30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

66. mál, greiðslukort

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vænti þess að frv. til laga um greiðslukort, sem einnig hefði að geyma ákvæði um starfsemi greiðslukortafyrirtækja, verði lagt fyrir yfirstandandi þing. Á vegum viðskrn. er unnið að því að semja slíkt frv., en það hefur engin nefnd verið sett niður. Telji því einhver sig vanta fulltrúa til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þá gildir þar sama fyrir alla. Sá aðili sem að þessu vinnur mun að sjálfsögðu gera athuganir á sjónarmiðum sem fram hafa komið. Ég vil leyfa mér að benda á að viðskrn. hefur áður látið athuga þessi mál og samin hafa verið drög að tveim frv. sem lutu að viðskiptum með greiðslukort. Fyrri drögin voru talin ná of skammt að mati rn. en síðari drögin að frv. til l. um lánsviðskipti hafa verið send ýmsum aðilum til umsagnar og margir þeirra mæltu gegn framlagningu draganna í frumvarpsformi fyrir Alþingi. Hins vegar hefur af minni hálfu sérstaklega verið vakin athygli á samþykkt verðlagsráðs í þessu máli. Þykir mér rétt að hún komi hér fram og ég hef sérstaklega óskað eftir því að skoðuð verði þau sjónarmið sem fram koma þar. Í ályktuninni segir. með leyfi virðulegs forseta:

„Með vísun til síaukinnar notkunar svokallaðra greiðslukorta í verslun og þjónustu telur verðlagsráð að nauðsyn beri til að stjórnvöld setji hið allra fyrsta löggjöf um almenna notkun þessara korta. Markmið lagasetningarinnar skal m.a. vera að tryggja að kostnaður við greiðslukortaviðskipti falli ekki á aðra viðskiptavini en korthafa, jafnframt því sem meðferð kortanna verði gerð öruggari, bæði fyrir korthafa og seljendur vöru og þjónustu.“ — Svo kemur lokasetningin: „Óskar verðlagsráð eftir því að viðskrh. beiti sér fyrir setningu slíkra laga.“

Ég hef hér gert grein fyrir undirbúningi þeirrar lagasetningar. Ég vænti þess, eins og áður er fram komið, að hægt verði að leggja frv. fyrir Alþingi og að það samþykki lög um greiðslukort.