17.04.1985
Neðri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4316 í B-deild Alþingistíðinda. (3642)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru ekki efnislegar breytingar sem ég legg til hér þó að ég vildi ýmsar breytingar. Málið var prýðilega skýrt af frsm. Hins vegar vekur það nokkra athygli að eftir kjarasamningana í nóvember gaf forsrh. út yfirlýsingu í samráði við heilbr.- og trmrh. um að tryggingabótum skyldi verða breytt til samræmis.

Þetta stóð ríkisstj. við og færði allar tryggingabætur til samræmis við launahækkanir nema atvinnuleysisbætur sem að vísu þurftu að fara hér í gegnum þingið. Ég er nokkuð undrandi á því hvaða tíma þetta tekur og enn þá meira undrandi vegna þess að ég veit um vilja hæstv. trmrh. Við áttum persónulegt samtal fyrir jól og ég efast ekkert um heilindi hans að reyna að drífa þetta frv. í gegn sem allra fyrst.

Menn deila hér um stjórnarráð. Það hefur ekki verið nein bónusvinna á því að semja þetta frv. jafn einfalt og það var. Og ég held að þar hafi hreinlega staðið á vinnu í stjórnarráði en ekki vilja hæstv. heilbrrh. Og málið hefur legið óþarflega lengi hér á Alþingi. Mér finnst það undrun sæta að þegar við erum komin fram yfir miðjan apríl er þetta fyrst að komast á lokastig. Þá er hátt á sjötta mánuð síðan aðrar tryggingabætur voru samræmdar.

Erindi mitt upp í þennan virðulega ræðustól var að fara þess á leit við forseta að hann setti annan fund hér í dag þegar 2. umr. lýkur og leitaði afbrigða til að afgreiða þetta mál í dag. Það er öllum aðilum til skammar hvað þetta hefur dregist og ég er ekki hér að gera efnislegan ágreining þó deila megi um margt af þessu. Það er alger óþarfi að láta lengri tíma líða og það ætti að afgreiða þetta mál úr þinginu í dag. Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta að hann hafi það í huga að þetta eru einu tryggingabætur sem hafa orðið að bíða svo mánuðum skiptir. Því miður hefur á þessu tímabili verið töluvert staðbundið atvinnuleysi víða um land. Ég vil biðja hæstv. forseta að vera svo vinsamlegan að óska eftir afbrigðum og afgreiða þetta sem lög í dag.