17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3610)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að við séum að vinna nefndarstörf fjh.- og viðskn. að töluverðu leyti hér við 3. umr. í deildinni. Eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh. síðast þegar hann steig hér í stólinn hafa ekki allir sama skilning á því hvernig þær tölur eru fengnar sem fram eru komnar hérna í áætlun Landsvirkjunar og birtast í brtt. sem hér eru fluttar á þskj. 725. Það er að sönnu um tómt mál að tala að ætla að vinna nefndarstörf í ræðustól og því er ekki að svo búnu meira hægt að gera í þessu máli, en ég lýsi aftur óánægju minni með þessi vinnubrögð og tel að þau nái ekki nokkurri einustu átt.

Annars kem ég hingað fyrst og fremst vegna þess sem hæstv. iðnrh. sagði út af samningum við Swiss Aluminium Ltd. um stækkun álversins í Straumsvík um 50%, það sem hann sagði þegar hann steig hér síðast í stólinn. Ég verð að segja að nú þykir mér týra. Það er ekkert ljóst með Alusuisse, það hafa engar formlegar samningaviðræður átt sér stað við Alusuisse, upplýsti hæstv. iðnrh. Líkur hafa að vísu aukist á því að samstarfsaðilar séu fundnir fyrir Alusuisse, en engir formlegir samningafundir hafa átt sér stað. Um orkuverðið, sem er auðvitað einn af meginþáttum málsins, er ekkert handfast, svo að ég vitni beint í orð ráðh., og ekki tilefni til að skýra frá neinu í því efni opinberlega. Það gæti gerst, sagði hæstv. iðnrh., að formlegur samningafundur yrði haldinn undir miðjan næsta mánuð í þessu máli. Það er ekkert ljóst. Það liggur ekkert á borðinu. Samt á að setja fulla fart á Blönduvirkjun með það í huga að selja Alusuisse þá orku sem hún mun framleiða, en það hefur oft komið fram hér í umr. á hv. Alþingi að stækkun álversins í Straumsvík mun nýta nærri alla orkuframleiðslu Blönduvirkjunar.

Okkur iðnrh. greinir líka á um hvort það borgi sig að selja Alusuisse orkuna, en það er annað mál sem ég ætla ekki að fara út í hér. Það sem er hins vegar ljóst og borðleggjandi nú er að það á að fara út í að setja framkvæmdir við Blöndu á fulla fart þrátt fyrir að ekkert liggi ljóst fyrir um sölu á orku úr Blönduvirkjun og þrátt fyrir að við höfum á bilinu 450–475 gwst. umfram í núverandi virkjunarkerfi Landsvirkjunar — gwst. sem við getum ekki selt. Þess vegna er fram komin hækkun á lántökuheimildum Landsvirkjunar um 230 millj. kr. við 3. umr. lánsfjárlaga í Ed.

Að mínu viti vísar þetta allt í þá átt að við stefnum hraðbyri eftir þeim glötunarvegi sem hefur verið markaður og ekki bara í tíð núv. hæstv. ríkisstj. heldur í langan tíma þar á undan — þeim glötunarvegi sem hefur verið markaður í orku- og stóriðjumálum hér á landi. Ég vil benda þeim hv. þdm. á það, sem sjá ástæðu til að sitja undir þessari umr., að hér er ekki um litla peninga að ræða. — Það hefur mér ávallt fundist mjög athyglisvert á Alþingi Íslendinga að þegar orkumál eru á dagskrá sjá ákaflega fáir hv. þm. ástæðu til að sitja undir þeim umr. Samt er þarna um að ræða þann hluta af ríkisbúskapnum þar sem einna hæstu fjárhæðunum er velt. Má með fullum rökum segja að það sem er gert í þessum málum skiptir máli fyrir afkomu allra landsmanna. Aðgerðir á þessum sviðum skila sér inn í efnahagslífið með miklum krafti. Þetta er svo stór hluti af því fjármagni sem í veltunni er og þess vegna skiptir þetta máli fyrir alla afkomu landsmanna. Samt hefur mér fundist að áhugi hér á þessum málum hafi verið mjög takmarkaður.

Eins og hér hefur þrásinnis komið fram við umr. og líka við 2. umr., sem ég gat því miður ekki verið viðstödd, heldur erlent lánsfé áfram að streyma inn í íslenskt efnahagslíf. Þar ætlar ekkert lát að verða á og það er heldur ekkert lát á því að þessu rándýra erlenda lánsfé sé veitt til framkvæmda sem ekki verður annað séð en að séu gersamlega óarðbærar, framkvæmda eins og aukinnar orkuframleiðslu sem engin trygging er fyrir að seljist á viðunandi verði, að seljist yfirleitt eða þá með viðunandi hætti til viðunandi aðila, t. d. til innlendra orkunotenda. Á slíka aðila hefur ekki verið minnst einu orði í þessari umr. um lántöku Landsvirkjunar til raforkuframkvæmda.

Ég lýsi því því hér yfir að ég mun greiða atkv. gegn 1. brtt. á þskj. 725 þegar hún kemur til atkv. á eftir. Það er sú brtt. sem á við 3. gr. frv. og hljóðar upp á auknar erlendar lántökur til Landsvirkjunar.

Hæstv. fjmrh. kom í stólinn áðan og þótti mér vænt um að heyra þar þá viðurkenningu hans að hann sem bisnessmaður mundi aldrei fjárfesta í óarðbærum fyrirtækjum og framleiðslu sem ekki er hægt að selja. Þarna erum við hæstv. fjmrh. alveg hjartanlega sammála. Það er það sem ég er að hugsa um. En síðan bætti hæstv. fjmrh. við: En þessi vinnubrögð eru bara til staðar og því er ekki um annað að ræða. — Þetta þótti mér miður að heyra. (Fjmrh.: Þetta er vandamál sem er til staðar. Það var það sem ég sagði.) Vinnubrögð heyrðist mér hæstv. ráðh. segja, en Alþingistíðindi skera úr um það. Það var einmitt alveg hárrétt hjá hæstv. ráðh. að það er ekki beint vandamálið sem er til staðar, heldur hvernig við leysum úr því, hvaða vinnubrögðum við beitum við lausn þess. Þess vegna sá ég ástæðu til að taka þetta niður eftir hæstv. fjmrh. Mér fannst þarna satt og rétt að orði komist. Það eru nákvæmlega þessi vinnubrögð sem ég vil breyta og ég er m. a. hingað komin til þess að breyta þeim og það mun ég áfram gera og vinna að í öllu mínu starfi hér. Mér þætti ekki ónýtt að fá hæstv. fjmrh. til liðs við mig til að gangast í því að breyta þessum vinnubrögðum og taka á þessu vandamáli með öðrum hætti en hingað til hefur verið gert því ekki veitir af, verkefnið er stórt. Ég er m. a. hingað komin til að breyta vinnubrögðum af þessu tagi og að því mun ég áfram vinna meðan ég er hér.