30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

66. mál, greiðslukort

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans, einkum þar sem það er jákvætt að frv. er í vinnslu. Ég tel það ákaflega mikilvægt að þessi mál komist í einhvern fastan farveg. Hitt er annað mál að það er óneitanlega dálítið ankannalegt að einn maður sitji og semji frv. Ekki væri óeðlilegt að fleiri kæmu inn í dæmið. T.d. mætti ræða við launþegasamtökin í landinu um hver í raun og veru eigi að greiða fyrir þessa þjónustu. Ég veit ekki hvort ég mátti skilja það af máli hæstv. ráðh. að hann og hans rn. væru þeirrar skoðunar að korthafar ættu sjálfir að greiða fyrir þessa þjónustu. Það er augljóst t.d. af viðtölum við kaupmenn í Dagblaðinu í gær að þeir eru uggandi um þessi viðskipti. T.d. segir Gunnar Snorrason kaupmaður þar, með leyfi forseta:

„Sannleikurinn er sá að ein af upphaflegum kröfum okkar var að kostnaðurinn við kortin yrði færður yfir á korthafana og viðræður stóðu yfir við bæði fyrirtækin. Tillögur okkar gengu einnig út á það að fyrirtækin lækkuðu þóknun þá sem kaupmenn greiddu. En það var enginn vilji í fyrstu að lækka þessa þóknun.“ Þetta segir Gunnar Snorrason.

Stjórnendur Hagkaups vilja ekki taka við greiðslukortum og segja það ríkjandi skoðun að tilvera þeirra leiði til þess að vöruverð hækki og slíkt sé ekki í anda fyrirtækisins. Jón Sigurðsson kaupmaður í Miklagarði segir aftur á móti að þeir hafi „farið í kortin aftur vegna þess að mikill þrýstingur hafi verið frá kúnnunum,“ eins og þar stendur.

Ég tel að hér hljóti stjórnvöld að marka einhverja stefnu um hver eigi raunverulega að greiða fyrir þessa þjónustu. Hér er ekki um neina smápeninga að ræða. Í máli Gunnars Snorrasonar kemur fram að áður greiddu þessar verslanir um 30 millj. í þóknun á ári en nú er sú upphæð komin niður í á að giska 18 millj. Við erum þess vegna ekki að tala hér um neina smápeninga. Það gefur augaleið að þetta borgar enginn annar en viðskiptavinurinn. Mér þætti þess vegna vænt um að heyra skoðun ráðh. á því hver eigi að greiða fyrir þessa þjónustu. Einnig vil ég skora á hann að sjá til þess að þeir aðilar, er þessi mál varða, verði teknir með í gerð frv. án þess að ég efist hið minnsta um að Jón Magnússon er gjörkunnugur þessum málum. Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðh. fyrir svör hans.

Þetta mál er hins vegar lærdómsríki að því leyti að þarna kemst á laggirnar — í raun og veru án þess að nokkur stýri því — umtalsverð breyting á viðskiptaháttum landsmanna. Síðar sitjum við uppi með orðinn hlut og verðum að reyna að fella þessa breytingu undir lög og reglur þegar hún er þegar almennt um garð gengin. Heppilegra hefði e.t.v. verið að hæstv. þáv. viðskrh. hefði brugðist við og reynt að setja þessar reglur fyrr.