17.04.1985
Neðri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4314 í B-deild Alþingistíðinda. (3640)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Forseti er fús til þess að gefa skýringu á þessu máli. En líklega mun forseta sjálfum um að kenna að nokkru leyti í þessu tilfelli. Þannig stóð á að þess var óskað á tímabili að þetta mál kæmi ekki á dagskrána og gaf þá forseti þau fyrirmæli, þegar verið var að gera dagskrá fyrir alllöngu, að málið kæmi ekki á dagskrá líklega í tvö, þrjú skipti. Við því var að sjálfsögðu orðið af hálfu skrifstofunnar. En síðan hefur farið álíka eins og þegar maður nokkur bauð vini sínum í mat einu sinni á sunnudegi, en það endaði með því að vinurinn fór í fast fæði hjá gestgjafa sínum. Það hefur líkt farið með þetta frv. Það hefur einhvern veginn orðið út undan á dagskránni. En forseti er fús til að taka þetta mál til gagngerðrar athugunar eftir þessa ábendingu hv. 5. þm. Austurl. og er fús til að taka á sig þá ábyrgð sem kann að vera á því að þetta mál hefur ekki komið á dagskrá að undanförnu.