17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4291 í B-deild Alþingistíðinda. (3609)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að því sem fram kom hjá virðulegum síðasta ræðumanni, hv. 8. þm. Reykv., og fullvissa hann um að áform ríkisstj. eru enn í fullu gildi og hafa síður en svo fokið út í veður og vind. Hann verður að taka þeim vonbrigðum sem því fylgja að svo skuli vera. Hv. þm. talaði um óarðbærar erlendar lántökur sem engu skila, hvorki í raforkuframkvæmdum né í saltvinnslu. Ég held að það sé nú öllum ljóst að raforkuframkvæmdirnar, sem hér hafa átt sér stað undanfarin mörg ár á vegum allra ríkisstjórna má segja, svo langt sem okkar kynslóð hefur fylgst með, hafi skilað þjóðinni verulegum árangri. Og eftir því sem þjóðfélagið stækkar, eftir því sem þörfin verður meiri fyrir raforku, hlýtur hún að halda áfram að skila þeim arði sem til var ætlast, þó að við verðum að sjálfsögðu að þola erfiðleikatíma á fyrstu árum framkvæmdanna.

Það dylst engum að hér hafa orðið gríðarlega miklar framfarir, bylting í öllum þjóðfélagsháttum síðan Ísland naut sjálfstæðis. Aftur á móti er saltframleiðslan tilraunastarfsemi. Hún er eiginlega fyrsta tilraunastarfsemin sem efnt er til á Íslandi í verulegum mæli til þess að sannreyna það hvort hér er grundvöllur fyrir efnaframleiðslu í stórum stíl, við getum sagt á heimsmælikvarða, eða ekki. Og tilraunin ein sem slík kostar að sjálfsögðu peninga. Allt það sem menn taka sér fyrir hendur orkar tvímælis í upphafi. Stundum ber það árangur og stundum ekki. Enginn, hvorki ég né aðrir, getur um það dæmt á þessu stigi hvort það sem þegar hefur verið unnið í þeirri tilraunastarfsemi á eftir að bera árangur eða ekki. Það liggur t. d. ekki ljóst fyrir hvort sjávarafurðir okkar eru auðseljanlegri eða betri vara með því hreina salti sem kemur úr þessari tilraunaverksmiðju eða ekki. En eitt er víst: að útflytjendur fiskafurða hafa keypt allt það magn sem verksmiðjan hefur getað afgreitt. Ég vil ekki segja að hér hafi verið um óarðbæra fjárfestingu að ræða. Það er jafnvel arðbært að sannreyna að við eigum engin verðmæti í því sem við erum að kanna.

Ég vil líka vara við þeirri hugsun að heimildir í lánsfjárlögum séu eingöngu til að fullnægja duttlungum fjmrh. Það getur vel verið að hv. 8. þm. Reykv. eigi eftir að verða fjmrh. Þá mundi hann komast að raun um að því fer fjarri. Það er ekkert í lánsfjárlögum sem kallar á tillögu, sem gæti verið tekin sem grín, um að heimila fjmrh. að hætta við erlendar lántökur ef hann telji þjóðhagslega hagkvæmt. Það getur fjmrh. gert. Þetta eru heimildir. Hann þarf ekkert að nota þær frekar en hann telur rétt, nema aðstæður sem hafa verið skapaðar honum í fortíðinni gefi honum ekki svigrúm til annars. Þá er ég t. d. að tala um heimildir þær sem hér var vitnað til og varða raðsmíðaverkefnin. Hvað sem fjmrh. gerir, hvort hann gerir eitthvað eða ekki neitt, þá er búið að ganga þannig frá þeim málum að þau falla á ríkisábyrgðir endanlega ef ekkert er að gert. Hitt er svo annað mál, að hér er verið að reyna að koma í veg fyrir það með því að gefa fjmrh. svigrúm til þess að leita annarra leiða. Og það eru þessar aðrar leiðir sem ég vona að við getum fundið.

Og þá er ég kominn að því að svara hv. 2. þm. Austurl., að það er þess vegna sem svokallað sjálfdæmi er í þessari grein um raðsmíðaverkefnið. (Gripið fram í.) Það fer vel á því. Það fer vel á því vegna þess að ég tel að það sé þjóðhagslega algert lífsspursmál að gera sér grein fyrir því að þessi raðsmíðaverkefni eru orðin svo dýr að það er alveg útilokað að nokkur kaupandi fáist. Og ég teldi mig ekki vera hreinskilinn við Alþingi ef ég gerði mér ekki grein fyrir því og segði Alþingi frá því að ég álít að Ríkisábyrgðasjóður og ríkissjóður neyðist til að taka á sig mismuninn á þeirri upphæð sem skipin kosta og því verði sem samrýmist því að rekstrargrundvöllur sé fyrir skipin. Það er þetta sem ég þarf að fá tíma til að athuga, og þegar við vitum nákvæmlega undir hvaða upphæð skipin geta staðið, miðað við meðalveiði slíkra skipa, þá er hægt að fara þess á leit við t. d. Fiskveiðasjóð að hann yfirtaki áhvílandi lán í Landsbanka Íslands, eða hvar sem þau eru, upp að því marki. Og þá loks fá skipin eðlilegan sess í okkar kerfi og verða til sölu handa þeim aðilum sem þau geta rekið. Þetta er skýringin á því sjálfdæmi sem hv. 2. þm. Austurl. gat um og ég vona að hann sé mér sammála.

Hvað varðar sundurliðun á þessum 500 millj. kr. til þróunarfélagsins þá er ég því miður ekki með hana nú. Ég var með hana við 2. umr. og þar las ég hana upp, sundurliðun um helminginn af upphæðinni. Um hinn helminginn er of snemmt að fjalla vegna þess að það er ekki búið að skipta honum. Helmingnum er óráðstafað þar til þróunarfélagið er orðið að veruleika. Þangað til er þessu fé dreift í gegnum Framkvæmdasjóð, algerlega til bráðabirgða. Ég vona að þessi skýring nægi því að ég er ekki með sundurliðunina núna. Ég var með hana, má segja af hreinni tilviljun, síðast þegar við ræddum þessi mál.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., að auðvitað eru þetta engin vinnubrögð í sambandi við lánsfjáráætlun. Fyrir árið 1984 lagði ég fram fjárlög og lánsfjáráætlun samtímis. Þetta var afgreitt á réttum tíma en það hafði þá ekki verið gert í langan tíma þar á undan. Ég hlýt því að taka undir gagnrýni hv. þm. enda harmar enginn það meira en ég sem fjmrh. að lánsfjárlög skuli vera til meðferðar svona seint. Þetta kemur sér mjög illa fyrir fjmrn. og ríkissjóð í heild og slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar.

Ég get ekki annað en tekið undir það líka að það er aldrei fyrirgefanlegt að fjárfesta í framleiðslu sem ekki selst eða ber sig. En við erum bara með staðreyndir í höndunum. Sem bisnessmaður mundi ég aldrei nokkurn tíma viðhafa slík vinnubrögð. En þau eru bara til staðar og við verðum að moða úr því sem okkur er treyst til að leysa. Þetta eru vandamál sem við verðum að vinna að að leysa.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. var einnig harðorður í garð ríkisstj. vegna sömu vinnubragða og ég tek það að sjálfsögðu til mín sem fjmrh. Hv. þm. á fullan rétt á því að segja það sem hann sagði og kannske svolítið meira, vegna þess að þegar líkar tafir urðu á afgreiðslu lánsfjáráætlunar í hans tíð, og voru þó jafnvel ekki eins slæmar og þessar tafir, þá var ég svo sannarlega ekkert að hlífa honum við ámæli fyrir þau vinnubrögð. Þar af leiðandi má segja að málflutningur frá minni hálfu nú til varnar þessum drætti væri ekki í neinu samræmi við þá afstöðu sem ég hafði þegar ég var í stjórnarandstöðu og hann stóð í mínum sporum.

Við erum að tala hér um breytingu á verðlagsforsendum varðandi þær tillögur sem hér koma fram í 1. lið brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 725. Þar breytast verðlagsforsendur úr 174 stigum í 206. Þetta dæmir hv. 3. þm. Norðurl. v. nokkuð harkalega, harðar en ég bjóst við, vegna þess að öllum er í fersku minni að einmitt af sömu ástæðum þurftum við að taka upp fjárlögin og ræða hér allt fram í maí á síðasta ári leiðréttingar á fjárlögum, sem voru beinar afleiðingar af því að síðustu fjárlög hv. 3. þm. Norðurl. v. voru byggð á svo röngum verðlagsforsendum, eða 40% en um mitt ár var verðbólga komin upp í 84%. Það er einmitt leitast við að hafa þessa hlið lánsfjárlaganna eins rétta og frekast er kostur. En eins og hv. þm. ætti best að vita eru verðlagsforsendur reiknaðar út af Þjóðhagsstofnun og hagsýslunni og í samráði við formann Landsvirkjunar, sem er seðlabankastjóri um leið, er notað meðalgengi ársins á undan þegar undirbúningur að lánsfjáráætlun hefst, meðalgengi að viðbættum þeim verðlagsforsendum sem þá eru best þekktar. Á þeim tíma sem þessi lánsfjáráætlun fór í vinnslu var reiknað með meðalgengi ársins 1984 + 21% hækkun milli ára. Þetta hefur að vísu breyst síðan og þar af leiðandi eru þessar forsendur breyttar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Þessir liðir skýra sig flestir sjálfir. 1. liðinn hefur hæstv. iðnrh. skýrt hér að beiðni fjh.- og viðskn. hv. Ed. 2. liðurinn, um Hitaveitu Egilsstaða og Fella, skýrir sig sjálfur. 3. liðurinn sömuleiðis. Hann var ræddur hér við 2. umr. og gaf ég þá svör um sundurliðun á þeirri upphæð. 4. liðinn, varðandi raðsmíðaskipin, hef ég líka skýrt. Ég tel því ekki ástæðu til að orðlengja þetta að öðru leyti en því að svara hv. 2. þm. Austurl. varðandi þá brtt. sem hann flytur á þskj. 515. Það er deginum ljósara að hér er um brýna þörf að ræða en ég held að till. sem þessa, svona seint fram komna við afgreiðslu á lánsfjárlögum fyrir þetta ár, upp á 100 millj. kr. til viðbótar, sé tæplega hægt að taka til greina þrátt fyrir góðan vilja. Ég vildi því gjarnan mega komast að samkomulagi við flm. um að kostnaður og leiðir til framkvæmda verði kannaðar á þessu ári. Það styttist í gerð fjárlaga fyrir næsta ár og þyrfti að athuga hvort ekki væri þá hægt að hrinda þessu í framkvæmd, kannske ekki á eins mörgum stöðum og gert er ráð fyrir í till., en a. m. k. að hefja framkvæmdir við það verkefni sem um ræðir, að koma upp mengunarvörnum, sem hugsanlega gætu orðið orkusparandi um leið, í fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi. Ég veit það af eigin reynslu að fólk hefur flúið frá byggðarlögum á Austurlandi vegna þess að það hefur ekki þolað andrúmsloftið sem þar ríkir þegar verksmiðjurnar eru í gangi. Það fer því ekkert á milli mála að hér er um mjög brýnt verkefni að ræða. En ég get ekki mælt með því að taka 100 millj. kr. fjárveitingu inn á þessa lánsfjáráætlun á þessu stigi en er fullkomlega reiðubúinn til þess að standa að því að málið verði skoðað betur og frekari kostnaðaráætlanir sem og framkvæmdaáætlanir liggi þá fyrir.

Að lokum vil ég þakka formanni fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Norðurl. v. Eyjólfi Konráð Jónssyni og fjh.- og viðskn. allri fyrir mjög góða samvinnu og vonandi árangursríka um afgreiðslu lánsfjáráætlunarinnar.