppni geti ekki skilað lægra verði. Þetta var harla merkileg yfirlýsing. Og þetta gengur náttúrlega þvert á það, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á, sem Morgunblaðið hélt fram í leiðara 27. janúar s. 1., að leysa þyrfti olíuviðskiptin úr úreltum haftaviðjum.

Hæstv. ráðh. gerði mikið mál úr því að það væri áreiðanlega rangt farið með prósentutölur og fleiri tölur í grg. með þessari till. Eitthvað er það nú orðum aukið. Í grg. sem unnin hefur verið af opinberum aðilum, dags. 24. ágúst 1984, stendur skýrum stöfum: „Á undanförnum árum hafa innkaup frá Sovétríkjunum á olíuvörum numið tæplega 80% af heildarinnflutningi til landsins á þessum vörum.“ Þessi tala, 80%, er ekki gripin úr lausu lofti. Það kemur líka nákvæmlega í sama stað niður ef hæstv. ráðh. tekur innflutning á þeim vörum sem hér er verið að fjalla um, svartolíu, gasolíu og bensíni og lítur á árið 1983. Þá kemur út 80%. Það er breytilegt eftir tegundum. Það var 100% í svartolíunni, 70% í gasolíunni og eitthvað um 70% í bensíninu líka. Hæstv. ráðh. kinkar kolli. (Viðskrh.: Það var 70% í bensíninu.) Það var 70% í bensíninu og ég geri ráð fyrir að hann sé að kinka kolli við hinu líka. Þá held ég að honum hljóti að vera fyllilega ljóst að meðaltalið úr 70 og 100%, hver svo sem vigtin er á hinum ýmsu magntölum sem þarna koma inn í, getur aldrei orðið 56.4% eða hvað það nú var sem hann var að reyna að halda fram hér áðan. Þessi fullyrðing hæstv. ráðh. er því rekin til föðurhúsanna.

Hæstv. ráðh. gerði mál úr því að ég hefði verið meðal flm. þeirra laga sem hér væri byggt á, ég hefði gefið út reglugerð varðandi þessi mál, sem ekki væri að vísu í gildi núna en hefði verið í gildi þar á undan, og að það sem ég væri fyrir hann að leggja væri það að hann ætti að leiðrétta villur og skyssur sem ég hefði staðið að á sínum tíma. Nú getur hann auðvitað valið hvaða orðalag sem hann vill í þeim efnum. En hitt er auðvitað meginatriði málsins í fyrsta lagi að þetta fyrirkomulag hefur verið mjög lengi við lýði og þau lög sem hér var um að ræða tóku ekki sérstaklega til þess að höft skyldu vera í olíuverslun. Þar var heimild til þess að takmarka frelsi í viðskiptum eftir því sem ráðh. kysi. Og í annan stað, að því er reglugerðina varðar, þá hafði þetta fyrirkomulag verið lengi í gildi.

En í þriðja lagi, og það skiptir kannske ekki minnstu máli, er það að aðstæður eru allt, allt aðrar núna heldur en þá. Við skulum gæta að hvernig aðstæður voru á árunum 1979–1980. Þá var skortur á olíuvörum. Ég skal víkja að því nánar hér á eftir. En núna er framboð á olíuvörum aukið svo mjög að það er umfram eftirspurn. Þetta eru auðvitað allt, allt aðrar aðstæður og gefa allt aðra möguleika til að afla bensíns og olíu með öðrum hætti og meiri líkur á að geta fengið lægra verð. Hitt var rétt að vegna þess að ég taldi að ekki væri gott að vera einum of háður og við skyldum leita eftir fjölbreytni stóð ég að undirbúningi þeirrar tilraunar sem gerð var að umtalsefni áðan varðandi innflutning á olíu frá Bretlandi til að reyna að losa hér um og við ættum fleiri kosta völ. Sú tilraun bar ekki þann árangur sem við ætluðumst til. Reyndar voru það ekki örlög mín að fylgja henni eftir til enda, heldur gengu aðrir frá verðsamningum varðandi þann innflutning. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég hef velt fyrir mér og gert tillögur um breytingar að því er varðar innflutning á olíuvörum og það var ekki heldur takmarkað við þessar tilraunir til þess að komast inn á breska markaðinn, heldur flutti ég líka till. í þeirri ríkisstj. um að stofnað yrði sérstakt innflutningsfyrirtæki um innflutninginn. Allt er þetta viðleitni til að taka á þessu máli, sem menn hafa yfirleitt aldrei fengist til þess að ræða hér á hv. Alþingi, en svo sannarlega gefur fullt tilefni til þess með tilliti til þess hversu háar fjárhæðir eru í húfi.

Hæstv. ráðh. kvartaði undan því að ég hefði ekki hrósað honum nóg fyrir það að hann væri að lækka verðið um a. m. k. 2%. g biðst velvirðingar á því ef hann hefur ekki fengið nógsamlegar þakkir fyrir það og óska honum til hamingju með það mikla afrek, en hitt er það að það væri langtum meira afrek ef hann gæti komið á raunverulegu frelsi í þessum viðskiptum, ef hann gæti komið á raunverulegri lækkun á innkaupsverði, sem er eftir sem áður 75–80% af hinu endanlega verði olíunnar hér.

Varðandi þær tölur sem raktar eru í grg., 40–50% verðmun á s. l. sumri á gasolíunni, þá getur hæstv. ráðh. flett upp í LÍÚ til að fá það staðfest. Varðandi þær tölur sem tilgreindar eru um bensín, þá getur hæstv. ráðh. líka flett því upp hver staðan var í þeim málum fyrir tveimur mánuðum. Það eru til gögn, sem birst hafa á opinberum vettvangi, sem staðfesta að þessar tölur, sem tilgreindar eru í grg., voru þá í gildi.

Herra forseti. Ég gef senn lokið máli mínu í þessari atrennu, en ég hlýt að ítreka það, sem ég sagði hér áður, að með tilliti til þess hversu hér er um mikilvægt mál að ræða hefði ég talið eðlilegt að þessari umr. yrði nú frestað og henni yrði haldið áfram þegar talsmenn Framsfl., sem engir eru hér núna, formaður Framsfl. eða formaður þingflokksins og eins formaður þingflokks eða flokks sjálfstæðismanna, væru viðstaddir og gætu tekið þátt í umr. og gætu gefið yfirlýsingar um hvort það sé raunverulega svo að þessir flokkar vilji engar breytingar í þessum efnum og telji að hér sé engan ávinning að hafa, eins og virtist koma fram í máli hæstv. viðskrh., hvort þeir séu sammála því að verðið á Íslandi sé lágt, við eigum enga möguleika á því að fá lægra verð og samkeppni muni ekki geta skilað lægra verði í þessari grein. Þessa óska ég, herra forseti, og ítreka þá ósk mína um leið og ég læt máli mínu lokið á þessu stigi.