17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4280 í B-deild Alþingistíðinda. (3603)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil gera í sem stystu máli grein fyrir fjármögnunaráformum, framkvæmdaáformum Landsvirkjunar á þessu ári með vísun til þeirra áætlana sem gerðar hafa verið og legið hafa fyrir hv. Ed. í vinnslu málsins.

Upphafleg frumdrög á vori liðnu um framkvæmdir og vaxtagreiðslur, þegar allt var tínt til hjá Landsvirkjun, voru 1512 millj. kr., en með bréfi 18. okt. eru mér sendar sundurliðanir og ný áætlun um framkvæmdir og vexti. Skv. þeirri áætlun frá 18. okt. var gert ráð fyrir að framkvæmdir næmu 1115.1 millj. kr., en vaxtagreiðslur á tímanum 285.1 millj. eða samtals 14 millj. og 2 þús. kr.

Þessi áætlun er miðuð við vísitölu byggingarkostnaðar 174 stig, enn fremur verðgildi dollars 33,10 kr. og ég legg alveg sérstaka áherslu á að út í gegn við endurskoðun á þessum áformum var ævinlega mjög skýrt tekið fram að við þessar vísitölur væri miðað í öllum áætlunum.

Hinn 5. des. ritaði ég Landsvirkjun til og taldi óhjákvæmilegt að enn frekari niðurskurður yrði á lánsfjáráætlun ríkisins vegna þess, sem þið þekkið, að við verðum með öllum hætti að draga úr lántökum okkar og óskaði eftir því við Landsvirkjun að hún gerði athugun á hvort ekki væru tök á að skera framkvæmdaáætlun niður um 200 millj. kr., en þá hafði því verið varpað fram af hæstv. fjmrh. hvort ekki væri hægt við þá tölu að miða, 1200 millj., í byrjun des. s. l. Með bréfi daginn eftir, 6. des., féllst Landsvirkjun á að verða við þessum tilmælum og miðar þá framkvæmdaáætlun sína við 1200 millj. kr., en tekur fram að Landsvirkjun muni halda áfram að rannsaka málið alveg sérstaklega með tilliti til þess að e. t. v. væru tök á að fresta einhverjum ákveðnum framkvæmdum og lækka framkvæmdaáætlun enn frekar. Niðurstaða þeirrar úttektar birtist svo í bréfi til mín 28. jan. s. l. og ég held, virðulegur forseti, með hans leyfi, að ég lesi það bréf af því að það skýrir nokkuð nákvæmlega út stöðuna eins og hún er þá og er raunar í dag. Þar segir svo:

„Með bréfi dags. 6. des. s. l. tilkynnti Landsvirkjun yður, hæstv. iðnrh., að stjórn Landsvirkjunar mundi stefna að því að endurskoða framkvæmda- og rannsóknaáætlun Landsvirkjunar fyrir árið 1985 að fengnum niðurstöðum yfirstandandi endurskoðunar orkuspár og endurmats á þeirri öryggiskröfu Landsvirkjunar að halda 250 gwst. óráðstöfuðum í orkugetu Landsvirkjunarkerfisins til að geta komið sem mest í veg fyrir orkuskort þegar illa árar í vatnsbúskapnum. Á fundi stjórnarinnar hinn 24. þ. m. [þ. e. janúarmánaðar] var áætlunin tekin til sérstakrar umfjöllunar og var þá upplýst að athugun sérfræðinganefndar á öryggiskröfunni væri ekki lokið, en til þessa hefði ekkert komið fram sem benti til annars en að umrædd öryggiskrafa eigi fullan rétt á sér. Stjórnin samþykkti því að líta svo á að ekki sé ástæða til að slaka neitt á kröfunni að svo stöddu“, og var ég henni enda sammála um það.

„Enn fremur lágu fyrir fundinum upplýsingar um framreikning orkuspárinnar sem sýndu að orkuspá sú, sem hingað til hefur verið stuðst við, mundi ekki standast og megi þannig að teknu tilliti til öryggiskröfunnar áætla umframorkugetu Landsvirkjunarkerfisins á árinu 1985 um 450 gwst. sem væri hins vegar aðeins 200 kwst. ef orkuspáin hefði staðist. Miðað við hinn nýja framreikning orkuspárinnar og óbreytta kröfu um afhendingaröryggið virðist mega fresta bæði framkvæmdum á þessu ári við 5. áfanga Kvíslaveitu um óákveðinn tíma og Blönduvirkjun um eitt ár ef ekki þyrfti að gera ráð fyrir nýjum orkufrekum iðnaði veturinn 1988–89.

Með hliðsjón af þessu samþykkti stjórnin á umræddum fundi að fella niður þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar hafa verið á þessu ári við 5. áfanga Kvíslaveitu og Þórisvatnsstíflu. Þar sem endurskoðun orkuspárinnar er hins vegar enn ekki lokið telur stjórnin ekki ráðlegt að fresta Blönduvirkjun að svo stöddu, auk þess sem hún telur mikilvægt að Landsvirkjun verði enn um sinn í aðstöðu til að sjá nýjum orkufrekum iðnaði fyrir verulegri orku á næstu árum. Mun stjórnin taka tímasetningu Blönduvirkjunar, svo og Kvíslaveitu, til frekari athugunar þegar ný orkuspá liggur fyrir, sem vonast er til að geti orðið í vor og þá væntanlega við skýrari horfur í stóriðjumálum. Komi þá ekki til neinnar verulegrar hækkunar á orkuspánni að teknu tilliti til stóriðjumöguleika í náinni framtíð kemur mjög til álita að fresta fyrstu vél Blönduvirkjunar til 1989 eða jafnvel lengur.

Vegna umræddrar lækkunar orkuspárinnar hefur stjórnin jafnframt samþykkt að draga úr virkjunarrannsóknum í ár, miðað við fyrri áætlanir. Sú endurskoðun, sem samkvæmt framangreindu hefur farið fram á framkvæmda- og rannsóknaáætlun fyrir árið 1985, leiðir til þess að fyrri áætlun hér að lútandi lækkar um 250 millj. kr. til viðbótar þeim 200 millj. kr. sem þegar var samþykkt að stefna að í des. s. l. Eru niðurstöður hinnar nýju áætlunar þessar:

Framkvæmdir: Virkjanaframkvæmdir 560.4 millj. kr., framkvæmdir í rekstri 67 millj., rannsóknir 67.4 millj. Vextir vegna virkjanaframkvæmda 195.4 millj., vegna framkvæmda í rekstri 4 millj. og vegna rannsókna 59.7 millj. Framkvæmdir samtals 694.8 millj. kr., vextir 259.1 millj., eða samtals 953.9 millj. kr.“

Svo segir í lok bréfsins: „Með tilliti til lánsfjáráætlunar fyrir árið 1985 er í áætlun þessari miðað við sömu verðlags- og gengisforsendur og þar, þ. e. vísitölu byggingarkostnaðar 174 og verðgildi dollars 33,10 kr.“

Undir þetta ritar forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Jónatansson, og er þessari tilvitnun þar með lokið. Þegar ríkisstj. fékk þetta í hendur ákvað hún að lækka þessa áætlun úr 953.9 millj. kr. niður í 884 millj. kr., en inni yrði heimild til 70 millj. kr. lántöku ef ekki yrði um seinkun Blönduvirkjunar að tefla. Fyrir því var talan 884 millj. inni á þessu stigi máls, að sjálfsögðu miðað við hinar fyrri verðlagsforsendur. En á föstudaginn síðasta er vakin athygli mín á því, sem mér kom á óvart og hafði ekki veitt athygli, en með bréfi dags. 11. apríl, á fimmtudaginn var, vekur Landsvirkjun athygli mína á breyttum verðlagsforsendum í lánsfjáráætlun. Þar sem Landsvirkjun og við í okkar áætlunum vegna Landsvirkjunar höfðum miðað við 174 stig vísitölu byggingarkostnaðar og verðgildi Bandaríkjadollars 33,10 kr. var viðmiðun fjárlaga- og hagsýslustofnunar nú: byggingarvísitala 206 stig og gengi dollara 38,41 kr. Hér er alla skýringuna að finna á því að að sjálfsögðu þurfti að taka tillit til þess arna við endanlegan frágang á þeim fjárhæðum sem ætla þarf til framkvæmda og þá einkum og sér í lagi Blönduvirkjunar vegna þess að þar hafa útboð farið fram og samningar raunar verið gerðir við ýmsa verktaka um framkvæmdir. Í framhaldi af því, eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., formanni fjh.- og viðskn., verður heimild inni til lántöku fyrir 82 millj. kr. ef ekki verður um seinkun um eitt ár á Blönduvirkjun að tefla.

Nú vil ég skýra frá því að mjög miklar líkur eru á að þessa heimild þurfi að nota því að eftir nýjustu upplýsingum má telja allsterkar líkur á að samningar takist það snemma á þessu ári um 50% stækkun áliðjuversins í Straumsvík að fullum framkvæmdahraða þurfi að halda við Blöndu þannig að hún komist í gagnið veturinn 1988. Þó tek ég það fram að að sjálfsögðu er þessu ekki alveg ráðið til lykta, en þær undirbúningsviðræður, sem átt hafa sér stað við Swiss Aluminium um stækkun álversins við Straumsvík, benda eindregið til að þannig verði mál vaxin. Enn sem komið er er það ósk viðsemjenda okkar í þessu falli að möguleikar fyrir gangsetningu þessarar viðbótar áliðjuversins verði á árinu 1988.

Ég vænti þess svo að þessar mínar upplýsingar eyði öllum misskilningi sem kann að hafa sprottið af þessu. Auðvitað hefði átt að vera búið að leiðrétta þetta fyrr, ef ég hefði áttað mig á að þessar verðlagsforsendur hefðu ekki alltaf fylgt með í áætlununum, þannig að menn gætu sjálfir gert sér grein fyrir hinni raunverulegu tölu. En ekki tjáir annað en hafa allar réttar tölur og sömu verðlagsforsendur þegar menn eru að ganga frá áætlun sem þessari.