17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4302 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að lýsa stuðningi mínum við bæði þau frv. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir nú . Ég tel aðeins til bóta að koma málinu þannig fyrir að ríkið sé ekki að vasast í verslunarstarfsemi sem aðrir geta gert betur og er ástæðulaust að þenja út ríkisbáknið á þann veg. Ég hygg líka varðandi tóbakið að þetta geti orðið til þess að neytendur fái ódýrara tóbak. Menn segja kannske að það verði til þess að menn reyki meira. Ég tel að svo sé ekki því að sú verðpólitík sem stunduð hefur verið á undanförnum áratugum hefur verið á þann veg að hún hefur ekki hamlað því að reykingar hafi aukist. Ég tel að nota þurfi aðrar leiðir til að draga úr neyslu tóbaks.

Fyrra frv. fjallar um að afnema einkarétt ríkisins á tóbakssölu og eldspýtum. Ég hef einmitt flutt frv. um sama efni í hv. Ed. og það hefur verið samþykkt héðan, liggur í Nd.

En varðandi það hvernig ríkið ætlar að ná inn tekjum af þessum vörum finnst mér harla athyglisvert að nú er reiknað með að söluskattur verði lagður niður á þessu og tekið upp vörugjald í staðinn. Það kemur manni til að hugsa hvort ekki sé hægt að fara þannig að með fleiri vörur og tryggja með því betri heimtur á sköttum til ríkisins, kannske mestöllum vörum sem þurfa í toll að fara. Gaman væri að fá upplýst hvort það er ekki unnt. Ég reikna með að verði þessi leið farin mundi það hafa í för með sér betri innheimtu fyrir ríkissjóð.

En eins og ég sagði áðan lýsi ég fylgi mínu við þessi frv. og tel þau horfa til framfara.