17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4312 í B-deild Alþingistíðinda. (3633)

165. mál, sláturafurðir

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. landbn. fyrir þessa afgreiðslu. Ég get fallist á að það sé eðlilegt að framlengja þetta aðeins um eitt ár frá því sem brbl. gerðu ráð fyrir þar sem ég hef skipað þriggja manna nefnd til þess að gera úttekt á sláturhúsunum og athuga möguleika á betri hagnýtingu þeirra eins og Alþingi gerði ályktun um að fram færi. Ég vænti þess að nefndin muni á næstunni kynna sér mjög vel hvernig ástand allra sláturhúsa er og út frá því gera sínar tillögur og marka stefnu í þessum málum. Það er augljóst að þegar sláturfé hefur fækkað, eins og hér hefur gerst á síðustu árum, eru viðhorf önnur og í þessu eins og öðru þurfum við að reyna að gæta að sem mestri hagræðingu. Út frá þeim sjónarmiðum mun nefndin vinna jafnframt því sem hún athugar hvaða möguleikar eru á annarri hagnýtingu þessara húsa til þess að létta undir með reksturskostnaði þeirra.

Ég vænti þess að með haustinu muni koma frá nefndinni álit þar sem hægt verður að marka stefnu um framhaldið og miðað við þessa afgreiðslu mun Alþingi þurfa að fá þá málið til meðferðar á næsta þingi og getur haft hliðsjón af þeirri niðurstöðu.