17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4279 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur á fundi sínum nú í morgun tekið lánsfjárlög til skoðunar að nýju milli umr. og þar voru lagðar fram nokkrar brtt. sem meiri hl. n. flytur á þskj. 725 sem útbýtt hefur hér verið. Þar er í fyrsta lagi um að ræða hækkun vegna lántöku Landsvirkjunar um 152 millj. kr. eða úr 884 millj. í 1 milljarð 36 millj. Um þetta er það að segja að hér mun vera um að ræða einhverjar mismunandi gengisforsendur, en í n. var þess óskað að hæstv. iðnrh. yrði hér mættur og gerði grein fyrir þessum lið sérstaklega og sé ég hann hér og við fögnum honum og hann mun þá vafalaust greina frá því, sem óskað var eftir, hvernig þessar tölur hafa breyst í meðförunum.

Þá er einnig brtt. sem hljóðar svo:

„Jafnframt er Landsvirkjun heimilt, til viðbótar því sem greinir í 1. mgr., að taka lán allt að 82 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt semjist um stækkun álversins í Straumsvík á árinu 1985.“

Hugmyndin er sem sagt sú, ef slíkir samningar yrðu á komnir um mitt ár kannske eða síðari hluta árs jafnvel, að hraða þá framkvæmdum við Blönduvirkjun.

Þá er það önnur brtt. Þar er lagt til að hitaveita Egilsstaða og Fella fái ábyrgð fyrir 7 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt og þetta er alveg hliðstætt við það sem gerðist að því er varðaði aðrar hitaveitur, Akureyrar, Borgarfjarðar, Siglufjarðar og ég man ekki hvort það voru nú fleiri.

Þá er það þriðja brtt. Fjmrh. verði heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem Framkvæmdasjóður tekur og endurlánar vegna þróunarfélags til nýsköpunar í atvinnulífinu á þessu ári, 500 millj. kr. Það mál þekkja allir hér. Það er svo margrætt að það er hugmyndin að þetta iðnþróunarfélag verði stofnað og lög um það sett á þessu þingi og að 500 millj. renni til þess félags og er þá talið rétt að Framkvæmdasjóður verði þar milligönguaðili.

Þá er það í fjórða lagi svohljóðandi till.:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast lán með sjálfskuldarábyrgð sem endurlánað verður vegna sölu fimm fiskiskipa (raðsmíðaðra skipa) sem hafa verið smíðuð innanlands á árunum 1982–1985. Ráðh. er heimilt að ákveða nánari framkvæmd lagagreinar þessarar með reglugerð.“

Þetta mál þekkja menn líka. Þessi skip eru ekki seld, ég veit ekki hvort eitt er það kannske, en það eru a. m. k. erfiðleikar á sölu þeirra og verða sjálfsagt erfiðleikar á rekstri þeirra líka. Sjóðirnir eru vanmáttugir, bæði Fiskveiðasjóður og Byggðasjóður o. s. frv., og er talið nauðsynlegt að fjmrh. hafi þessa heimild til að gripa til hennar ef allt um þrýtur, ef ekki er hægt að leysa þessi mál með öðrum hætti, enda er ríkið hvort sem er meira og minna í ábyrgðum fyrir þessu máli öllu saman, ber ábyrgð á því, ef við orðum það þannig, og við hér á þinginu, og þess vegna verður ekki undan þessu skotist. Skipin eru að verða fullsmíðuð skilst mér öll sömul og eitthvað verður að hagnýta þau verðmæti með hvaða hætti sem það yrði nú gert.

Þegar upp er staðið eftir þessar brtt. mundu erlendar lántökur í heild verða sem hér segir: A-hluti ríkissjóðs 806 millj. kr., B-hlutinn 1 milljarður 109 millj., fyrirtæki með eignaraðild 1 milljarður 213 millj., sveitarfélög 326 millj., húsbyggingarsjóðir 553 millj., lánastofnanir 1 milljarður 562 millj. og atvinnufyrirtækin 1 milljarður 500 millj. eða samtals 7 milljarðar 69 millj.