17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4290 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa langt mál í þessari umr. um lánsfjárlög. Það er kominn miður apríl og lögin eru enn þá í fyrri deild og afgreiðslu þeirra ekki fulllokið.

Þegar fjárlög voru lögð fram og leggja hefði átt fram lánsfjárlög var dóttir mín 11 ára hnáta en hún er núna komin á fermingaraldur í millitíðinni. Ég held að sá slóðaskapur sem lýsir sér í þessum vinnubrögðum segi einna mest um þessa löggjöf og um þá alvöru og það mark sem jafnvel þeir menn sem að henni standa taka á henni.

Hér er náttúrlega hin greinarbesta lýsing á því að öll áform og öll loforð og allur ásetningur þessarar ríkisstj. er fokinn út í veður og vind. Verið er að dæla erlendu fé inn í okkar efnahagslíf þennan daginn sem áður, með sömu afleiðingum og ávallt áður. Við erum að þynna út okkar eigin gjaldmiðil. Það fækkar sífellt þeim íslensku krónum sem í umferð eru í íslensku efnahagslífi. Það er ekki nema stutt spönn eftir til þess að við neyðumst einfaldlega til vegna lántökunnar að taka upp annan gjaldmiðil, þann gjaldmiðil sem öllu stjórnar orðið í íslensku efnahagslífi, þ. e. dollarann. Ég held að það svari alls ekki kostnaði að eyða orðum að vangaveltum manna í einstökum greinum þessa frv., einfaldlega vegna þess að þar blasa alltaf við sömu vinnubrögðin: heimildir til lántöku eru hækkaðar alls staðar þar sem nokkurn veginn er tryggt að þær skila litlu sem engu. Það er hækkun heimildar til lántöku vegna framleiðslu á raforku sem enginn kaupandi er fyrir og það er heimild til lántöku vegna framleiðslu salts sem enginn vill neyta og þar fram eftir götunum. Á móti eru síðan lækkaðir þeir þættir sem einhverju skiluðu fyrir einstaklinga. Þannig er lækkun á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og þar fram eftir götunum. Og að endingu, til þess að hafa nú allt eins opið og mögulegt er, til þess að loka ekki neinni gátt þar sem möguleiki er á erlendri lántöku til að fjármagna duttlunga- og geðþóttaverkefni, þá er höfð sem rýmst heimild fyrir fjmrh. til að fullnægja þessum markmiðum. Ef það yrði ekki tekið eins og ábyrgðarlaust grín hefði ég gjarnan viljað bæta við 2. gr. þessa frv., eins og það liggur nú fyrir í 2. umr., þeirri einföldu setningu að fjmrh. sé samt sem áður heimilt að hætta erlendri lántöku, að hluta til eða allri, þegar hann telur það bæta þjóðarhag frekar en lántaka og láta þá á það reyna hver vilji hans og ábyrgð er í þessu máli. Ég er hér með ekki að sneiða að persónu hæstv. fjmrh. Ég er fyrst og fremst að sneiða að því að engir þeirra aðila sem framkvæma þetta frv. bera á því fulla ábyrgð. Þeir geta alltaf skotið sér bak við það að einhverjir aðrir en þeir sjálfir hafi staðið að ákvörðununum, hvort sem það eru þá þm. kjördæma, stjórnmálaflokkar eða þá starfsmenn ríkisstofnana, sem ástunda þann leik að því er manni virðist að byrgja mönnum yfirsýn yfir þá hluti sem viðkomandi stofnanir standa að, á ég hér einkum og sér í lagi við Landsvirkjun, og neita þeim þm. sem ábyrgð eiga að bera á þessum lögum um innsýn í það til hvers á að nota það fé sem um er verið að ræða.