17.04.1985
Neðri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4316 í B-deild Alþingistíðinda. (3643)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ekki hef ég á móti því að þessi tilmæli hv. 7. þm. Reykv. verði tekin til greina og málið afgreitt í dag. Í sjálfu sér hef ég heldur ekkert á móti því þótt ýmsir stjórnarráðsmenn og ráðuneytisstarfsmenn séu gagnrýndir fyrir sín störf. En ég held að við eigum nokkra sök á í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þess að — ég er nú ekki með þá bókun hjá mér-ég man ekki betur en við höfum samþykkt á vetrarmánuðum að það sem til væri ætlast með þessum samningi kæmi fram í atvinnuleysisbótum á þessum vetri í samræmi við laun á hverjum tíma í 8. flokki Verkamannasambands Íslands. Ég held því að það hafi verið framkvæmt eins og hv. þm. er að mælast til að verði þegar með samþykkt frv. nú. Alla vega tekur það af allan vafa ef þetta frv. verður samþykkt sem lög í dag. Ég tek undir þá ósk, herra forseti.