18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4345 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið hér á þingfundi þegar þetta mál kom til umr. hér á hv. Alþingi, en ég vil geta þess strax að rn. félagsmála átti visst frumkvæði að því að þessi þáltill. er hér komin fram og að sjálfsögðu hef ég áhuga fyrir því að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Hér er um heildarsamninga að ræða sem við sem þjóð eigum að sjálfsögðu að samþykkja og reyna að framfylgja eftir þeim möguleikum sem þjóðfélagið hefur hverju sinni. Þess vegna fagna ég því að þessi þáltill. er hér komin fram og þeim undirtektum sem till. hefur fengið hér á hv. Alþingi hjá þeim þm. sem til máls hafa tekið.

Hv. 11. þm. Reykv. hefur beint til mín nokkrum spurningum í sambandi við þetta mál. Að vísu væri hægt að hafa langt mál um það sem kom fram í hennar ræðu hér. Ég vil segja það í fyrsta lagi að þessi ríkisstj. hefur lagt fram fyrir Alþingi frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og ég vil segja það hér að að sjálfsögðu þarf félmn. Nd., sem hefur þetta frv. til meðferðar, að fara vandlega yfir það frv. og gera á því nauðsynlegar breytingar ef um er að ræða þar ákvæði sem stangast á við þá stefnumörkun sem hér er lagt til að fullgilda með þessari þáltill. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt og jafnframt því tel ég ástæðu til að ítreka það hér, sem ég raunar tók fram í framsögu fyrir því máli á sínum tíma, að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi því að í þessu frv., þó að það hafi verið gagnrýnt á vissum sviðum, eru ákvæði um framkvæmdaatriði, þ. e. verkefni Jafnréttisráðs, sem eru nauðsynleg og betur skilgreind í þessu lagafrv. en í núgildandi lögum og gefa Jafnréttisráði eða starfssviði þess miklu sterkari stöðu í meðferð þessara mála. Ég tel ástæðu til að láta þetta koma fram hér.

Það er alveg ljóst, og þegar við skoðum og lesum yfir þessa þáltill. þarf það ekki að koma neinum á óvart, að auðvitað er í okkar þjóðfélagi á margan hátt langt í land að búið sé að ná viðunandi stöðu í jafnréttismálum að því er varðar jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna. Við þekkjum það og það þarf ekki að halda ræður um það. Með jafnréttislögunum og nýju frv. til l. er stefnt að því að reyna smátt og smátt að jafna þann mun. Ég held að það sé almennt viðurkennt í þjóðfélaginu að að þessu beri að vinna og menn eru ekki ósammála um eðli málsins. Það er þá helst um aðferðina og hversu fljótt þetta á að ske. En á vinnumarkaðinum er aðalmálið misræmið sem er á milli launa í kvenna- og karlastörfum. Það er of mikið. Það er viðurkennt. Það hefur komið fram í þeim könnunum, sem gerðar hafa verið, að þessi munur er fyrir hendi og það þarf að leiðrétta hann. Auðvitað má vel vera að ríkisvaldið geti þarna gengið á undan. Ég geri ráð fyrir að það hljóti að koma fram í samningagerð og að í þeirri kröfu sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja leggur fram sé þetta sett á oddinn, ég reikna alveg með því, þannig að smátt og smátt er þessi jöfnuður að nást.

Eftir að Alþingi er búið að samþykkja þessa þáltill. verður þetta enn þá ljósara sem stefnumörkun og að hluta til skuldbinding Ég tel alveg sjálfsagt að að þessu verði unnið í áföngum. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. geri sér grein fyrir því að því markmiði, sem þarna verður staðfest, verður ekki náð á einum degi, það tekur sinn tíma, og ef stjórnvöld og allir aðilar, sem hlut eiga að máli, eru sammála um að vinna að þessu trúi ég því að þessu markmiði verði náð. Fyrir mitt leyti get ég lýst því yfir að ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að hafa áhrif á að svo verði.

Auðvitað eru hér, eins og komið hefur fram í ræðum, margvísleg mál sem þyrfti að sinna. Eins og kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. er alveg ljóst, og það hefur oft verið talað um það héðan úr þessum ræðustól og það hef ég m. a. gert, að það er ákaflega óeðlilegt hvað það dregst að meta á réttan hátt gildi heimilisstarfa og þess hlutverks sem heimavinnandi konur gegna í okkar þjóðfélagi. Augljóst mál er að þetta er óréttlæti sem ætti að vera búið að leiðrétta. Ég trúi því að senn líði að því að þetta verði tekið sérstaklega til meðferðar og komi hér fram á Alþingi, bæði að því er varðar tryggingamál o. fl.

Að því er varðar fæðingarorlofið vil ég rifja það upp að í stefnuskrá þessarar ríkisstj. er kveðið á um að lög um fæðingarorlof séu tekin til endurskoðunar. Það hefur farið fram umræða um þetta mál hér á Alþingi og komið fram ýmsar tillögur sem taka á þessu máli, en ég á fastlega von á því að ríkisstj. fylgi þessu máli fram. Það hefur verið rætt í ríkisstj. og ég treysti því að hæstv. heilbr.- og trmrh. muni fljótlega koma með frv. að því er þetta varðar. Þetta mál er í endurskoðun.

Í sambandi við barnagæslustofnanir, dagvistarstofnanir, er talað um neyðarástand. Það vill nú svo til að það liggur fyrir tíu ára áætlun um uppbyggingu dagvistarstofnana í landinu. Þetta er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Því er ekki að leyna að þetta hefur gengið hægar en æskilegt væri, en það hefur þó sífellt verið þróun í þá átt að byggja fleiri og fleiri dagvistarstofnanir og ég hef ekki orðið var við að það væri nein stefnubreyting í því og veit ekki betur en menn séu sammála um að þessum þætti þurfi að sinna. Ég hygg að það komi jafnvel enn betur fram þegar það liggur ljóst fyrir að sveitarfélögin hafa látið þá skoðun í ljós að þau vildu gjarnan yfirtaka þetta verkefni algerlega. Þó að af því hafi ekki orðið kemur þetta nú til ákvörðunar í þeirri nefnd sem er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og jafnframt verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hér er um mál að ræða sem allir eru sammála um að þurfi að þróast fram á við og ég veit ekki til að neinn aðili í þjóðfélaginu hafi á móti því að unnið sé að því að koma upp fleiri dagvistarstofnunum í landinu. Þannig er ekki ágreiningur um málið að öðru leyti en því hversu hratt það á að ganga fyrir sig eins og önnur framkvæmdaatriði þegar um það er að ræða að ekki er hægt að gera allt jafnhratt og menn mundu vilja kjósa.

Ég held að ég þurfi ekki að tala meira um þetta. Ljóst er að við erum sammála um að reyna að framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð er í þessari samþykkt Sameinuðu þjóðanna og með því að staðfesta þessa þáltill. og með því að samþykkja nýtt frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með þeirri samræmingu sem þar þarf sjálfsagt að gera til þess að það sé í fullu samræmi við þennan samning, tel ég að stefnan sé mörkuð og skuldbinding sé gefin um að vinna að því að hér á landi komist sá jöfnuður á sem að er stefnt í þessari þáltill. Að sjálfsögðu mun ég, meðan ég gegni starfi jafnréttisráðherra, reyna að stuðla að því að svo geti orðið.