17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4303 í B-deild Alþingistíðinda. (3622)

416. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tel að það sé ekkert óeðlilegt við þá málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Hún er venjuleg undir þessum kringumstæðum. Síðast þegar það skeði í þessari hv. deild að kjörin var sérstök nefnd til þess að fjalla um stjórnarskrármál, á síðasta þingi, var nákvæmlega farið að eins og nú er. Það var lagt til að það yrði skipuð sérstök nefnd til þess að fjalla um málið.

Hér áðan lagði ég til að það væri skipuð sérstök nefnd og gerði það að tillögu minni að kosin verði sérstök nefnd níu manna. Sú till. var borin undir atkv. og hún var samþykkt. Þar með hefur nefndin verið stofnsett. Síðan óskaði hæstv. forseti eftir listum eins og venja er við kjör í nefndir. Listi hefur komið fram og það liggur fyrir að kjósa í þá nefnd sem við áðan samþykktum að stofna.